fbpx
Miðvikudagur 24.apríl 2024
Eyjan

Sendinefnd Kommúnistaflokksins fundaði með íslenskum ráðamönnum: Mannréttindi voru rædd

Kristinn H. Guðnason
Föstudaginn 10. ágúst 2018 21:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Dagana 31. júlí til 2. ágúst heimsótti sex manna sendinefnd frá Kommúnistaflokki Kína, nánar tiltekið alþjóðleg samskiptadeild sem hefur starfað frá fyrstu valdaárum Maós formanns. Sendifulltrúarnir funduðu með Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra, utanríkismálanefnd Alþingis og Ólafi Ragnari Grímssyni fyrrverandi forseta en lítið hefur farið fyrir umfjöllun um fundina.

 „Við í utanríkismálanefnd fáum oft beiðnir um að hitta hópa héðan og þaðan“ segir Smári McCarthy, þingmaður Pírata og nefndarmaður í utanríkismálanefnd. „Þetta er hluti af diplómatískri móttöku. Fulltrúarnir voru að leitast eftir því að koma á betri tengslum og þetta var mjög einfaldur inngangsfundur. Þau vildu ræða um möguleika Íslendinga og Kínverja í samskiptum og við ræddum um fríverslunarsamninginn, hvernig hann hefur verið að reynast. Síðan var heilmikið rætt um veðrið. Í heildina litið var þetta kurteisisheimsókn.“

Smári vissi ekki af fundi nefndarinnar við Ólaf Ragnar og vissi heldur ekki hvað fór fram á fundinum við Bjarna Benediktsson og hvort einhverjar ákveðnar beiðnir hafi þar verið bornar upp.

„Þetta er hluti af starfi okkar, að hitta erlenda sendifulltrúa og ræða um mögulega samstarfsfleti og fleira í þeim dúr. Ráðuneytið sjálft sér hins vegar um alla erfiðisvinnuna og við erum aðallega þarna til þess að sýna lit.“

 

Ræddu mannréttindi

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, formaður nefndarinnar tekur í sama streng. Samstarf Íslands og Kína hafi verið rætt í víðu samhengi og að Kommúnistaflokkurinn hafi sýnt áhuga á að komast í betri tengsl við flokka á Íslandi. Hún segir að bæði íslensku nefndarmennirnir og sendifulltrúarnir hafi verið sammála um að samskipti landanna tveggja hafi almennt verið góð hingað til.

Auk þess að ræða um fríverslunarsamninginn og samskipti hafi verið rætt um viðskipti, norðurslóðamál, flugsamgöngur, fjölgun kínverskra ferðamanna og mannréttindamál sem oft hafa komist til tals þegar Kína er annars vegar. Hún segir:

„Ég ræddi opinskátt um mikilvægi mannréttinda í utanríkismálastefnu Íslands, áherslu okkar meðal annars á jafnréttismál og réttindi hinsegin fólks. Kínverjar lögðu áherslu á að þeir séu að vinna að því að koma fólki út úr fátækt og árangur þeirra sé mikill á því sviði. En það getur ekki réttlætt mannréttindabrot.“

Geng Biao hittir Ólaf Jóhannesson forsætisráðherra

Byltingartæki í áratugi

Alþjóðleg samskiptadeild kínverska kommúnistaflokksins var stofnuð árið 1951, tveimur árum eftir að Maó formaður stofnaði alþýðulýðveldið. Um áratuga skeið hafði deildin það hlutverk að sjá um samskipti við kommúnistaflokk Sovétríkjanna og aðra kommúnista flokka í Austur Evrópu og víðar. Þegar skarst í brýnu milli Kínverja og Sovétmanna á sjöunda áratugnum þjónaði deildin mikilvægu hlutverki í að fá kommúnistaflokka á band Kínverja. Mestum árangri náðu Kínverjar í Albaníu og í Suður Ameríku og sá deildin um að koma bæði fjármunum, vopnum og vistum áleiðis til að hvetja flokkana til byltingar.

Deng Xiaoping, sem leiddi kommúnistaflokkinn frá 1978 til 1989 breytti hins vegar hlutverki deildarinnar. Var þá ekki aðeins rætt við kommúnistaflokka víðs vegar um heim heldur stjórnmálaflokka af öllu hinu pólitíska litrófi. Geng Biao, sem starfaði sem formaður samskiptadeildarinnar árin 1971 til 1979 kom í opinbera heimsókn til Íslands árið 1979 en þá var hann orðinn varaforsætisráðherra landsins.

 

Beita sér í málefnum Tævan og Suður Kínahafs

Þó að hlutverk samskiptadeildarinnar hafi breyst til muna frá því sem áður var þá hefur hún enn þá stórt hlutverk í áróðurs og áhrifastefnu Kommúnistaflokksins. Sendinefndir hennar ferðast um allan heim og funda með stjórnmálaflokkum, einstaklingum og samtökum á ýmsum sviðum. Þær safna upplýsingum og reyna að hafa áhrif á stefnumótun, sérstaklega varðandi utanríkismál. Hugsað er til langs tíma og vingjarnleg samskipti notuð til að fá flokka og áhrifafólk á band Kínverja.

Helstu málin sem nefndarmenn hafa beitt sér fyrir á undanförnum árum eru staða Kínverja gagnvart Tævan og eyjum í Suður Kínahafi sem Kínverjar hafa deilt við Filippseyjinga um. Hafa ýmsir ráðamenn heitið Kínverjum stuðningi í þessum málum í gegnum tíðina eftir að samskiptadeildin fundaði með þeim.

Má til dæmis nefna franska forsætisráðherrann Dominique de Villepin sem lýsti yfir stuðningi við Kínverja í Suður Kínahafsdeilunni í júlí árið 2016 og Nawaz, pakistanska múslimabræðralagið, viku síðar. Fjölmargir aðrir stjórnmálamenn frá smærri löndum gerðu hið sama þennan mánuð eftir að hafa fundað með samskiptadeildinni.

Ljóst er að samskiptadeildin er eitt af lykilverkfærum sem Kommúnistaflokkurinn notar til þess að hafa áhrif á alþjóðavettvangi.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Varaþingmaður Samfylkingarinnar yfirgefur flokkinn – Segir Samfylkinguna hafa sofnað á mannréttindavaktinni

Varaþingmaður Samfylkingarinnar yfirgefur flokkinn – Segir Samfylkinguna hafa sofnað á mannréttindavaktinni
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Ólafur Þ. Harðarson: Þurfum mjög hæfan forseta – þarf alls ekki að vera stjórnmálamaður

Ólafur Þ. Harðarson: Þurfum mjög hæfan forseta – þarf alls ekki að vera stjórnmálamaður
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Ólafur Þ. Harðarson: Sjálfstæðismenn aðeins einu sinni fengið sinn forseta – sá var fyrrverandi formaður Alþýðubandalagsins

Ólafur Þ. Harðarson: Sjálfstæðismenn aðeins einu sinni fengið sinn forseta – sá var fyrrverandi formaður Alþýðubandalagsins
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Óttar Guðmundsson skrifar: Óæskilegt lesefni

Óttar Guðmundsson skrifar: Óæskilegt lesefni
Eyjan
Fyrir 6 dögum

800 milljóna halli en þokast í rétta átt

800 milljóna halli en þokast í rétta átt
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Þorsteinn Siglaugsson skrifar: Gervigreind og máttur tungumálsins

Þorsteinn Siglaugsson skrifar: Gervigreind og máttur tungumálsins