fbpx
Laugardagur 05.október 2024
Eyjan

Skólamál: Niðurstöður PISA sýna aukinn félagslegan ójöfnuð á Íslandi og færri afburðanemendur en í öðrum löndum

Eyjan
Mánudaginn 19. ágúst 2024 15:00

Þórdís Jóna Sigurðardóttir, forstjóri Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Niðurstöður PISA eru ekki samanburðarhæfar milli skóla og geta gefið mjög villandi mynd um stöðu einstakra skóla. Úr þeim má hins vegar lesa það að við höfum verið á rangri braut og að félagsleg staða hefur meiri áhrif en áður á stöðu íslenskra nemenda. Við erum nú orðin eins og hin Norðurlöndin hvað það varðar, sem ekki eru góðar fréttir. Þórdís Jóna Sigurðardóttir, forstjóri Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu, er gestur Ólafs Arnarsonar í hlaðvarpi Eyjunnar.

Brot úr þættinum má heyra hér:

Eyjan - Thordis Jona Sigurdardottir - 4.mp4
play-sharp-fill

Eyjan - Thordis Jona Sigurdardottir - 4.mp4

„Það er algerlega skýrt að markmið PISA er að skoða stöðu landsins. Í Finnlandi eru bara u.þ.b. sjö þúsund börn sem taka PISA. Það eru ekki öll finnsk börn sem taka það. Þau taka bara úrtak. Sama er í Danmörku og raunar öllum löndum. Það eru svona á bilinu 7-8 þúsund börn sem taka prófið í hverju landi,“ segir Þórdís Jóna.

„Hér á Íslandi erum við svo fá að öll börn á Íslandi taka prófið. Spyrja má hvort það skipti málin varðandi niðurstöðuna. Ég veit það ekki, það á ekki að gera það. Þetta er pínu flókið. Það má horfa á það þannig að PISA er að minnsta kosti 18 mismunandi próf. Þau eru misþung og prófa mismunandi þætti. Sum próf prófa bara stærðfræðilæsi og sum bara lesskilning og önnur próf eru svo sambland af þessu.“

Þórdís Jóna segir 70 prósent skóla vera með færri en 30 nemendur sem taki prófið. Handahófskennt sé hvaða próf þessir nemendur taka. Alveg geti hugsast að allir nemendur í einum skóla séu að taka sama prófið og þess vegna gætu allir í einhverjum skóla verið að taka erfiðasta prófið.

„Svo koma niðurstöðurnar og þær eru ekki niður á nemanda þannig að ómögulegt er að vita hvaða próf hvert barn tók,“ segir hún. Þannig geti alveg verið að í einhverjum skóla hafi allir eða flestir tekið erfiðasta prófið og í einhverjum öðrum skóla hafi flestir tekið léttasta prófið.

Þú meinar að þetta sé ekki sambærilegt milli skóla …

„Já, það er ekki í einum einasta skóla sem börn eru að taka nákvæmlega sama prófið.“

Já, þetta hefur valdið tortryggni hjá foreldrum skólabarna sem hafa áhyggjur af því að kerfið sé að bregðast börnunum þeirra.

Hún segir það ekki vera skrítið þegar engar aðrar mælingar séu. Það heyrist að í Finnlandi og Lettlandi sé verið að birta þetta niður á skóla en þá verði að hafa í huga að það séu alls ekki allir skólar í þessum löndum sem taki þátt í PISA. Hún segist skilja tortryggni foreldra vel, að loksins þegar einhver gögn eigi að vera til staðar þá fái fólk ekki að sjá þau. Staðreyndin sé hins vegar sú að þessi gögn séu ekki samanburðarhæf milli skóla og varhugavert sé að gefa upplýsingar sem í raun séu rangar, eða í öllu falli ekki samanburðarhæfar.

En við getum samt dregið þá ályktun af niðurstöðum PISA og hvernig þær hafa þróast í gegnum árin að við höfum verið á rangri braut. Er ekki óhætt að draga þá ályktun.

„Jú, við auðvitað verðum að gera það, miðað við niðurstöðurnar. Á sama tíma þá getum við líka lesið í þær að það sem er að gerast á Íslandi er það er meiri munur eftir félagslegri stöðu.“

Skerum við okkur úr hvað það varðar?

„Við erum bara komin á sama stað og hin Norðurlöndin, við vorum það ekki. Þetta eru ekki góðar fréttir.“

Þannig að það sem PISA er að lýsa og þróunin í getu grunnskólanemenda er birtingarmynd þess að við erum að verða stéttskiptara samfélag.

„Svo skerum við okkur aðeins úr, sem er umhugsunarvert, að við erum með mun minni hóp afburðanemenda.“

Hægt er að hlusta á hlaðvarpið í heild sinni hér:

Einnig er hægt að hlusta á Spotify eða hlaðvarpsþjónustu Google:
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Peningamaskínan Trump selur úr á 13 milljónir

Peningamaskínan Trump selur úr á 13 milljónir
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 dögum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Skuggasundið

Þorsteinn Pálsson skrifar: Skuggasundið
Hide picture