fbpx
Laugardagur 22.júní 2024
EyjanFastir pennar

Björn Jón skrifar: Skóli þarfnast aðgreiningar

Eyjan
Sunnudaginn 9. júní 2024 13:30

Alexander (356–323 f. Kr.), sem átti eftir að verða mesti hershöfðingi veraldarsögunnar og verðskulda nafnbótina „mikli“ fremur en nokkur annar, nemur fræðin hjá einum fremsta hugsuði fornaldar, Aristótelesi (384–322 f. Kr.). Hér í túlkun bandaríska málarans Jean Leon Gerome Ferris (1863–1930).

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í liðinni viku lét alþingismaður nokkur svo um mælt í umræðum um skipulagða glæpastarfsemi hér á landi að hann teldi alla sammála um að vilja „ekki sjá þessa þróun halda áfram eins og hún hefur verið síðustu árin“. Ég hnaut um þetta orðalag, alþingismaðurinn vildi „ekki sjá þessa þróun“. Vonandi átti hann við að grípa yrði til aðgerða til að uppræta umrædda bófaflokka, en ef menn „vilja ekki sjá“ eitthvað er líka hægt að líta undan (sumir setja kíkinn fyrir blinda augað) og því miður er það svo að forystumenn þjóðarinnar kinoka sér við að ræða um — hvað þá takast á við — ýmsar alvarlegustu meinsemdir samfélagsins.

„Tabú“ er það stundum kallað sem bannhelgi hvílir á. Þetta alþjóðaorð á uppruna sinn í tungumálum sem töluð eru á eyríkinu Tonga og víðar á Suður-Kyrrahafi þar sem það tengist alls kyns launhelgum. Bannhelgin er eitthvað sem við tengjum við frumstæðar þjóðir og ósiðmenntaðar en mér finnst ég sífellt verða þess meira áskynja að um ýmis vandamál okkar samtíma ríki þöggun — á þeim hvíli einhvers konar bannhelgi — og það þrátt fyrir allar vísindabyltingar umliðinna alda þar sem lykilatriði var að kæfa niður hindurvitni og hvers kyns „tabú“ enda hafa menn lengi vitað sem er að engin leið er að takast á við meinsemdir samfélagsins nema hægt sé að ræða um þær. Stundum verður þó þögnin ærandi, eða eins og Cicero orðaði það: Cum tacent clamant.

Agaleysi er þjóðarböl

Ég hef nokkrum sinnum haldið því fram hér á þessum vettvangi að eitt stærsta mein íslensks þjóðfélags sé agaleysið, vandamál sem lítið fæst rætt og margir afneita. Það gladdi mig því sérlega í vikunni sem leið er kynnt var skýrsla um stöðu drengja í skólakerfinu þar sem fram kemur skýrlega að ein meginástæða mun lakara gengis pilta en stúlkna í skólum sé einmitt agaleysi. Skýrsluna vann Tryggvi Hjaltason fyrir stjórnvöld en hann hefur undanfarin ár mjög látið sig varða stöðu drengja í skólum.

Skýrsla Tryggva er rækilega studd rannsóknarniðurstöðum en meðal annars er bent á að drengir hafi meiri þörf fyrir skýrt skipulag, umgjörð og aðhald í námi en stúlkur. Vísað er til könnunar þar sem kennarar á Norðurlöndum voru spurðir hvort þeir þyrftu að bíða í nokkurn tíma áður en hljóð gæfist í upphafi kennslustundar. Meðaltalið á hinum Norðurlöndunum var 27% en á Íslandi þurftu kennarar í 43% tilfella að bíða meðan ró færðist yfir bekkinn. Mjög skýr fylgni er milli námsárangurs drengja og góðs aga í kennslustofunni en í skýrslunni segir að drengir virðist eiga meira en stúlkur undir góðu skipulagi og skýrum skólareglum sem fylgt er eftir. Með öðrum orðum: Stór hluti vandans liggur í agaleysi í skólum.

Agaleysið er þjóðarböl sem þarf að ræða opinskátt og þrátt fyrir að agaleysi nemenda sé heimafenginn vandi þá geta og eiga skólar að gegna mikilvægu hlutverki í almennu uppeldi barna, unglinga og ungs fólks. Þar er rétt að menn læri virðingu, umburðarlyndi og aga.

Í skýrslu Tryggva hefði gjarnan mátt útfæra lausnir í þessu tilliti betur, en setja þarf með formlegum hætti almenn viðmið um kurteisi, umgengni og virðingu á öllum skólastigum og kynna þær reglur rækilega úti í samfélaginu. Að sama skapi þurfa kennurum og ekki síður stjórnendum skóla að vera búin raunveruleg úrræði til að taka á agavanda — að þeir geti beitt viðurlögum gerist þess þörf — en mér sýnist sem kennarar og skólastjórnendur standi í mörgum tilfellum ráðþrota gagnvart ofstopafullum nemendum.

Evrópumet í kynjaójafnrétti

Víkjum aftur að skýrslu Tryggva en þar er rakið í byrjun að samkvæmt nýjustu mælingu Efnahags- og framfarastofnunarinnar á þekkingu 15 ára grunnskólanema þá geta um 47% íslenskra drengja ekki lesið sér til gagns við lok skyldunáms og aðeins 2% þeirra ná afburðarárangri á þessu sviði. Þetta hlutfall er 7% að meðaltali á hinum Norðurlöndunum. Þá nær þriðjungur drengja ekki þeim lágmarksárangri sem ætlast er til í stærðfræði og náttúrufræði og aðeins 6% drengja öðlast afburðargetu í stærðfræði. Það er langt undir meðaltali innan ríkja Efnahags- og framfarastofnunarinnar sem er 11%. Þá er svo komið að aðeins þriðjungur nýstúdenta í háskólunum hérlendis eru drengir og hvergi í álfunni er meira brottfall drengja úr framhaldsskólum. Tryggvi segir því miður fátt benda til annars en að staðan eigi enn eftir að versna en í þessu tilfelli eigi Íslendingar Evrópumet í kynjaójafnrétti.

Vísbendingar um hörmulegar afleiðingar þessa er meðal annars vanlíðan ungra karlmanna en í skýrslunni er nefnt að á tveimur áratugum, milli áranna 2002 til 2022, hafi hlutfall karla á aldrinum 18–29 ára á 75% örorku aukist um 74%. Þetta eru sláandi tölur sem farið hafa furðu hljótt.

Aukin hreyfing nauðsynleg

Ýmsar áhugaverðar tillögur til úrbóta eru nefndar í skýrslunni, meðal annars að fjölga þurfi karlmönnum í kennarastétt, en þeir eru aðeins tæplega 18% kennara. Vitnað er til orða Mjallar Matthíasdóttur, formanns Félags grunnskólakennara, sem segir drengi skorta mjög karlkyns fyrirmyndir í skólum. Þá er lagt til að auka skipulega hreyfingu sem hluta af skóladeginum. Í skýrslunni er haft eftir dr. Hermundi Sigmundssyni, eins okkar helsta sérfræðings á sviði menntunarfræða, að „gríðarlega mikilvægt“ sé að efla hreyfingu barna á skólatíma því það hafi „jákvæð áhrif á ró, einbeitingu, sjálfsmynd, vellíðan, hreyfifærni og hreysti“.

Hreyfingu barna og ungmenna er verulega ábótavant og ég fæ ekki séð að úr því verði bætt að neinu marki nema hún verði ríkulegri hluti af skóladeginum. Við styttingu framhaldsskólans var kennslustundum í íþróttum almennt fækkað úr tveimur á viku í eina. Miklu frekar hefði þurft að fjölga tímum í skipulagðri hreyfingu. Þetta mætti gjarnan gera í samstarfi við íþróttafélögin og kynna þá um leið hinar ýmsu íþróttagreinar.

Í skýrslunni er sömuleiðis nefnt að efla þurfi kennaramenntun, en hér má bæta því við að rétt væri að fleiri háskóladeildir sinntu menntun kennara en nú er. Til að mynda væri æskilegt að stofnuð yrði kennaradeild við Háskólann í Reykjavík en þar er til staðar mikil fagþekking innanhúss í náttúruvísindum og stærðfræði sem verulega þarf að efla innan skólanna.

Menn þurfa viðfangsefni við hæfi

Fleira áhugavert kemur fram í skýrslunni, meðal annars að drengjum leiðist fremur en stúlkum í námi og fjöldi kennara úr hópi viðmælenda lýsti því að drengir legðu sig fremur fram ef nám væri verklegt og tilgangur þess vel skýrður.

Þá finnst umtalsvert fleiri drengjum en stúlkum námið of létt samkvæmt skýrslunni og um leið tilgangslaust. Í þessu sambandi má rifja upp orð þýska heimspekingsins Wilhelm von Humboldts (1767–1835) sem sagði að um mannlegan þroska í ýtrasta margbreytileika væri meira vert en alla hluti aðra. Spurningin sem þá vaknar er hvaða aðstæður mönnum eru skapaðar til þroska innan skólanna hér og nú. Ef kraftarnir beinast umfram allt að því að sinna lökustu nemendunum og miðlungsnemendum er ólíklegt að hinum betur gefnu sé sinnt. Skóli á að hafa það að markmiði að koma öllum til mesta mögulega þroska og þá þurfa menn viðfangsefni sem reyna verulega á.

Taka þarf upp samræmd próf

Í áðurnefndri skýrslu kemur fram að óskýrt námsmat bitni mun verr á piltum en stúlkum. Samræmd lokapróf úr grunnskólum voru aflögð fyrir hálfum öðrum áratug og nú er svo komið að ýmsir framhaldsskólar hafa sömuleiðis hætt að prófa nemendur í lok námskeiða.

Fyrir hálfum mánuði gerði ég hér á þessum vettvangi að umtalsefni mikilvægi þess að tekin yrðu upp samræmd próf á nýjan leik. Það gladdi mig því að sjá í Morgunblaðinu í gær grein eftir tvo þrautreynda skólamenn, Þorstein Þorsteinsson og Gunnlaug Sigurðsson, þar sem þeir mæltust til þess að tekin yrðu upp samræmd próf hvort tveggja í grunnskólum og framhaldsskólum og færðu fyrir því vandleg rök.

Viðspyrna frá botninum

Við blasir að skólana skortir mælikvarða á landsvísu í formi samræmdra prófa, svo hægt sé að setja skýr markmið, ekki bara til hagsbóta fyrir samfélagið í heild og einstaka skóla — heldur ekki síst fyrir nemendurna sjálfa sem sjá þá hvar þeir standa og geta keppt á jafnréttisgrundvelli. Að auki blasir við að nemendur fá alltof oft ekki verkefni við hæfi. Þetta vekur líka upp spurningar um hvort ekki væri rétt að aðskilja kynin oftar í kennslu, svo mjög sem ólíkar kennsluaðferðir gagnast hvoru kyninu um sig og raða nemendum sömuleiðis í bekki eftir getu svo unnt sé að ná hámarksárangri.

Vart þarf að undra að stór hluti skólanemenda fái tæplega viðfangsefni við hæfi þegar öllum er hrúgað saman í bekkjardeildir óháð getu og kunnáttu. Við þær aðstæður er kennaranum varla annað fært en miða við lægsta samnefnara. En nemandinn fær vitaskuld enga fullnægju af námi ef markið er sett of lágt. Við þær aðstæður missir hann virðingu fyrir sjálfum sér ellegar skólanum vegna þess að hann sér í gegnum blekkinguna. Í ofanálag eru þetta óboðlegar vinnuaðstæður fyrir kennara. Í skólum þarf að skipta nemendum eftir getu og áhugasviði í miklu meira mæli en nú er gert. Skóli þarf að vera „með aðgreiningu“ svo margþvældri tuggu sé snúið af röngunni.

Líkt og Tryggvi nefnir í skýrslunni blasir við að botninum er ekki náð, enda ekkert markvert verið að gert til að bæta úr þeirri almennu menntahnignun sem átt hefur sér stað undanfarna áratugi. Þeim mun frekar þarf að blása til stórsóknar og vonandi tekst að efna til umræðna um þau alvarlegu samfélagsmein sem hér hafa verið tíunduð og sum hver hafa lítt fengist rædd fram til þessa. Munum þó að orð eru til alls fyrst og því ber að fagna skýrslu Tryggva.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Drög að ferðamannamengun

Sigmundur Ernir skrifar: Drög að ferðamannamengun
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Eftir kosningar

Óttar Guðmundsson skrifar: Eftir kosningar
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Björn Jón skrifar: Afgerandi úrslit forsetakjörs

Björn Jón skrifar: Afgerandi úrslit forsetakjörs
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Uppsöfnuð hræðsla við skoðanaskipti

Sigmundur Ernir skrifar: Uppsöfnuð hræðsla við skoðanaskipti
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Stóri Núpur

Óttar Guðmundsson skrifar: Stóri Núpur
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Ef Þorgerður Katrín gæfi Bjarna sjálfdæmi

Þorsteinn Pálsson skrifar: Ef Þorgerður Katrín gæfi Bjarna sjálfdæmi
EyjanFastir pennar
18.05.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Tölvulæknar

Óttar Guðmundsson skrifar: Tölvulæknar
EyjanFastir pennar
16.05.2024

Svarthöfði skrifar: Ríkismiðlarnir snúa saman bökum

Svarthöfði skrifar: Ríkismiðlarnir snúa saman bökum