Graham Potter, stjóri Chelsea, var ekki of súr eftir leik við Liverpool í ensku úrvalsdeildinni í dag.
Leikurinn var engin frábær skemmtun en Chelsea spilaði nokkuð vel á erfiðum útivelli og átti stigið jafnvel skilið.
Potter segir að stefnan hafi verið að ná í þrjú stig en sættir sig við niðurstöðuna gegn erfiðum andstæðingi.
,,Við vildum vinna en við héldum hreinu og getum verið ánægðir með það. Við vorum allt í lagi í fyrri hálfleik og vorum óheppnir að skora ekki, þetta var rangstaða og það er eins og það er,“ sagði Potter.
,,Orkan var góð, þeir byrjuðu betur í seinni hálfleik en við náðum að aðlagast og áttum okkar færi og dagurinn var jákvæður fyrir utan það að við vildum þrjú stig.“