Gylfi Þór Sigurðsson, leikmaður Everton, hefur átt betri tímabil en hann er að upplifa í Liverpool þessa dagana.
Gylfi spilaði í markalausu jafntefli við Arsenal um helgina en var ekki sannfærandi eins og kannski í flestum umferðum tímabilsins til þessa.
Í hlaðvarpsþættinum Dr. Football þá ræddi Hjörvar Hafliðason aðeins grein sem hann sá í Morgunblaðinu eftir leik.
Þar var fyrirsögnin: ‘Gylfi á aldrei aftur að spila fyrir Everton’ – hún var búin til eftir ummæli eins stuðningsmanns Everton á Twitter.
Hjörvar sendi Morgunblaðinu létta pillu eftir þessa grein og bendir á að það sé hægt að finna alls konar bull á þessum annars ágæta samskiptamiðli.
,,Það eru jólin og ég ætla að vera með spjöldin í vasanum. Ég verð hins vegar að aðvara mína menn í Morgunblaðinu núna, bara því mér þykir vænt um ykkur,“ sagði Hjörvar.
,,Hér er fyrirsögn: ‘Gylfi á aldrei aftur að spila fyrir Everton’ ég hugsa bara ‘já, hvað er þetta?’
,,Þá kemur það sem stendur í greininni: ‘Eftir leikinn í gær kölluðu margir eftir því að Gylfi yrði látin fara frá félaginu. Á samfélagsmiðlinum Twitter gekk einn svo langt með að segja að hann ætti aldrei aftur að spila fyrir Everton.’
,,Ef þú leitar á Twitter geturðu fundið allt það bull sem þú vilt. Þú getur fundið Manchester City aðdáanda sem er á móti Pep Guardiola, þú getur fundið Liverpool stuðningsmann sem er á móti Jurgen Klopp. Við verðum að fara að setja okkur í stand allir sem einn og beint í stuttbuxurnar.“