

Sheffield Wednesday hefur verið sett í þrotavörn eftir að upp komst að breska ríkisskattstjórnin, HMRC, hygðist leggja fram gjaldþrotabeiðni á hendur félaginu.
Tilkynning var lögð fram hjá gjaldþrotadómstólnum í Hæstarétti í London á föstudagsmorgun. Þar kemur fram að Julian Pitts, Kris Wigfield og Paul Stanley frá Begbies Traynor hafi verið skipaðir sameiginlegir skilanefndarmenn félagsins.
Starfsfólki félagsins var gert grein fyrir stöðunni og skilanefnd hélt einnig fund með leikmönnum liðsins. Sheffield Wednesday mætir Oxford United á Hillsborough á laugardag kl. 15:00 að enskum tíma, en félagið stendur nú frammi fyrir sjálfvirkri 12 stiga refsingu vegna þrotavarnarferlisins.
Fréttirnar koma í kjölfar sívaxandi mótmæla stuðningsmanna á Hillsborough. Á miðvikudag sniðgengu margir leikinn gegn Middlesbrough í mótmælaskyni.
Þrotavörn þýðir í reynd að tíu ára eignarhald Dejphon Chansiri yfir félaginu er að ljúka. Eigandinn hefur verið harðlega gagnrýndur undanfarin ár, meðal annars fyrir slæma fjárstýringu og skuldaaukningu.
Sheffield Wednesday situr á botni Championship-deildarinnar og 12 stiga frádráttur myndi gera stöðuna enn verri. Liðið yrði þá 15 stigum frá öruggri stöðu og með mjög erfiða baráttu framundan í fallslagnum.
Stuðningsmenn hafa lýst yfir miklum áhyggjum af framtíð félagsins og óttast að ef ekki finnist nýir fjárfestar getur saga félagsins, sem á sér rúmlega 150 ára sögu, staðið á brauðfótum.