fbpx
Föstudagur 13.desember 2024
Eyjan

Trúnaði aflétt af leynilegu minnisblaði um meint spillingarmál – „Hlýtur að teljast vafasamt“

Eyjan
Föstudaginn 19. apríl 2024 18:20

Kolbrún Baldurs t.h og bistro útihúsgögn sem borgin keypti af I ráðgjöf t.v.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Innri endurskoðun borgarinnar taldi enga spillingu felast í viðskiptum borgarinnar við verslun í bakgarði sviðsstjóra Þjónustu- og nýsköpunarsviðs (ÞON). Þetta kemur fram í minnisblaði innri endurskoðunar frá september 2022 sem var unnið í kjölfar ábendingar frá Kolbrúnu Áslaugar Baldursdóttur, borgarfulltrúa Flokks fólksins. Skjalið var trúnaðarmerkt þar til í morgun, en á fundi borgarráðs í gær var bókað að trúnaðarmerking væri til þess fallin að ala á tortryggni.

Sjálfstæðisflokkur kallaði eftir úttekt innri endurskoðunar á viðskiptunum eftir frétt DV um málið. Tillagan var tekin í borgarráði í gær þar sem hún var felld með vísan til þess að innri endurskoðun hafi þegar skoðað viðskiptin. Fulltrúar ráðsins fengu téð skjal í hendur sem var að öðru bundið trúnaði.

Kolbrún er áheyrnarfulltrúi í borgarráði og gat ekki kosið um tillöguna. Hún lagði þó fram bókun þar sem hún mótmælti trúnaðarmerkingunni.

„Það sætir furðu að stjórnandi og embættismaður hjá Reykjavíkurborg skuli hafa verið undanfarin ár í beinum viðskiptum við skrifstofuna og sviðið sem hann stýrir. Það hlýtur að teljast vafasamt hvernig sem á það er litið þegar stjórnandi situr beggja vegna borðs, lætur vinnustað sinn versla við fjölskyldufyrirtæki. Flokkur fólksins átti fund með Innri endurskoðun um þetta mál og óskaði eftir að það yrði skoðað. Nú tveimur árum síðar dúkkar upp minnisblað frá Innri endurskoðun um þetta mál sem reynist síðan vera trúnaðargagn. Innihald þess mun aldrei verða opinbert sem eykur stórlega á tortryggni um að þarna kunni að vera staðfesting á að hér sé um spillingarmál að ræða. Málinu er því hvergi nærri lokið og verður það ekki fyrr en niðurstöður könnunar Innri endurskoðunar verða gerðar opinberar. Ella má telja að meirihlutinn sé að taka þátt í að hylma yfir spillingu.“

Lögfræðingur og innkaupareglur ósammála

Borgin sendi blaðamanni um miðjan mars reikninga vegna viðskipta borgarinnar við lífsstílsverslun sem er í eigu félags sem nefnist I ráðgjöf slf. Þetta félag stofnaði sviðsstjóri ÞON, Óskar Jörgen Sandholt, á sínum tíma utan um ráðgjafarþjónustu sína. Meðal annars veitti hann borginni ráðgjöf áður en hann hóf þar störf árið 2012, og gaf þá út reikninga í nafni félagsins. Árið 2014 var kennitalan færð yfir á eiginkonu Óskars og er nú að baki lífsstílsverslun sem er rekin frá sameiginlegu heimili þeirra. Hefur borgin ítrekað átt viðskipti við verslunina og gjarnan voru það undirmenn Óskars sem voru skráðir fyrir viðskiptunum og kostnaðurinn bókaður á ÞON.

Reykjavíkurborg sagði í svari sínu við fyrirspurn blaðamanns að fyrirkomulag kaupanna væri í samræmi við innkaupareglur borgarinnar og verið undir viðmiðunarfjárhæðum. Samanburður hafi verið gerður milli fyrirtækja til að gæta að hagkvæmni og tryggja jafnræði. Tengsl Óskars við búðina hafi alltaf legið fyrir og allt verið uppi á borði.

Óskað var eftir að borgin afhenti gögn til að sýna fram á að samanburður hafi átt sér stað en sagði lögfræðingur ÞON að þegar um væri að ræða innkaup undir viðmiðunarfjárhæðum væri ekki gerð krafa um skjölun og það því ekki gert. Í innkaupareglum segir þó orðrétt:

„Við innkaup undir ofangreindum viðmiðunarfjárhæðum skal kaupandi ávallt gæta hagkvæmni og gera samanburð meðal sem flestra fyrirtækja. Slíkur samanburður skal jafnan gerður skriflega eða með rafrænni aðferð.“

Sjá einnig: Borgin verslar fyrir hundruð þúsunda í búð sem er rekin úr bakgarði sviðsstjórans

Innri endurskoðun taldi enga spillingu á ferðinni

Trúnaði yfir minnisblaði innri endurskoðunar var aflétt í morgun að beiðni Kolbrúnar. Þar má sjá að innri endurskoðun tók málið fyrir eftir ábendingu frá Kolbrúnu, sem var ósátt við þau svör sem ÞON hafði gefið við málinu eftir að hún bar upp fyrirspurn við sviðið árið 2022.

Segir í minnisblaði:

„Innri endurskoðanda barst erindi frá fulltrúa Flokks fólksins, dags. 7. apríl 2022, þar sem vænt er um spillingu í tengslum við viðskipti þjónustu- og nýsköpunarsviðs við I ráðgjöf sem er félag í eigu maka sviðsstjóra. I Ráðgjöf slf. […] er skráð með starfsemi við rekstrarráðgjöf.“ 

Innri endurskoðandi vísaði til þess að í svari ÞON við fyrirspurn komi fram gott yfirlit yfir viðskiptin. Engu að síður sé mikilvægt að ávallt sé gætt vel að hæfi aðila við innkaup og þá í samræmi við hæfisreglur laga, lög um opinber innkaup og innkaupareglur borgarinnar. Óskráð meginregla um sérstakt hæfi gildi þegar starfsmenn sveitarfélaga fást við samningagerð. Samkvæmt henni ber manni að víkja sæti við meðferð og afgreiðslu máls ef það varðar hann svo sérstaklega að almennt megi ætla að viljaafstaða hans mótist að einhverju leyti þar af.

„Þegar starfsmaður eða t.d. maki hans á stóran hlut í félagi er starfsmaðurinn oftast talinn vanhæfur án þess að farið sé út í það að sannreyna sérstaklega hvaða áhrif niðurstaða málsins geti haft á hagsmuni starfsmannsins sem eiganda. Ástæða fyrir þeirri reglu eru traustsjónarmið en meðal markmiða hæfisreglna er að stuðla að því að almenningur og þeir sem hlut eiga að máli geti treyst því að stjórnvöld leysi úr málum á hlutlægan hátt. 

Í innkaupareglum Reykjavíkurborgar kemur einnig fram að starfsmanni Reykjavíkurborgar ber að hafa frumkvæði að því að gera viðvart um ástæður er kunna að valda vanhæfi hans. 

Þótt hér sé um að ræða óveruleg viðskipti vill undirritaður nota tækifærið til að vekja athygli á ábendingu sem gefin var út í apríl 2011 og vísað til skrifstofu borgarstjórnar á fundi borgarráðs hinn 5. maí 2011 um að innkaupaskrifstofa kanni reglulega viðskipti innherja og fjárhagslega tengdra aðila. Þá kann að vera ástæða til að brýna fyrir stjórnendum að upplýsa ávallt vel um fjárhagslega tengda aðila.“ 

Engin frekari viðskipti eftir fyrstu athugasemdir

Borgin verslaði við lífsstílsverslunina árin 2017, 2018, 2019 og 2021, eða nokkuð reglulega. Það er þar til Kolbrún fór að spyrja spurninga, og þó svo innri endurskoðun geri ekki sérstakar athugasemdir við viðskiptin, þó að afstaða ÞON sé sú að þetta sé allt í fullkomlega góðu lagi og ekkert athugavert, þá hefur borgin ekki verslað þar aftur síðan.

Árið 2018 samþykkti borgarráð að gera háttsettum embættismönnum borgarinnar skylt að skila hagsmunaskráningu líkt og kjörnum fulltrúum ber að gera. Sviðsstjóri ÞON getur í engu um lífsstílsverslunina í hagsmunaskráningu sinni, en leiða má líkur að skráningin sé ókláruð eða ófullkomin, enda í engu getið um stjórnarsetu, trúnaðarstörfum fyrir félagasamtök eða eign fasteigna þó svo fyrir liggi að þessir hagsmunir eru vissulega til staðar.

Ekki er því þó haldið fram að sviðsstjóri hafi leynt tengslum sínum við verslunina enda auglýsir hann verslunina gjarnan á samfélagsmiðlum sínum og hafa borgarfulltrúar mætt á samkomur í garði hans undir merkjum verslunarinnar.

Þó að innri endurskoðandi hafi ekki metið að um spillingu væri að ræða beindi hann því til innkaupaskrifstofu að kanna reglulega viðskipti innherja og fjárhagslegra tengdra aðila. Eins að mögulega væri tilefni til að ítreka við stjórnendur að upplýsa um fjárhagslega tengda aðila.

 

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 1 viku

Björn saknar Óla Björns – „Það munar misjafnlega mikið um framlag þeirra sem hverfa úr þingsölunum“

Björn saknar Óla Björns – „Það munar misjafnlega mikið um framlag þeirra sem hverfa úr þingsölunum“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Birgir segir að Þórður Snær sé réttkjörinn: „Þetta á sér ekki fordæmi svo ég viti til“

Birgir segir að Þórður Snær sé réttkjörinn: „Þetta á sér ekki fordæmi svo ég viti til“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Kolbeinn spyr hvort Íslendingar þurfi róttæka vinstri hreyfingu – „Ég er hreint ekki sannfærður“

Kolbeinn spyr hvort Íslendingar þurfi róttæka vinstri hreyfingu – „Ég er hreint ekki sannfærður“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Halldór Auðar snýr baki við Pírötum – „Niðurstaða kosninganna fyrst og fremst endurspeglun á löskuðu innra starfi“

Halldór Auðar snýr baki við Pírötum – „Niðurstaða kosninganna fyrst og fremst endurspeglun á löskuðu innra starfi“