Í viðtalinu var hann spurður út í samband Bandaríkjanna og Kanada og hvort hann gæti tekið upp á því að beita hervaldi gegn Kanada. Hann sagðist ekki trúa því að sú staða muni nokkru sinni koma upp.
En hvað varðar Grænland sagði hann: „Það gæti gerst. Eitthvað gæti gerst varðandi Grænland. Ég vil vera hreinskilinn – við höfum þörf fyrir Grænland út frá öryggissjónarmiðum, bæði okkar og alþjóðlegum. En ég held að það sé mjög ólíklegt.“
Síðar í viðtalinu kom hann aftur inn á þörf Bandaríkjanna fyrir að fá yfirráð yfir Grænlandi og beindi orðum sínum til Grænlendinga: „Við höfum virkilega þörf fyrir Grænland. Þar búa mjög fáir og við munum sjá vel um þá. Við munum elska þá og allt það. En við höfum þörf fyrir Grænland út frá alþjóðlegum öryggissjónarmiðum.“