Þetta eru hvítir bændur frá Suður-Afríku. Stjórn Trump hefur tjaldað öllu til, til að hjálpa hvítum suðurafrískum bændum sem Trump telur að sæti kynþáttamismunun í heimalandi sínu.
New York Times og NPR segja að fyrstu hvítu Suður-Afríkubúarnir komi hugsanlega til Bandaríkjanna í þessari viku. Þetta er fólk úr þjóðfélagshópi sem nefnist „afrikaans“. Þetta eru afkomendur bænda og iðnaðarmanna, aðallega frá Hollandi og Þýskalandi, sem fluttu til Suður-Afríku um miðja sautjándu öldina.
Þessi þjóðfélagshópur var meðal þeirra sem fóru með völdin í Suður-Afríku á meðan apartheitstefnan var við lýði. En nú segja „afrikaans“ sjálfir, og Donald Trump, að nú séu þeir fórnarlömb kynþáttamismununar.
New York Times segir að bandarísk stjórnvöld hafi farið yfir 8.000 umsóknir Suður-Afríkubúa sem vilja fá hæli í Bandaríkjunum og þar með dvalarleyfi. Reiknað er með að um 100 þeirra fái hæli.
NPR segir að fram að þessu hafi 54 hvítir Suður-Afríkubúar fengið hæli í Bandaríkjunum.
Málið hefur vakið töluverða athygli í ljósi þess að stjórn Trump hefur lokað fyrir aðgang flóttafólks að Bandaríkjunum og einnig vegna þess hversu hraða málsmeðferð umsóknir Suður-Afríkubúanna hafa fengið. Venjulega tekur slík málsmeðferð mörg ár en í þessu tilfelli virðist vera hægt að afgreiða þær á nokkrum mánuðum.