fbpx
Laugardagur 22.júní 2024
Eyjan

Össur bendir á Ögmund sem næsta leiðtoga Sósíalistaflokksins

Einar Þór Sigurðsson
Mánudaginn 10. júní 2024 16:30

„Þegar ég hætti í stjórnmálum fannst mér hann vera einn besti og heiðarlegasti samstarfsmaðurinn sem ég hafði notið,“ segir Össur um Ögmund.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi þingmaður og ráðherra, segir að Ögmundur Jónasson, fyrrverandi þingmaður VG, sé tilvalinn til að leiða Sósíalistaflokkinn í næstu þingkosningum.

Össur gerir þetta að umtalsefni í pistli á Facebook-síðu sinni, en þar fer hann yfir grein sem Ögmundur skrifaði á heimasíðu sína fyrir helgi þar sem hann fór yfir sögu VG og þau vandræði sem flokkurinn stendur nú frammi fyrir. Segir Össur að um sé að ræða endanlegt uppgjör Ögmundar við VG.

„Pistill Ögmundar á erindi við alla sem hafa snefil af áhuga á stjórnmálum – og hina líka. Hinn gamli stjórnmálaskörungur ristir VG bókstaflega í ræmur, rekur hvernig flokkurinn hefur í öllum aðalstefnumálum orðið uppgefið rekald – og kastar að síðustu rekunum einsog þegar sjórekið hræ er huslað,“ segir Össur sem ber Ögmundi vel söguna.

„Sjálfur átti ég náið samstarf við Ögmund, bæði sem þingflokksformaður í stjórnarandstöðu, og síðar í ríkisstjórn. Mörgum kann að þykja það ótrúlegt – ekki síst með hliðsjón af því hvar við vorum staðsettir á ESB-ásnum – en á okkar samstarf bar aldrei skugga. Hann kom mér aldrei á óvart, og sveik aldrei orð sín um eitt eða neitt gagnvart mér. Þegar ég hætti í stjórnmálum fannst mér hann vera einn besti og heiðarlegasti samstarfsmaðurinn sem ég hafði notið. Í því ljósi gat ég aldrei skilið þróunina innan VG sem skilaði honum að lokum út á kant.“

Í pistli sínum segir Össur að Sósíalistaflokkurinn sé Ögmundi hugstæður en í pistli sínum fyrir helgi skjóti hann engu að síður á Gunnar Smára Egilsson, stofnanda flokksins. Í pistli sínum sagði Ögmundur að Sósíalistaflokkurinn þyrfti að spyrja hvað valdi því að enn sem komið er hafi nái hann ekki fluginu þrátt fyrir að hafa lyft sannkölluðu grettistaki í umræðu í þjóðfélaginu.

„Ég tek þetta a.m.k. sem ádeilu á forystu Sósíalista. Í kjölfarið lofar svo Ögmundur frammistöðu Sönnu og sósíalista í borginni, sem varla er hægt að túlka sem enn meira diss á forystuna í landsmálum. Mér virðist því sem Ögmundur líti svo á að Gunnar Smári þurfi að víkja sem sjálfskipaður leiðtogi Sósíalista til að þeir eigi sjens á gegnumbroti,“ segir Össur sem segir að í lok að mörgu leyti frábærrar greiningar Ögmundar á flokkunum og stöðunni á vinstri vængnum vanti hins vegar niðurstöðu.

„Hann treystir sér ekki til að lýsa Sósíalistaflokknum sem arftaka VG með glóð og arfleifð byltingarinnar í höndum sér. Niðurstaða hans er að vinstri vængurinn eigi að einhenda sér í að efla Samstöðina!  Ég er því miður staddur á flugstöð á leið til Kosovo og get ekki haldið þessum langhundi áfram, en í huga mér er bara ein rökræn niðurstaða á greiningu Ögmundar. Hugsanlega vakir hún líka í hugskoti Ögmundar, en hann of hógvær til að setja hana í orð. Hún er þessi: Ef VG er jafn endanlega dautt og Ögmundur færir rök fyrir, og Sósíalistaflokkinn skortir leiðtoga til að brjótast í gegnum fylgislágmörk, þá þarf einhvern með hugsjónir, leiftrandi karisma og óþrjótandi elju, til að leiða flokkinn og búa til nýja vinstri andstöðu í samfélaginu og á Alþingi. Sá maður er vitaskuld Ögmundur sjálfur.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 6 dögum

Björn Jón skrifar: Ríkisvaldið hefur seilst alltof langt

Björn Jón skrifar: Ríkisvaldið hefur seilst alltof langt
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Ari Kr. Sæmundsen skrifar: Lýðheilsa

Ari Kr. Sæmundsen skrifar: Lýðheilsa