Vox populi, vox dei. Rödd fólksins er rödd guðs. Þetta segir auðkýfingurinn Elon Musk og vísar í könnun sem hann framkvæmdi á samfélagsmiðlinum X snemma í júní. Þar sögðust fylgjendur hans vilja nýjan stjórnmálaflokk sem gæti hagsmuna 80 prósent kjósenda sem eru hvorki lengst til hægri né vinstri í pólitík – fólkið sem vill enga öfga.
Óformlegu vopnahléi Musk og Donald Trump Bandaríkjaforseta virðist nú lokið en auðkýfingurinn hefur undanfarna daga farið mikinn í netheimum þar sem hann berst gegn fjárlagafrumvarpi forsetans. Musk segir að frumvarpið muni valda Bandaríkjunum óbætanlegu tjóni. Auðmenn muni græða á kostnað þeirra sem þéna minnst, ójöfnuður muni aukast og Bandaríkin fari í þrot.
Musk hefur ekki sparað stóru orðin og hefur gengið svo langt að hóta því að beita auð sínum gegn þeim þingmönnum sem samþykkja frumvarpið.
„Allir þingmenn sem lofuðu í aðdraganda kosninga að draga úr útgjöldum ríkisins en samþykktu svo strax stærstu skuldaaukningu sögunnar ættu að horfa í gaupnir sér af skömm. Þeir munu tapa í prófkjörum sínum á næsta ári þó að það verði mitt síðasta verk hér á jörðinni.“
Eins hefur hann hótað því að stofna sinn eigin stjórnmálaflokk – Bandaríkjaflokkinn.
„Ef þetta galna útgjaldafrumvarp verður samþykkt verður Bandaríkjaflokkurinn stofnaður næsta dag. Þjóð okkar þarf að geta valið um eitthvað annað heldur en demókrata-repúblikana samflotið svo fólkið fái raunverulega rödd“
Donald Trump hefur svarað fyrir sig og sakar Musk um að vera súran þar sem til stendur, samkvæmt frumvarpinu, að leggja af ríkisstyrki vegna kaupa á rafbifreiðum. „Rafbílar eru í góðu lagi en það ætti ekki að þvinga alla til að eignast slíkan. Elon gæti verið að fá meiri meðgjöf frá hinu opinbera en nokkur annar maður í sögunni, svo miklu munar og án slíkrar meðgjafar þyrfti Elon líklega að skella í lás og flytja aftur heim til Suður-Afríku. Engir fleiri skotpallar fyrir geiflaugar, engir gervihnettir, rafbílaframleiðsla og þjóð okkar mun spara FÚLGUR FJÁR. Kannski ættum við að fá DOGE til að gaumgæfa þetta. GÍFURLEGAR FJÁRHÆÐIR SEM VÆRI HÆGT AÐ SPARA.“