fbpx
Föstudagur 26.apríl 2024
Matur

Arnór getur ekki borðað hvítlauk: Íslendingar gegnumsýrðir af hvítlaukssýki – „Sjóðandi stefnumót við klósettið kvöldið eftir“

Lilja Katrín Gunnarsdóttir
Þriðjudaginn 11. desember 2018 19:03

Hvítlaukur er óvinur Arnórs.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Mjólkurvörur og allt sem endar á -lauk er eins og eitur fyrir mig. Viðbrögðin byggjast samt á magninu. Smá magn veldur því að kærastan mín situr hinum megin í sófanum um kvöldið sökum vindgangs. Mikið magn endar á kvöldstund á klóinu,“ segir félagsfræðingurinn Arnór Grjót Ívarsson. Arnór er með heilkenni sem heitir iðraólga á íslensku en á ensku kallast það IBS, eða Irritable Bowel Syndrome. Heilkennið veldur því að Arnór getur ekki borðað hvað sem er.

„Þetta liggur í því að matartegundir geta innihaldið keðju af efnum sem heita FODMAPs, innihalda of mikið af einhvers konar glúkósum og kolvetnum sem fara illa í magann á sumum. Sem betur fer þá framkallar heilkennið engan varanlegan skaða, heldur eru aðeins tímabundin einkenni sem verða af því að neyta matar innan þessa fæðuflokks. Einkennin eru vindgangur, niðurgangur, magaverkur, flökurleiki, útblásinn magi og í sumum tilfellum þá bregst maginn svo harkalega við að það veldur uppköstum,“ segir Arnór.

Síprumpandi allt kvöldið

Arnór forðast allt sem endar á -lauk.

Talið er að iðraólga hrjái að jafnaði 15 til 20 prósent fullorðinna, flestir á aldrinum 20 til 50 ára, en Arnór uppgötvaði þetta fyrir aðeins um ári síðan.

„Ég kíkti til læknis af því að ég var farinn að taka eftir því að alltaf þegar ég borðaði hvítlauk í kvöldmat þá var ég síprumpandi allt kvöldið eftir og svaf líka svakalega illa. Eftirmálar þeirrar ferðar þegar að læknirinn stakk upp á því að ég væri kannski með IBS var bara eins og risastórt púsluspil sem rann saman,“ segir Arnór og heldur áfram. „Mér hefur aldrei fundist hvítlaukur né laukur góður og mjólk hefur ekkert verið neitt sérstaklega góð við mig í gegnum árin. Erfiðast var samt að segja mömmu að ég gæti ekki lengur borðað hvítlauk. Fjölskyldan er svakalega hrifin af honum.“

IBS er nákvæmlega ekkert fyndið

Vegna þeirra slæmu áhrifa sem hvítlaukur hefur á Arnór ákvað hann að leita til matgæðinganna í Facebook-hópnum Matartips í þeirri von að fá uppástungur um tilbúnar vörur sem innihalda ekki hvítlauk.

„Þetta er svaka slæmt, því að Íslendingar eru svo gegnumsýrðir af hvítlaukssýkinni að það liggur við að ég þurfi að skila inn vegabréfinu mínu til sýslumanns og afsala mér íslenskum ríkisborgararétti miðað við viðbrögð fólks þegar ég tjái þeim að ég geti ekki borðað rétt ef hann er matreiddur með/úr hvítlauki,“ skrifar Arnór í mjög skemmtilegum pistli innan hópsins. Segist hann hafa í hyggju að minnka kjötneyslu sína og leitar því í vegan vörur.

„Málið er að framleiðendur þessara vara sjá fyrir sér að það eina sem getur komið í staðinn fyrir eitthvað sem var einu sinni hlutur á fjórum fótum er: hvítlaukur,“ skrifar hann og bætir við: „Þið hin, grey vinir mínir sem hafið minnkað kjötneyslu og getið ekki borðað hvítlauk án þess að eiga sjóðandi stefnumót við klósettið kvöldið eftir, hvað í andskotanum geriði til þess að halda ykkur nærðum?“ Viðbrögðin hafa ekki látið á sér standa, enda notar Arnór húmorinn sem vopn til að útskýra þessar hvítlauksraunir sínar.

„IBS er bara nákvæmlega ekkert fyndið, en mér finnst þægilegra að tala um alla hluti ef ég get gert það á skemmtilegan hátt. Mannskepnan virðist líka vera líklegri til að hlusta og svara ef hún fær að hlæja smá fyrst. Miðað við svörin sem ég fékk þá virkaði það hjá mér,“ segir Arnór við blaðamann DV.

Lífið er aðeins flóknara

Hann leggur ýmislegt á sig til að sneiða hjá hvítlauknum.

Engan hvítlauk hér takk.

„Samlandar mínir eru alveg hrikalega sjúkir í þetta efni af einhverjum ástæðum. Það eru þá helst tilbúnir réttir eða sósur sem ég neyðist til að forðast. Ég hef náð að redda mér nokkuð vel með því að elda mat sjálfur sem er venjulega tilbúinn, til dæmis blanda tómötum og kryddi saman við hakk í staðinn fyrir að nota tilbúna sósu frá Knorr. Lífið er aðeins flóknara og með aðeins fleiri skrefum, en þetta endar á því að ég upplifi relatívt prumpulaus kvöld, svo það er allt gott og blessað,“ segir hann og bætir við að þessi auka skref séu alveg þess virði.

„Þegar ég fór að lýsa því yfir að ég gæti ekki lengur borðað hvítlauk, lagði bara blátt bann við því og borðaði svona jurtasmjörsbrauð í staðinn fyrir hvítlauksbrauð, þá urðu kvöldin talsvert bærilegri. Þetta er bara spurning um að prófa allt og vita hvað maður einfaldlega getur ekki borðað. Svo er það bara að segja bless við téðan mat.“

Hægt að marinera með öðru en vampírubana

Arnór segir lítið sem ekkert talað um iðraólgu og er sannfærður um að fleiri þjáist af þessu heilkenni án þess að vita það.

„Ég held að íslenska tregðan spili stórt hlutverk í því að margir pæla bara ekki í þessu, heldur borða bara matinn og hugsa svo með sér með fæturna upp í loft á klóinu kvöldið eftir: „Þetta reddast, maður.“,“ segir hann.

En hvað vill hann segja við matvælaframleiðendur hér á landi?

„Mér finnst úrvalið af laktósafríum vörum á Íslandi vera bara til skammar. Í Svíþjóð þarftu að leita og leita til þess að finna vöru sem er ekki laktósafrí, en hérna ertu heppinn ef þú finnur ís sem er ekki úr kúamjólk og kostar ekki tvö þúsund kall. Það drekka ekki allir mjólk og það geta heldur ekki allir drukkið mjólk. En þetta er kannski bara eins og íslenska tregðan: Við erum búin að drekka kúamjólk í þúsund ár og erum kannski ekki tilbúin til þess að viðurkenna að það eru til betri og hollari leiðir til þess að borða morgunkorn eða hafa rjóma út á vöfflur. Ég er allavega orðinn nokkuð þreyttur á að spígspora um allar matvöruverslanir í leit að einhverju sem drepur ekki magann á mér. Það eru til fleiri krydd en hvítlaukskrydd, það má alveg marinera læri eða vængi með öðru en vampírubana. Við fílum fjölbreytileika og af ástæðu. Hann er skemmtilegri en litlaus hafragrautur.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Matur
20.12.2023

Grillaður hunangshjúpaður hestshaus með sinnepsfræjum, villihvítlauk og blóðbergi

Grillaður hunangshjúpaður hestshaus með sinnepsfræjum, villihvítlauk og blóðbergi
Matur
07.12.2023

Hátíðarbakkinn

Hátíðarbakkinn
Matur
04.11.2023

Djúsí beikonborgari með mozzarella fyllingu

Djúsí beikonborgari með mozzarella fyllingu
Matur
03.11.2023

Kjúklingalasagna sem allir elska

Kjúklingalasagna sem allir elska
Matur
20.10.2023

Salat með byggi, sætum kartöflum, graskersfræjum og hvítlauk

Salat með byggi, sætum kartöflum, graskersfræjum og hvítlauk
Matur
19.10.2023

Bragðmikil sveppasúpa

Bragðmikil sveppasúpa