fbpx
Laugardagur 12.júlí 2025
Eyjan

Orðið á götunni: Ríkisstjórnin sker stjórnarandstöðuna úr snörunni en uppsker engar þakkir – hvað hefði Davíð Oddsson gert?

Eyjan
Föstudaginn 11. júlí 2025 19:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ríkisstjórnin sýndi styrk sinn og kom í veg fyrir að stjórnarandstaðan á Alþingi gæti í raun beitt neitunarvaldi þó að hún hafi engan þingstyrk til að ráða för. Það var ekki eftir neinu að bíða enda var málþóf stjórnarandstöðunnar komið út í algerar öfgar, orðið Íslandsmet í rugli og hefur valdið þjóðinni ómældum leiðindum og flokkunum í stjórnarandstöðu fylgistapi og niðurlægingu.

Þótt ríkisstjórnin hafi einungis verið að framkvæma hið óhjákvæmilega með því að höggva á hnútinn er hún í leiðinni að skera stjórnarandstöðuna úr þeirri snöru sem Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi hafa hengt hana í. Sjálfstæðisflokkur og Framsókn halda áfram að tapa fylgi ef marka má skoðanakannanir og ekkert bendir til þess að framkoma þeirra að undanförnu muni auka fylgi þeirra á næstunni. Kjósendur sjá í gegnum eymdarlegan málflutning þeirra sem er ekkert annað en bergmál frá sægreifunum í Borgartúni. Það kaus enginn Heiðrúnu Lind Marteinsdóttur eða freku karlanna á Akureyri til að stýra landinu í síðustu kosningum. Þá var útsendurum þeirra hafnað og nýir stjórnmálamenn kjörnir til að stjórna landinu og leiða þjóðina fram á við án þess að dansa eftir pípu sægreifanna.

Orðið á götunni er að framkoma Hildar Sverrisdóttur, formanns þingflokks Sjálfstæðisflokksins og aftasta varaforseta Alþingis, í fyrrakvöld hafi sýnt hvað var í aðsigi. Hún sleit þingfundi án samráðs við forseta Alþingis og braut þar með viðurkenndar reglur. Hún naut leiðsagnar Bergþórs Ólasonar, formanns þingflokks Miðflokksins og leiðtoga Klausturdónanna, sem sendi henni orðsendingar á blaði og hvíslaði leiðbeiningum í eyra Hildar, eins og myndir sýna. Þau voru að ögra réttilega kjörnum meirihluta Alþingis og ýttu þeim atburðum af stað sem nú hafa orðið. Það er þakkarvert enda var löngu kominn tími til að nýta heimildir til að stöðva ruglið, 160 klukkustundir af málþófi og misheimskulegu rugli minnihlutans.

Orðið á götunni er að ekki sé hátt risið á formanni Sjálfstæðisflokksins eftir þessa rás atburða. Sú var tíð að flokkurinn var stærstur á þingi og á forystumenn hans var hlustað, hvort sem þeir voru í stjórn eða stjórnarandstöðu, sem var reyndar fátítt. Guðrún Hafsteinsdóttir hefur ekki reynt að hefja sig upp fyrir nöldur og raus félaga sinna í stjórnarandstöðunni og það sem hún sagði á Alþingi í dag mun fylgja henni þar til hún verður hrakin frá völdum í Sjálfstæðisflokknum eins og þegar er farið að undirbúa, enda hefur hún algerlega brugðist á þeim fyrstu fjórum mánuðum sem hún hefur verið formaður flokksins. Guðrún hafði ekki einungis í hótunum varðandi störf Alþingis næstu vikur og mánuði, heldur einnig um alla framtíð, eins og hún orðaði það. Varla verður Guðrún Hafsteinsdóttir á Alþingi „um alla framtíð.“ Koma tímar og koma ráð.

Guðrún féll einnig í þá gryfju sægreifanna að staglast á skattahækkun þegar henni er fullkomlega ljóst að veiðigjöld eru frádráttarbær rekstrarkostnaður en ekki skattar. Eðli veiðigjalds er nákvæmlega hið sama og húsaleiga sem þeir greiða húseigendum sem eiga ekki það húsnæði sem þeir hafa tekið á leigu til eigin nota. Gott dæmi um það er að fasteignafélög eiga húsin sem hýsa stórmarkaði í Kringlu og Smáralind þar sem Hagkaup og Bónus eru meðal leigjenda. Samherji er meðal stærstu eigenda þar og ekki heyrist að þeir líti á húsaleiguna sem skatt. Þar er um frádráttarbæran rekstrarkostnað að ræða – rétt eins og veiðigjöldin.

Formaður Sjálfstæðisflokksins náði ekki að lyfta sér upp úr grátkórnum sem talaði á Alþingi um dapran dag og svarta tíma þegar ruglið í stjórnarandstöðunni var stöðvað. Hún réðst á forsætisráðherra sérstaklega og fullyrti að henni hefði mistekist að stilla til friðar. Forsætisráðherra hefur völd á hverjum tíma en hann þarf ekki að taka að sér hlutverk þeirra sem tuska til þá sem haga sér eins og kjánar. Forsætisráðherra fer fyrir ríkisstjórn og meirihluta sem hefur vald – og beitir valdi.

Orðið á götunni er að Davíð Oddsson, sem gegndi embætti forsætisráðherra í 13 ár, hefði aldrei látið stjórnarandstöðuna komast upp með kjánaskap og beinlínis aðför að Alþingi eins og nú hefur gerst. Hann hefði nýtt öll tiltæk úrræði til að höggva á hnútinn. Trúa sjálfstæðismenn einhverju öðru? En Guðrún Hafsteinsdóttir er enginn Davíð Oddsson og hún getur reyndar ekki borið sig saman við neinn þeirra stjórnmálamanna sem hafa gegnt formennsku eða varaformennsku í Sjálfstæðisflokknum frá upphafi.

Atburðir dagsins eru mikill sigur fyrir Kristrúnu Frostadóttur og ríkisstjórn hennar. Kristrún sýnir burði. Hún þykir minna á Davíð Oddsson, þegar hann var upp á sitt besta, hvað varðar myndugleika. Flokkarnir sem var hafnað í kosningum þann 30. nóvember árið 2024 misstu þá völdin og verða senn að játa sig endanlega sigraða og horfast í augu við það.

Orðið á götunni er að einhver verði að fara að kenna þeim hvernig á að taka ósigri. Í íþróttum er stundum öskrað á dómarann þegar leikir tapast. Það dugar skammt á Alþingi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Í gær

Standi ekki steinn yfir steini í „eftiráskýringu“ Hildar – „Þannig að eitthvað passar ekki alveg þarna“

Standi ekki steinn yfir steini í „eftiráskýringu“ Hildar – „Þannig að eitthvað passar ekki alveg þarna“
Eyjan
Í gær

Segir ljóst að aðilar úti í bæ séu að stýra stjórnarandstöðunni – „Það gengur ekki að sérhagsmunaöflin stýri landinu“

Segir ljóst að aðilar úti í bæ séu að stýra stjórnarandstöðunni – „Það gengur ekki að sérhagsmunaöflin stýri landinu“
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Ný vefsíða skýrir Málþóf í hnotskurn – Og tekur saman kostnað Alþingis meðan málþófið stendur

Ný vefsíða skýrir Málþóf í hnotskurn – Og tekur saman kostnað Alþingis meðan málþófið stendur
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Illugi Jökulsson: „Dómadagsþvaður“ frá þingmanni í ræðustól Alþingis – skyldi maðurinn ekki skammast sín?

Illugi Jökulsson: „Dómadagsþvaður“ frá þingmanni í ræðustól Alþingis – skyldi maðurinn ekki skammast sín?
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Orðið á götunni: Málþófið tætir fylgið af Sjálfstæðisflokknum – líka í borginni

Orðið á götunni: Málþófið tætir fylgið af Sjálfstæðisflokknum – líka í borginni
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Óttar Guðmundsson skrifar: Foringjakreppa í flokknum

Óttar Guðmundsson skrifar: Foringjakreppa í flokknum