Einelti og barsmíðar dundu reglulega á Þorleifi H. Kristínarsyni – Hann tók eigið líf fyrir tveimur árum
Í helgarblaði DV er rætt við Kristínu Hildi Þorleifsdóttur, móður Þorleifs H. Kristínarsonar, sem hvarf sporlaust í Fredrikshavn í Danmörku fyrir rúmum tveimur árum. Íslenskir fjölmiðlaðar fjölluðu um hvarfið en greindu síðan snögglega frá því að leit hefði verið hætt.
Í viðtalinu kemur fram að danska lögreglan fann myndband þar sem Þorleifur sést stökkva fram af bryggjunni út í opinn dauðann. Það voru síðustu andartök drengs sem hafði glímt við verulegt mótlæti frá unga aldri og átti sér ekki viðreisnar von. Þegar Þorleifur var sex ára gamall varð hann fórnarlamb læknamistaka í kjölfar ofnæmisviðbragða við verkjalyfi. Líkami hans brann upp og hann missti 60% af húð sinni auk sjónar á öðru auga.
Eftir átta ára baráttu varð það úrskurður dómstóla að um læknamistök hefðu verið að ræða og Þorleifur fékk greiddar skaðabætur fyrir miskann.
Eftir margskonar mótlæti hafði hinn tvítugi Þorleifur fengið nóg. Kristín deilir með lesendum erfiðleikunum sem sonur hennar þurfti að glíma við og þeirri miklu sorg sem hún og fjölskylda hennar hefur þurft að takast á við.
Hér má lesa brot úr viðtalinu:
Eins og áður segir þá átti Þorleifur góða og trausta vini sem studdu hann þegar á reyndi. „Bestu vinir hans voru hér sem heimagangar og mér þykir ákaflega vænt um að þeir halda enn sambandi við mig þrátt fyrir að tvö ár séu liðin frá hvarfi sonar míns,“ segir Kristín Hildur. Þegar skólagöngu Þorleifs lauk reyndi hann að fóta sig á vinnumarkaði en þar, eins og svo oft og víða á hans stuttu ævi, lenti hann á vegg. „Ég er ákaflega reið út í yfirvöld hér úti vegna meðhöndlunarinnar á honum. Þorleifur gat ekki unnið 100 prósent vinnu og því freistuðum við þess að fá hann metinn með örorku að hluta. Það gekk hins vegar ekki. Það er mun erfiðara að fá slíkt metið hér í Danmörku samanborið við Ísland. Honum var því þrýst út á vinnumarkaðinn en þar fékk hann ekki starf við hæfi. Það olli honum miklu hugarangri,“ segir Kristín Hildur. Að hennar mati frömdu dönsk félagsmálayfirvöld mannréttindabrot með meðferðinni á Þorleifi og helst vildi hún leita réttar síns fyrir dómstólum vegna þess. „Ég hef alvarlega íhugað að leita til lögfræðinga vegna þessa eða berjast með einhverjum hætti til þess að kerfið verði bætt. Þorleifur þurfti hjálp en fékk bara kulda og skilningsleysi,“ segir hún.
Eins og ungu fólki er tamt þá fór Þorleifur reglulega út að skemmta sér með vinum sínum. Þar varð hann einnig fyrir áreiti og stundum sauð upp úr. „Það var alltaf ráðist gegn Þorleifi og jafnvel þegar vinir hans voru með í för þá fékk hann alltaf verstu útreiðina,“ segir Kristín Hildur. Svo langt gekk áreitið að dómstólar dæmdu fimm fullorðna menn í nálgunarbann gagnvart Þorleifi. Þá lenti hann í skelfilegum barsmíðum fyrir jólin 2013 þegar sparkað var af alefli í höfuð hans. Nokkru síðar fékk hann högg í andlitið sem næstum því kostaði hann sjónina að fullu. „Höggið hitti hann svo illa að afleiðingarnar urðu þær að hann var aðeins með 20 prósent sjón á heila auganu. Það var mikið áfall en blessunarlega þá gekk skaðinn smátt og smátt til baka og varð ekki varanlegur,“ segir Kristín Hildur. Allt þetta áreiti sem Þorleifur varð fyrir gerði að verkum að hann týndist tvisvar fyrir kvöldið afdrifaríka í Fredrikshavn. „Þegar hann smakkaði áfengi þá fylltist hann stundum þeim ranghugmyndum að allir vildu vinna honum mein. Eitt sinn fannst hann skólaus í felum inni í ókunnugum stigagangi. Þá taldi hann sig þurfa komast í skjól frá umheiminum,“ segir Kristín Hildur.
Hún hafði verulegar áhyggjur af syni sínum og fann hvað honum leið illa þrátt fyrir að hann reyndi að bera sig vel. „Hann upplifði alls staðar mótlæti og það er takmarkað hvað einn einstaklingur getur þolað af því. Ég reyndi að fá hann til að flytjast heim til Íslands, til ættingja okkar hér á landi en hann tók því fálega,“ segir hún. Þorleifur upplifði þó mjög góða kafla inni á milli og Kristínu Hildi er sérstaklega minnisstætt símtal 6. desember, innan við viku áður en Þorleifur hvarf. „Þá fór hann á tónleika með uppáhaldshljómsveitinni sinni og skemmti sér frábærlega. Ég talaði aðeins við hann í síma og hann var alsæll,“ segir Kristín Hildur.