Knattspyrnusamband Íslands og Íslenskur Toppfótbolti sendu rétt í þessu frá sér viljayfirlýsingu sem á að marka nýtt upphaf að auknu og bættu samstarfi aðilanna.
Yfirlýsingin kemur í kjölfar mikillar umræðu um samstarfið á milli KSÍ og ÍTF og að það hafi ekki gengið sem skildi undanfarin misseri.
Þorvaldur Örlygsson var fyrir rúmri viku kosinn nýr formaður KSÍ og viljayfirlýsingin umrædda því eitt af hans fyrstu verkum í starfi.
Viljayfirlýsing KSÍ og ÍTF
Í kjölfar nýafstaðins ársþings KSÍ og þeirrar umræðu sem uppi hefur verið varðandi samskipti KSÍ og ÍTF lýsa stjórnir beggja samtaka yfir vilja til aukins samstarfs knattspyrnunni á Íslandi til heilla. ÍTF eru samtök félaga sem eiga lið í tveimur efstu deildum karla og kvenna. Öll félög innan ÍTF eru aðildarfélög KSÍ.
Af beggja hálfu er vilji til þess að leggja sérstaka áherslu á samstarf um móta- og dómaramál, markaðs- og kynningarmál, fræðslumál, og þróun ungra leikmanna. Með virku og opnu samtali og samstarfi næst mestur árangur.
Með viljayfirlýsingu þessari er markað nýtt upphaf að auknu og bættu samstarfi ÍTF og KSÍ sem báðir aðilar leggja áherslu á til lengri tíma og er í samræmi við stefnumótun beggja aðila.