fbpx
Þriðjudagur 03.desember 2024
Eyjan

Evrópumálin: Gangi Noregur inn í ESB verður Ísland líka að ganga inn – hinn kosturinn er efnahagsleg hnignun

Ólafur Arnarson
Sunnudaginn 24. nóvember 2024 16:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Íslenskir stjórnmálaleiðtogar standa frammi fyrir því hvort þeir ætli að stofna efnahagslegri framtíð þjóðarinnar í hættu með því að sitja hjá meðan Noregur sækir um aðild að Evrópusambandinu eða hvort þeir sýni þjóðinni það traust að leyfa henni að ráða eigin framtíð. Margt bendir nú til þess að EES heyri senn sögunni til, enda eru forsendur fyrir EES brostnar gangi Noregur í ESB.

Nú bendir margt til þess að Noregur færist hratt í þá átt að sækja að nýju um aðild að Evrópusambandinu. Kosið verður til þings í Noregi 8. september á næsta ári og eitt kosningamálið er að sótt verði um aðild að ESB.

Noregur hefur tvívegis hafnað aðild að ESB í þjóðaratkvæðagreiðslu, 1972 og 1994. Í fyrra skiptið höfnuðu um 53 prósent aðild en 52 prósent í seinna skiptið. Innrásarstríð Pútíns í Úkraínu hefur orðið til þess að Svíar og Finnar, sem voru fyrir í ESB, endurskoðuðu hlutleysisafstöðu sína og eru nú báðar þjóðirnar orðnar aðilar að Atlantshafsbandalaginu.

Stríðið og Trump

Stríðið í Úkraínu hefur einnig orðið Norðmönnum tilefni til að endurskoða stöðu Noregs í alþjóðasamfélaginu. Eins og Íslendingar eru Norðmenn í NATO en standa utan ESB. Ásamt Liechtenstein eru Noregur og Ísland hins vegar í EES ásamt öllum aðildarríkjum ESB.

Í byrjun þessa mánaðar var Donald Trump kosinn forseti Bandaríkjanna. Alþjóðlegir greinendur virðast á einu máli um að kjör hans geri það að verkum að NATO verði ekki lengur það skjól fyrir Evrópu sem verið hefur allt frá 1949, enda hefur Trump ekki farið í grafgötur með að hann telji að Evrópa eigi að verja sig sjálf, það sé ekki hlutverk Bandaríkjanna að passa upp á hana. Því virðist ljóst að NATO veikist á ögurstundu þegar meiri ógn stafar að þjóðum Evrópu en nokkru sinni frá Síðari heimsstyrjöldinni. Þetta hefur enn orðið til að auka vægi ESB umræðunnar í Noregi.

Pútín eina ógnin við fullveldi

Andstæðingar ESB aðildar á Íslandi hafa löngum beitt hræðsluáróðri í málflutningi sínum og lykilstefið hefur verið að með inngöngu í ESB missi Ísland fullveldi sitt. Finnar telja ekki að þeir hafi afsalað sér fullveldi sínu með inngöngu í ESB. Þeim er ljóst að helsta ógnin við fullveldið er ekki frá ESB heldur frá nágrannaríkinu í austri sem hefur sýnt að það veigrar sér ekki við að fara með hernaði gegn nágrönnum sínum.

ESB er öðrum þræði varnarbandalag og í stofnskrá sambandsins er ákvæði sem skyldar öll aðildarríki til að koma öðrum aðildarríkjum til hjálpar sé á þau ráðist. Tilgangurinn með stofnun ESB og forvera þess var einmitt að sameina viðskipta- og efnahagslega hagsmuni bandalagsríkjanna svo að stríð í álfunni yrði óhugsandi í framtíðinni.

Mikill ávinningur

Við Íslendingar njótum nú margs af því sem fylgir fullri aðild að ESB í gegnum EES. ESB hefur hleypt okkur inn í fjórfrelsið sem hefur haft gríðarlega mikil og góð áhrif hér á landi síðustu áratugina. Við erum hins vegar í þeirri stöðu að við höfum engin áhrif á þróun regluverks í ESB og þar með innan EES vegna þess að við stöndum fyrir utan ESB.

Þá ber einnig á það að líta að vegna þess að við erum ekki aðilar að ESB getum við ekki tekið upp evruna. Því sitjum við enn uppi með íslensku krónuna, sem er í raun ekkert annað en risastór varnarmúr fyrir íslensk fákeppnisfyrirtæki, t.d. bankana og tryggingafélögin. Krónan er m.a. ástæða þess að við Íslendingar borgum margfalda vexti á við nágrannaþjóðirnar af húsnæðislánum.

Samtrygging ESB-þjóða

Þegar horft er til hamfaranna sem gengið hafa yfir Grindavík undanfarið ár og þann kostnað sem lendir á íslenskum skattgreiðendum vegna þeirra er vert að minna á að ESB hleypur undir bagga þegar hamfarir verða í aðildarríkjum sambandsins. Þannig virkar ESB sem samtrygging fyrir allar aðildarþjóðirnar.

En aftur að EES. EES hefur reynst okkur Íslendingum geysilega vel. Það eru hins vegar Norðmenn sem halda uppi EES. Þeir hafa axlað gríðarmiklar fjárhagsskuldbindingar til að gera EES að veruleika. Ísland og Liechtenstein fá svo að vera með, svo einfalt er það. Án Noregs er ekkert EES. Punktur.

Við Íslendingar ættum því að fylgjast vel með því sem er að gerast í Noregi. Gangi Noregur í ESB heyrir EES sögunni til. Margt bendir til þess að svo kunni að fara eftir kosningarnar á næsta ári að Noregur leggi inn umsókn. Ef það gerist sitjum við Íslendingar eftir með sárt ennið. Við munum eiga einn raunhæfan kost ef við viljum ekki hefja efnahagslega eyðimerkurgöngu til síversnandi lífskjara. Við verðum taka aftur upp aðildarviðræður við ESB. Það er hins vegar deginum ljósara að ef við bíðum þar til eftir að Noregur sækir um munum við standa höllum fæti – áherslan hjá ESB mun óhjákvæmilega vera að afgreiða umsókn Noregs á undan okkar umsókn.

Sagan mun dæma

Í Noregi fylgjast menn vel með komandi þingkosningum hér á landi. Þar er þess beðið með eftirvæntingu hvort við förum í þjóðaratkvæði um að endurvekja aðildarviðræður okkar. Í Noregi telja nefnilega margir að Norðmenn muni þurfa að sækja um aðild ef við förum inn í ESB.

Með hliðsjón af stöðu alþjóðamála og þess veruleika sem bíður okkar ákveði Norðmenn að sækja um aðild verður það að teljast beinlínis glæfralegt gáleysi og grímulaus varðstaða um þrönga sérhagsmuni að standa í vegi fyrir því að við róum að því öllum árum að komast inn í ESB eins fljótt og auðið er. Fyrsta skrefið er að þjóðin fái að kjósa um það hvort aðildarviðræðum verði haldið áfram. Sagan mun dæma stjórnmálaleiðtoga samtímans af afstöðu þeirra og gjörðum í þessu máli.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Það sem skiptir máli varðandi ESB-aðild

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Það sem skiptir máli varðandi ESB-aðild
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Um 11% atkvæða gætu dottið niður dauð

Um 11% atkvæða gætu dottið niður dauð
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Finnbjörn ómyrkur í máli og varar landsmenn við – Til standi að einkavæða heilbrigðiskerfið og endurtaka kvótafléttuna

Finnbjörn ómyrkur í máli og varar landsmenn við – Til standi að einkavæða heilbrigðiskerfið og endurtaka kvótafléttuna
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Leynivinaleikur leiðtoganna – Hver fékk hvað frá hverjum?

Leynivinaleikur leiðtoganna – Hver fékk hvað frá hverjum?