fbpx
Miðvikudagur 06.júlí 2022
EyjanFastir pennar

Björn Jón skrifar: Framhaldsskólanemar þurfa að skemmta sér

Eyjan
Sunnudaginn 6. febrúar 2022 18:15

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Schiller segir í „Erwartung und Erfüllung“ að æskumaðurinn sigli seglum þöndum um úthöfin en skip hins aldna liggi við festar. Mér varð hugsað til þessara orða þegar heilbrigðisráðherra Framsóknarflokksins tilkynnti á dögunum að fimm hundruð manns mættu koman saman á viðburði — en aðeins ef þeir sætu kyrrir. Slíkt hentar öldruðum með skerta hreyfigetu prýðilega en ungt fólk þarf rými til að dansa. Segja má að hér birtist enn á ný skilningsleysi yfirvalda á hagsmunum ungs fólks sem því miður virðist eiga sér fáa formælendur í stjórnmálum. Og nú þegar varla nein efnisleg rök standa lengur til að viðhalda samkomutakmörkunum skal ungu fólki enn gert ókleift að stunda eðlilegt félagslíf.

Stjórnvöldum „slétt sama“ um framhaldsskólanema

Flestir nemendur sem verða brautskráðir frá framhaldsskólum nú í vor hafa búið við samkomuhöft í fimm af þeim sex misserum sem námið tekur að jafnaði. Forseti Nemendafélags Verzlunarskóla Íslands, Kári Freyr Kristinsson, sagði í samtali við Vísi á dögunum um nýjustu „afléttingaráætlunina“ að stjórnvöldum væri „slétt sama“ um framhaldsskólanema og félagslíf þeirra. Hann sagði höftin hafa farið illa í nemendur, einhvern veginn væri „allur kraftur farinn úr fólki, það eru allir orðnir svo daufir og það vantar allan drifkraft í fólk“.
Kjartan Leifur Sigurðsson, varaformaður Nemendafélags Fjölbrautaskólans í Garðabæ, sagði í samtali við Vísi á dögunum að þetta væri
„alveg ömurleg staða. Að þessi þrjú menntaskólaár séu að fara í þetta er bara alveg hræðilegt. Og það er til skammar fyrir stjórnvöld að leyfa þessu að gerast að mínu mati.“

Í sömu frétt Vísis var rætt við Jón Bjarna Snorrason, formann Nemendafélags Borgarholtsskóla sem sagði meðal annars:
„Ég sé bara fólk sem byrjaði í menntó og er bara ekki búið að ná að tengjast neinum eða mynda nein almennileg vinasambönd, sem er kjörið tækifæri til að gera í framhaldsskóla. En ekki núna.“

Jón Bjarni var líka í viðtali við Fréttablaðið sl. föstudag þar sem hann gagnrýndi „sinnuleysi stjórnvalda í garð framhaldsskólanema í sóttvarnarmálum“ og benti á að fjöldatakmarkanir innan veggja skólanna „gerðu eiginlega ekkert annað en að koma í veg fyrir félagslíf nemenda“. Umræddar takmarkanir kæmu ekki í veg fyrir að ólíkir hópar blönduðust — menn yrðu einfaldlega að viðurkenna að skóli væri eitt „sóttvarnarhólf“. Jón Bjarni nefndi mikilvægi þess að aftur yrði efnt til viðburða í félagslífi nemenda því þunglyndi, einmanaleiki og einangrun framhaldsskólanema væri töluvert meiri ógn við heilsu þeirra en kórónuveiran.

Menn axli ábyrgð á sjálfum sér

Eitt þeirra nýyrða sem orðið hefur til í farsóttinni er „afléttingartregða“ en það hugtak nær vel yfir stöðuna akkúrat um þessar mundir. Á sama tíma og öllum höftum hefur verið aflétt í nágrannalöndunum (eða þá að skýr áætlun hefur verið sett fram í því efni) heykjast íslenskir stjórnmálamenn á að skila borgurunum mannréttindum sínum. Jón Steinar Gunnlaugsson, hæstaréttarlögmaður og fyrrv. hæstaréttardómari, kom inn á þessi mál í þætti mínum Sögu & samfélagi sem sýndur var á miðvikudagskvöldið var.

Hann sagði að menn héldu að þeir yrðu „verndaðir fyrir einhverri vá með því að „alvitrir“ læknar eða einhverjir herrar passi upp á þá. Þetta er auðvitað algjör misskilningur. Það er enginn betri varðmaður fyrir sína eigin hagsmuni heldur en maðurinn sjálfur. Auðvitað þarf hann að fá fræðslu um þær hættur sem kunna að steðja að en hann verður bara að gæta sín sjálfur.“

Hann nefndi í því sambandi að eftir að raunverulegar varnir gegn smitum og alvarlegum veikindum í formi bóluefna urðu tiltæk hefði átt að aflétta öllum takmörkunum. Ekki væri lengur réttlætanlegt að hafa uppi boðvald og sektarvald gegn því fólki sem umgengist aðra — og allra síst nú eftir að nýjasta afbrigði veirunnar kom fram sem virðist vera nánast hættulaust.

Gefum Jóni Steinari orðið: „Samt er haldið áfram, verið að einangra menn, hvort sem þeir eru með smitið sjálfir eða ef þeir hafa hitt einhvern þá mega þeir ekki fara út í einhvern tíma. Það er eins og menn hendi bara fyrir borð öllum reglum um ábyrgð einstaklinga í lýðræðislegu samfélagi á gjörðum sínum og háttsemi og taki bara upp einhverja valdstjórnun í staðinn.“

Að mati Jóns Steinars blasir hin rétta niðurstaða máls við öllum en hún sé að aflétta því ofríki gagnvart fólki að það megi ekki koma saman.
Ég tek undir þessi orð Jóns Steinars og sér í lagi eru aðgerðirnar orðnar harkalegar og óréttlátar gagnvart ungu fólki sem hefur mun meiri þörf fyrir samneyti við aðra en þeir sem eldri eru. Aflétta verður höftum á samkomur nú þegar og heimila stóra dansleiki því ungt fólk þarf nauðsynlega að geta skemmt sér.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
13.05.2022

Framtíð menntunar

Framtíð menntunar
EyjanFastir pennar
13.05.2022

Flýtum lagningu Sundabrautar

Flýtum lagningu Sundabrautar
EyjanFastir pennar
01.05.2022

Björn Jón skrifar: Flumbrugangur við bankasölu

Björn Jón skrifar: Flumbrugangur við bankasölu
EyjanFastir pennar
25.04.2022

Hver á að borga fyrir nýjan Reykjavíkurflugvöll? Svarið gæti komið þér á óvart.

Hver á að borga fyrir nýjan Reykjavíkurflugvöll? Svarið gæti komið þér á óvart.
Aðsendar greinarFastir pennar
20.04.2022
Alls ekki tala um Bjarna
EyjanFastir pennar
10.04.2022

Björn Jón skrifar: Norrænt varnarsamstarf

Björn Jón skrifar: Norrænt varnarsamstarf
Aðsendar greinarFastir pennar
09.04.2022

Öfgar skrifa: Ofbeldi gegn konum í krafti fjórða valdsins

Öfgar skrifa: Ofbeldi gegn konum í krafti fjórða valdsins
EyjanFastir pennar
13.03.2022

Björn Jón skrifar: Evrópumálin eru aftur á dagskrá

Björn Jón skrifar: Evrópumálin eru aftur á dagskrá
EyjanFastir pennar
07.03.2022

Heimir skrifar: Þegar Rússinn tók bita af Úkraínu en kafnaði á Zelenskyy

Heimir skrifar: Þegar Rússinn tók bita af Úkraínu en kafnaði á Zelenskyy