Hinrik Harðarson er nýr leikmaður ÍA, hann kemur til félagsins frá Þrótti í Reykjavík. Hinrik lék upp yngri flokka Þróttar og hefur spilað 77 leiki í deild, bikar og lengjubikar með meistaraflokki Þróttar frá árinu 2021 og skorað í þeim 27 mörk.
Öll helstu lið landsins höfðu áhuga á að krækja í Hinrik sem skoraði ellefu mörk fyrir Þrótt í Lengjudeildinni í sumar.
Um er að ræða ungan og spennandi sóknarmann sem vakti verðskuldaða athygli í sumar.
Jón Þór: “Hinrik er öflugur ungur leikmaður sem hefur gert virkilega góða hluti í Lengjudeildinni. Ég tel hann tilbúinn til að stíga skrefið í efstu deild og hann hefur mikinn metnað til að bæta og þróa sinn leik. Ég er stoltur og ánægður með að hann hafi valið ÍA til þess. Ég hef fylgst lengi með Hinriki og er sannfærður um að eiginleikar hans falli vel að leik liðsins. Ég hlakka mikið til að vinna með honum.”
Skagamenn unnu sigur í Lengjudeildinni í sumar og leika því á meðal þeirra bestu næsta sumar.