
Það er komið að fjórða sætinu, en þar spáum við Stjörnunni. Er það sama sæti og liðið hafnaði í á síðustu leiktíð. Garðbæingar hafa fengið til sín öfluga leikmenn í vetur og þrátt fyrir að vera ekki mjög sannfærandi í Lengjubikarnum er spenna fyrir tímabilinu.

Hrafnkell Freyr Ágústson, séfrfræðingur um Bestu deildina, hefur eftirfarandi að segja um Stjörnuna:
4. sæti: Stjarnan – Mér finnst þeir vera svolítið spurningamerki. Jökull Elísabetarson þjálfari er nú ekki þekktur fyrir að vera að spá mikið í úrslit á undirbúningstímabili og stillir sjaldan upp sama liði tvo leiki í röð. Þeir hafa misst töluverða reynslu út og verður fróðlegt að sjá hverjir taka við keflinu sem leiðtogar. Svo er gríðarlegur missir af Óla Val, sem fór í Blika. Adolf Daði, Haukur Brink, Benedikt Waren, það er fullt af leikmönnum sem geta stigið inn í þetta hlutverk og gripið það. Ég er mjög spenntur fyrir að sjá Emil Atlason og Andra Rúnar saman frammi í þau skipti sem það gerist.
Lykilmaðurinn: Emil Atlason – Þetta er engin spurning.
Þarf að stíga upp: Alex Þór Hauksson – Hann var ekki góður í KR í fyrra, er kominn heim og þarf að standa fyrir sínu.
