Wayne Rooney hefur brugðist hart við ummælum Steven Gerrard, sem sagði að enska gullkynslóðin hefði ekki unnið neitt vegna þess að liðið hefði verið fullt af sjálfselskum töpurum.
Í viðtali fyrr í vikunni lýsti Gerrard óánægju sinni með andrúmsloftið í enska landsliðinu á árunum 2000–2010 og sagðist hann hafa hatað að mæta í landsliðsverkefni.
Rooney, sem spilaði 120 landsleiki á ferlinum, segir þessi ummæli vera óþörf og ósanngjörn gagnvart leikmönnum sem lögðu allt í sölurnar.
„Ég myndi ekki orða það eins og Steven,“ sagði Rooney í hlaðvarpi sínu hjá BBC.
„Það voru vissulega stórir karakterar í búningsklefanum, en allir lögðu hart að sér. Við reyndum allt, það bara tókst ekki.“
„Að segja að núverandi landslið hafi betri hugarfar er óvirðing við okkur. Það var einfaldlega önnur tíð. Samskipti milli leikmanna frá Liverpool og United voru erfiðari þá. Í dag er þetta allt öðruvísi, menn fara saman í frí og geta jafnvel fengið sér bjór saman eftir leiki.“
Rooney viðurkennir að samskiptin milli leikmanna liða á borð við United og Liverpool hafi verið stirð, en segir að það hafi aldrei haft áhrif á vilja þeirra til að vinna sem lið.
„Við töpuðum oft á vítum, gegn Portúgal og Ítalíu. Þetta voru oft smáatriði. En að segja að þetta hafi verið sjálfselskir taparar, það gengur ekki upp.“