fbpx
Laugardagur 15.júní 2024
Eyjan

Össur segir stjórnmálamenn geta orðið góðir forsetar og minnir á Ólaf Ragnar og Ásgeir

Ritstjórn Eyjunnar
Miðvikudaginn 22. maí 2024 21:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Össur Skarphéðinsson fyrrum ráðherra, þingmaður og formaður Samfylkingarinnar ritaði fyrr í dag grein á Vísi þar sem hann leitast við að svara gagnrýni á forsetaframboð Katrínar Jakobsdóttur. Þau sem hæst hafa látið í sér heyra í gagnrýni sinni á framboð Katrínar segja meðal annars að það gangi ekki að einhver stigi beint úr stóli forsætisráðherra í forsetaframboð og að stjórnmálamaður, sem verði eðli málsins samkvæmt ávallt umdeildur, geti ekki orðið það sameiningarafl sem forsetinn eigi að vera. Einnig hefur heyrst að Katrín hljóti óhjákvæmilega að samþykkja allt sem ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar geri þar sem ríkisstjórn hans hafi verið mynduð beint upp úr hennar ríkisstjórn.

Össur, sem styður framboð Katrínar, segir fyrrum stjórnmálamenn vel geta orðið að því sameiningarafli sem forsetinn þurfi að vera og vísar til forsetatíðar Ólafs Ragnars Grímssonar og Ásgeirs Ásgeirssonar. Hann víkur einnig að þeim fullyrðingum að lengri tími hefði þurft að líða frá því að Katrín lauk þátttöku í stjórnmálum þar til hún fór í forsetaframboð og að þess vegna geti hún ekki orðið sameingarafl sem forseti. Össur minnir á að fyrir þessu sé fordæmi:

„Er fólk búið að gleyma því að Ólafur Ragnar var í mjög svipaðri stöðu og Katrín þegar hann fór í framboð til forseta árið 1996? Hann var þá, eins og Katrín, leiðtogi lítils stjórnmálaflokks. Sannarlega var hann þá, líkt og Katrín, öflugasti stjórnmálamaður sinnar tíðar. En hann var líka langsamlega umdeildasti stjórnmálamaður landsins og mun umdeildari en Katrín áður en hún gaf kost á sér.“

Hafi fljótt orðið sameinandi

Össur minnir á að framboð Ólafs Ragnars árið 1996 hafi verið afar umdeilt:

„Andstaðan við Ólaf Ragnar í forsetaframboðinu 1996 var svo sterk, að hópur manna birti heilsíðuauglýsingar gegn honum dag eftir dag. Þá, líkt og sagt er nú um Katrínu, héldu andstæðingar hans fram að hann gæti aldrei orðið sameinandi afl fyrir Íslendinga.“

Þar er Össur að vísa í afar umdeildar auglýsingar sem birtust oft í dagblöðum fyrir forsetakosningarnar 1996. Í auglýsingunum voru meðal annars ýmis ummæli og embættisverk Ólafs Ragnars rifjuð upp bersýnilega í því skyni að draga upp neikvæða mynd af honum og hvetja kjósendur til að greiða honum ekki atkvæði sitt. Yfirleitt voru þó kjósendur, í auglýsingunum, ekki hvattir berum orðum til þess að kjósa ekki Ólaf Ragnar.

Auglýsingarnar vöktu miklar deilur og meðal annars bárust Morgunblaðinu fjöldi kvartana vegna þeirra og margar fyrirspurnir um hvers vegna blaðið væri að birta slíkar auglýsingar.

Samkvæmt umfjöllun Morgunblaðsins á þeim tíma stóð hópur fyrir auglýsingunum stóð hópur sem kallaði sig Óháðir áhugamenn um forsetakjör 1996. Fyrir honum fóru þrír menn sem höfðu verið áberandi í íslensku atvinnulífi á þessum tíma. Þetta voru Sigurður Helgason, fyrrverandi forstjóri og stjórnarformaður Flugleiða (nú Icelandair), Björgólfur Guðmundsson framkvæmdastjóri, og Ómar Kristjánsson framkvæmdastjóri. Þeir sögðu markmið auglýsinganna vera að hjálpa kjósendum að taka upplýsta afstöðu og það væri þeirra sjónarmið að kjósendur ættu rétt á að vera meðvitaðir um fortíð forsetaframbjóðandans Ólafs Ragnars Grímssonar.

Þrátt fyrir auglýsingarnar náði Ólafur Ragnar kjöri og Össur segir hann fljótlega ekki hafa verið umdeildur lengur:

„Áður en ár var liðið frá kjöri varð Ólafur Ragnar í krafti reynslu og atgervis orðinn að sameiningatákni þjóðarinnar sem naut 80% fylgis meðal þjóðarinnar.“

Össur ítrekar þó að þetta hafi verið fyrir tilkomu fjölmiðlalaganna og samninganna um Icesave sem Ólafur Ragnar synjaði staðfestingar og braut þar með blað í sögu forsetaembættisins.

Ólafur Ragnar varð umdeildari eftir þetta sem forseti og skemmst er að minnast þess að hann hlaut 52 prósent atkvæða í síðustu kosningunum sem hann bauð sig fram í, 2012, sem dugði honum sannarlega til sigurs en getur vart talist vera nægilegt fylgi til að hægt hafi verið kalla hann því sem næst óumdeildan, á þeim tíma.

Misskilningur

Össur segir þess misskilnings gæta að Ólafur Ragnar hafi verið hættur í stjórnmálum þegar hann bauð sig fram til forseta. Hann hafi vissulega verið hættur sem formaður Alþýðubandalagsins en setið enn á Alþingi og ekki sagt af sér þingmennsku fyrr en hann var kjörinn forseti. Össur minnir á að Katrín hafi nú þegar sagt af sér öllum embættum.

Össur rifjar einnig upp framboð annars stjórnmálamanns Ásgeirs Ásgeirssonar sem kjörinn var forseti 1952. Össur minnir á að framboð Ásgeirs hafi reynst umdeilt en andstaðan við hann hafi minnkað fljótt eftir að hann tók við forsetaembættinu:

„Hann var umdeildur stjórnmálamaður og forsætisráðherra, þó drjúgur tími liði milli þess og kjörs hans sem forseta. Það breytir engu um að andstaðan við hann í forsetakosningunum 1952, þar á meðal langöflugasta stjórnmálaflokks landsins, hjaðnaði skjótt. Ásgeir varð sameinandi afl, margendurkjörinn án mótframboðs, og í minningunni eins konar þjóðarafi.“

Ásgeir var forsætisráðherra á árunum 1932-1934 og því ekki kjörinn forseti fyrr en 18 árum síðar. Ásgeir var alþingismaður frá 1923-1952 en það kemur ekki fram í alþingismannatali hvort hann sagði af sér þingmennsku eftir að hann var kjörinn forseti Íslands. Ljóst er þó að eins og Ólafur Ragnar gerði tæpri hálfri öld síðar fór Ásgeir beint úr stjórnmálunum á Bessastaði. Ásgeir var eins og Ólafur Ragnar umdeildur stjórnmálamaður. Báðir hröktust þeir til að mynda úr Framsóknarflokknum vegna deilna við aðra framámenn í þeim flokki. Ásgeir byrjaði sinn feril á Alþingi í Framsóknarflokknum en endaði hann í Alþýðuflokknum.

Össur segir fordæmi Ólafs Ragnars og Ásgeirs sýna að umdeildur stjórnmálamaður geti orðið forseti og fylkt þjóðinni að baki sér og því eigi ekki að útiloka Katrínu eingöngu vegna fortíðar hennar í stjórnmálum.

Grein Össurar í heild sinni er hægt að lesa hér.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Að bera litinn
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Jódís búin að fá nóg af sumum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins – „Orðið ansi þreytandi“

Jódís búin að fá nóg af sumum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins – „Orðið ansi þreytandi“
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Hvað segja lögin umdeildu sem Bjarkey segir binda hendur sínar?

Hvað segja lögin umdeildu sem Bjarkey segir binda hendur sínar?
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Steinunn Ólína skrifar: Verðmætamatið

Steinunn Ólína skrifar: Verðmætamatið
Eyjan
Fyrir 1 viku

Bjarni vill ræða breytingar á kjördæmaskipan og hærri þröskuld á fjölda meðmælenda forsetaframbjóðenda

Bjarni vill ræða breytingar á kjördæmaskipan og hærri þröskuld á fjölda meðmælenda forsetaframbjóðenda