fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fókus

Halla Tómasdóttir ritaði bréf til barna sinna: „Aldrei láta óttann bera ykkur ofurliði“

Auður Ösp
Miðvikudaginn 7. desember 2016 17:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ekki vera fórnarlömb, það leysir ekkert, veldur bara óhamingju. Veljið bjartsýni og seiglu þó á móti blási og haldið ótrauð áfram veginn með trú, von og kærleik,“ ritar Halla Tómasdóttir rekstarhagfræðingur og fyrrum forsetaframbjóðandi í einlægu bréfi sem hún birtir á heimasíðu sinni en bréfið er stílað á börnin hennar tvö, Tómas Bjart og Auði Ínu, og þeirra kynslóð og inniheldur tíu góð ráð, nokkurs konar veganesti út í lífið. Í bréfi sínu, „Tíu vel valin ráð frá mömmu“, kveðst Halla vera djúpt hugsi yfir þeim veruleika sem blasir við kynslóð barna hennar en víst er að heilræði Höllu komi til með að gagnast öllum þeim sem áhuga á að rækta sjálfa sig og gera heiminn í kringum sig enn betri.

Í bréfinu hvetur Halla börn sín til þess að temja sér auðmýkt, og koma fram við samferðamenn sína af virðingu.

„Um leið og ég treysti ykkur til góðra verka og vil sjá ykkur hugsa án takmarkana um tækifærin í lífinu, þá hvet ég ykkur til að nálgast hvert verkefni og hverja manneskju af auðmýkt. Engin manneskja er merkilegri en önnur en öll höfum við eitthvað sérstakt fram að færa. Hlustið á hugmyndir annarra og sýnið samferðafólki ykkar einlæga athygli. Heilbrigð sjálfsmynd byggir á að þekkja styrkleika sína vel en skynja jafnframt hvar og hvernig aðrir geta bætt mann. Þegar þið gerið mistök, og þið munið gera mörg mistök, þá hvet ég ykkur til að viðurkenna þau og nýta lærdómstækifærin sem í þeim felast. Munið að þið eruð einstök og stórkostleg alveg eins og þið eruð, en varist að láta egóið vaxa ykkur yfir höfuð. Þið eruð nefnilega líka hluti af mikilvægri og stórkostlegri heild sem ykkur ber að virða. Horfið því ávallt til áhrifa ykkar á samfélag og náttúru og tryggið að þið gefið meira en þið takið. Hugsið meira VIÐ og minna ÉG og ykkur mun farnast vel.“

Jafnframt hvetur Halla börnin sín til að velja þá sem þau umgangast af kostgæfni. „Leitið eftir nærandi félagsskap og góðum fyrirmyndum. Finnið þá sem ganga á undan með góðu fordæmi og hafa hugrekki til að synda gegn straumnum og gera það sem réttara er. Umgangist þá sem gera ykkur enn betri. Forðist hjarðhegðun og félagsskap og fyrirmyndir sem hvetja ykkur til þess að gera og segja hluti til að falla í hópinn og gera ykkur þar með illa kleift að lifa í sátt við ykkur sjálf og þá sem þið elskið.“

Jafnframt hvetur hún þau til að temja sér þakklæti, og taka engu sem gefnu. „Munið að þakka fyrir allt sem þið hafið. Þið búið í gjöfulu landi, eigið stóra og samheldna fjölskyldu og fjölda vina. Þið borðið hreinan og góðan mat og njótið menntunar og lífsgæða sem marga dreymir um en fá aldrei. Gerið þakklæti að daglegu veganesti, þakkið í hljóði og upphátt á hverjum degi fyrir allt það góða sem í lífi ykkar er og þá mun ykkur aldrei skorta neitt.“

Þá segir Halla að fátt muni reynast þeim betra veganesti í lífinu en velja sín lífsgildi og láta þau gildi vísa leiðina. „Látið góð gildi vera ykkur leiðarljós í lífinu. Takið engar stórar ákvarðanir án þess að máta þær við ykkar grunngildi.“

Þá brýnir Halla fyrir börnum sínum að gefast ekki upp þótt móti blási en sé lífið hvorki einfalt né auðvelt. „Þið munið mæta mótbyr en ykkar viðbrögð við áskorunum og erfiðleikum munu hafa mest áhrif á það hvernig ykkur farnast í lífi og starfi. Ekki vera fórnarlömb, það leysir ekkert, veldur bara óhamingju. Veljið bjartsýni og seiglu þó á móti blási og haldið ótrauð áfram veginn með trú, von og kærleika.“

Halla hetur jafnframt börn sín til að sína aðgát í nærveru sálar og hafa í huga að orð geta sært.

„Takið aldrei þátt í einelti og sýnið styrk til að standa sterk gegn slíkri hegðun og slíkum félagsskap. Skrifið hvorki né segið orð sem þið mynduð ekki þiggja með þökkum sjálf. Orð meiða og við búum því miður á fordæmalausum tímum og fólk grípur fljótt til hatursfullrar og grimmrar orðræðu. Verið gagnrýnin, við eigum að rýna til gagns, en veljið orð ykkar vel og hafið aðgát í nærveru hverrar sálar. Gleymið aldrei að þeir sem hata eru oftast hjálpar þurfi, hafið ykkur því yfir hatrið með yfirvegun og kærleika og látið aldrei aðra draga ykkur niður á svo lágt plan að þið séuð ekki stolt af hverju orði sem frá ykkur fer. Ef þið misstígið ykkur, biðjist afsökunar af auðmýkt.“

Þá hvetur hún börn sín til að þróa með sér leiðtogahæfileika sína.

„Ég hef óbilandi trú á ykkur og sé í ykkur sanna leiðtoga. Þið hafið hæfileika til þess að fá aðra með ykkur og ég vona einlæglega að þið nýtið þá gjöf til góðra verka. Ég vona jafnframt að þið leggið ykkur jafn vel fram um að vera góðir liðsmenn þegar aðrir leiða. Ræktið með ykkur auðmýkt, samskiptahæfni og ástríðu fyrir árangri og þið munið blómstra.“

Þá bendir Halla á að við hættum aldrei að læra, og hvetur börn sín til að vera forvitin um heiminn í kringum sig.

„Við lifum í veröld breytinga og þið munuð bæði hitta fyrir fólk og aðstæður munu vekja með ykkur ótta. Aldrei láta óttan bera ykkur ofurliði. Hann er lamandi afl og vondur húsbóndi. Verið lærdómsfús og tilbúin til að aflæra það sem ekki virkar. Náið ykkur stöðugt í nýja þekkingu og temjið ykkur ný vinnubrögð og viðhorf í takt við aðstæður hverju sinni. Verið sveigjanlegir eilífðarstúdentar.“

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Að lokum hvetur Halla börn sín til þess að finna tilgang sinn í lífinu og vera stolt af sér og því sem þau hafa að bjóða heiminum.

„Þið eruð gædd einstökum hæfileikum, nýtið þá vel. Verið óhrædd við að prófa þá í ólíkum verkefnum í lífinu en leitist við að finna ykkar eina sanna tilgang og eltið hann óttalaust og af ástríðu,“ ritar Halla og bætir við:

„ Þið hafið notið leiðsagnar fjölda góðra kennara og þjálfara og munið gera áfram. En þegar öllu er á botninn hvolft, þá er stærsta verkefni lífs ykkar að vera þið sjálf. Að láta lífið ekki leika ykkur þannig að þið reynið að vera eitthvað annað en það sem þið eruð einlæglega hér til að vera og gera.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Fyrrum ritari staðfestir loks að hafa verið yfirheyrð í eineltisrannsókninni alræmdu

Fyrrum ritari staðfestir loks að hafa verið yfirheyrð í eineltisrannsókninni alræmdu
Fókus
Í gær

Tekur við af Gísla Marteini sem kynnir Eurovision

Tekur við af Gísla Marteini sem kynnir Eurovision
Fókus
Fyrir 2 dögum

Fyrrverandi samskiptastjóri Sigríðar Hrundar styður núna Höllu Hrund

Fyrrverandi samskiptastjóri Sigríðar Hrundar styður núna Höllu Hrund
Fókus
Fyrir 2 dögum

Fylgdi vinsælu heilsuráði og endaði á spítala – Varar aðra við

Fylgdi vinsælu heilsuráði og endaði á spítala – Varar aðra við
Fókus
Fyrir 3 dögum

Föðurlausi drengurinn sem setti vikulega á svið leikrit til að fela vanræksluna – „Maður vissi ekkert hverju maður átti von á þann daginn“

Föðurlausi drengurinn sem setti vikulega á svið leikrit til að fela vanræksluna – „Maður vissi ekkert hverju maður átti von á þann daginn“
Fókus
Fyrir 3 dögum

„Hver verður næst?“

„Hver verður næst?“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Vikan á Instagram – „Þvílíkur rússibani“

Vikan á Instagram – „Þvílíkur rússibani“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Varð fyrir hrottalegu ofbeldi fimm ára gömul – „Ég var á leið til vinkonu minnar, bankaði á vitlausa hurð“

Varð fyrir hrottalegu ofbeldi fimm ára gömul – „Ég var á leið til vinkonu minnar, bankaði á vitlausa hurð“