fbpx
Laugardagur 27.apríl 2024
Matur

Pawel borðar alltof mikið en er alls enginn nammigrís

Lilja Katrín Gunnarsdóttir
Fimmtudaginn 4. október 2018 12:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Pawel Bartoszek, borgarfulltrúi Viðreisnar, æfir nú stíft fyrir heilmaraþon í fæðingarbæ sínum, Poznan í Póllandi, sem fer fram þann 14. október. Þetta verður fimmta heilmaraþonið hans Pawels, en hann hefur einu sinni áður hlaupið í Poznan, einnig á Mývatni, í Berlín og í Reykjavík.

„Ég ákvað þetta í sumar. Eiginlega þegar ég var í tíu daga fríi á Spáni,“ segir Pawel aðspurður af hverju hann ákvað að drífa sig í maraþonið núna. „Í sumarfríi hefur maður oft nægan tíma. Sérstaklega finnst mér gott að nota tímann snemma á daginn til að gera eitthvað af viti. Og það er alveg einstaklega gaman að skokka meðfram strönd í svona sólarlöndum.“

Að þessu sinni heldur Pawel ekki einn í maraþonið.

„Ég valdi Poznan því að ég er þaðan, þekki til, foreldrar mínir eru með íbúð þar og Wizzair flýgur beint sem gerir ferðalagið þægilegt og ódýrt. Pabbi minn er reyndar að fara líka svo þetta verður svona feðgaferð. Hann mun reyndar fara þetta miklu hraðar enda á hann meira en fjörutíu mínútna betri tíma en ég. En ég hef 24 ár til að ná honum,“ segir Pawel og hlær.

Frá fæðingarbæ Pawels, Poznan.

Ekki aftur indverskur matur

Pawel byrjaði að æfa fyrir maraþonið í lok júlí og notar smáforritið Runkeeper til að hjálpa sér í gegnum þetta. Í gegnum smáforritið náði hann sér í sérstakt prógramm til að undirbúa sig fyrir maraþon.

„Fyrsta æfingin fyrir maraþonið var 26. júlí – það var fimm kílómetra skokk. Svo hef ég aðallega verið að lengja hlaupin og fór mest þrjátíu kílómetra nú í lok september. Aðalsérkenni þessa prógrams er að maður er látinn hlaupa mjög hægt. Ég tek kílómetrann á átta mínútum í löngu hlaupunum og sumt skokk er enn hægara. En það hefur samt skilað mér meiðslalausum, 7, 9, 12, í gegnum allt prógrammið, sem er ekki sjálfsagt,“ segir borgarfulltrúinn knái. Talandi um þrjátíu kílómetra hlaupið þá hljóp hann það daginn eftir afmælisdaginn sinn og lærði dýrmæta lexíu.

„Ég hafði fengið mér vel af indverskum mat frá Hraðlestinni og fór svo út að hlaupa klukkan sex um morguninn næsta dag. Það, já, er allavega er reynsla sem ég endurtek ekki fyrir hlaupið sjálft,“ segir hann og hlær.

Pawel mælir ekki með indverskum mat fyrir hlaup.

Leitandi að klósetti á hlaupaleiðinni

Hann bætir við að hann hafi ekki gert miklar breytingar á mataræðinu í þessum hlaupaundirbúningi.

„Ég hef sleppt öllu áfengi og það hefur haft ýmislegt að segja. Ég er einfaldlega aldrei illa upplagður og get nýtt tímann seint á kvöldin og snemma á morgnana um helgar. Það er lykilatriði í þessu. Sumt fylgir þá bara sjálfkrafa með, en ég elska áfram að fá mér pítsu eftir hlaup. Ég játa það að ég hef ekkert sérstaklega verið að hugsa um mataræðið í þessu æfingarprógrammi að öðru leyti. Eina sem ég hef brennt mig á er að borða of mikið og vera ekki búinn að melta þegar ég fer af stað. Þá þarf ég að fara að leita að klósetti á leiðinni sem er tímafrekt og ógeðslegt fyrir alla.“

Hann segist þó vera búinn að læra hvaða mat á að forðast fyrir hlaup, ekki aðeins rótsterkan, indverskan mat.

„Ég fékk mér einu sinni bernaise steik í Ráðhúsinu áður en ég hljóp rúmlega tuttugu kílómetra. Það var ekkert spes. Almennt, þá hef ég lært af reynslu að mikill og þungur matur fer ekki vel í meltingarveginn á meðan maður hleypur,“ segir Pawel. Almennt séð er hann mikill matmaður, eiginlega um of að eigin sögn.

„Já, ég borða alltof mikið. Ég er reyndar ekki mikið fyrir nammi en pítsa, kebab, spagettí eða indverskur matur hittir í mark. Mér finnst gott að gera vel við mig í mat.“

„Þetta er gerði ég í dag, krakkar“

Pawel finnst gott að gera vel við sig í mat.

Pawel segist finna mikinn mun á andlegri og líkamlegri heilsu og hefur aldrei gefist upp á hlaupaprógramminu.

„Ég hef ekki misst úr æfingu. En það furðulega í þessu er að það eru stuttu hlaupin sem eru erfiðust. Það er gaman að mótivera sig fyrir 20 til 25 kílómetra hlaup. Eða 10 kílómetra keppnishlaup. Maður situr uppi með eitthvað sem maður getur deilt, montað sig af. Sýnt stóran part af höfuðborgarsvæðinu með hlaupaleiðinni og sagt: Þetta gerði ég í dag, krakkar. Einhvern veginn er fimm kílómetra skokk út í Nauthólsvík og til baka, á hraða sem er móðgun við mannkynið, eiginlega erfiðast,“ segir Pawel og bætir við að mikilvægt sé að „læra“ uppá nýtt að drekka vatn í löngum hlaupum.

„Seinast þegar ég hljóp maraþon, árið 2015, var ég með gel til að borða á leiðinni. Ég hef ekki verið að gera það núna. Ég hef hins vegar lært að drekka vatn aðeins betur. Þegar ég hljóp tuttugu kílómetra um daginn drakk ég ekkert fyrstu tímana en var svo mjög þyrstur undir lokinn, drakk þá alltof mikið og varð óglatt. Síðan horfði ég á Berlínarmaraþonið á RÚV þar sem Kári Steinn lýsti því að það tæki líkamann fjörutíu mínútur að innbyrða vatnið, svo það væri gott að byrja að drekka strax eftir fimm kílómetra og gera það jafnt og þétt. Ég hef gert það síðan og það hefur gengið mjög vel.“

En hefur hlaupabakterían ekkert smitast í aðra borgarfulltrúa?

„Ég þykist nú ekki eiga heiðurinn að því en Egill Þór Jónsson kláraði maraþon í Berlín um daginn og Hjálmar Sveinsson hefur oft tekið þátt í svona hlaupum. Þeir eru að sjálfsögðu báðir velkomnir í Poznan að ári, enda besta borg norðan Alpafjalla, að Reykjavík undanskilinni að sjálfsögðu.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Matur
20.12.2023

Grillaður hunangshjúpaður hestshaus með sinnepsfræjum, villihvítlauk og blóðbergi

Grillaður hunangshjúpaður hestshaus með sinnepsfræjum, villihvítlauk og blóðbergi
Matur
07.12.2023

Hátíðarbakkinn

Hátíðarbakkinn
Matur
04.11.2023

Djúsí beikonborgari með mozzarella fyllingu

Djúsí beikonborgari með mozzarella fyllingu
Matur
03.11.2023

Kjúklingalasagna sem allir elska

Kjúklingalasagna sem allir elska
Matur
20.10.2023

Salat með byggi, sætum kartöflum, graskersfræjum og hvítlauk

Salat með byggi, sætum kartöflum, graskersfræjum og hvítlauk
Matur
19.10.2023

Bragðmikil sveppasúpa

Bragðmikil sveppasúpa