Heimir Hallgrímsson, landsliðsþjálfari Írlands, var ekki sáttur með frammistöðu sinna manna eftir 2:1 tap gegn Armeníu í F-riðli undankeppni HM í gærkvöldi. Eftir úrslitin situr Írland í neðsta sæti riðilsins með aðeins eitt stig eftir tvær umferðir.
Írar gerðu jafntefli við Ungverjaland í fyrstu umferð á heimavelli, en standa nú frammi fyrir erfiðri stöðu í riðli þar sem Portúgal og Georgía eru einnig meðal keppenda.
Í viðtali við RTÉ Sport eftir leik var Heimir greinilega orðinn pirraður, sérstaklega eftir að spyrill miðilsins fór að telja upp slæma úrslitaleiki Armena í undanförnu:
„Þeir töpuðu 5:0 fyrir Portúgal á dögunum, töpuðu samanlagt 9:1 fyrir Georgíu og Kasakstan vann þá 5:2. Þeir eru 45 sætum neðar en við á styrkleikalista FIFA,“ sagði spyrillinn áður en hann rétti Heimi hljóðnemann.
Heimir svaraði þá stutt og ákveðið:„Hver er spurningin?,“ sagði Heimir, greinilega ekki hrifinn af því hvernig spurningin var sett fram.
Þjálfarinn viðurkenndi þó að frammistaða liðsins hefði verið óásættanleg og að staðan í riðlinum væri erfið:
„Núna þarf allt að vera fullkomið og það er erfitt að vera bjartsýnn,“ sagði Heimir við RTÉ.