fbpx
Sunnudagur 11.maí 2025
Pressan

Hún var á leið upp á stjörnuhimininn en lifði tvöföldu lífi – Hvað varð eiginlega um hana og hver var hinn dularfulli Kirk?

Pressan
Laugardaginn 10. maí 2025 22:00

Jean Spangler. Mynd: Bettman/Getty

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Um klukkan 17 föstudaginn 7.október 1949 yfirgaf 26 ára gömul kona, Jean Spangler, heimili sitt í Los Angeles í Bandaríkjunum. Jean hafði starfað sem fyrirsæta og dansari og var upprennandi leikkona en hún hafði leikið nokkur minni hlutverk í kvikmyndum. Jean sást hins vegar aldrei aftur á lífi en í ljós kom að hún hafði ekki sagt fjölskyldu sinni allan sannleikann um hvert hún var að fara. Það var síðan fleira sem hún reyndist ekki hafa sagt rétt frá og við blasti að Jean Spangler hafði í raun lifað tvöföldu lífi. Ein af fáum vísbendingum um hvað kom eiginlega fyrir hana var miði sem búið var að skrifa á nafnið Kirk en á tímabili var talið að þar væri um að ræða einn frægasta kvikmyndaleikara heims.

Spangler fæddist í Seattle 1923 en flutti með fjölskyldu sinni til Los Angeles á unglingsaldri og fór þá að dansa í meðal annars leikhúsi. Þegar hún var 18 ára 1941 giftist hún manni að nafni Dexter Banner en hjónabandið var ekki hamingjusamt. Hún sótti um skilnað en hjónin náðu saman aftur saman um stund og dóttirin Christine fæddist 1944. Fljótlega slitnaði þó endanlega upp úr sambandinu og við tók forræðisdeila. Eiginmaðurinn fékk fyrst forræðið og neitaði Jean um umgengnisrétt en hún fékk þó á endanum forræðið 1948. Auk dansins hafði Jean unnið við fyrirsætustörf og reyndi að nýta sér þá reynslu til að koma sér á framfæri sem leikkona. Hún hafði dansað í nokkrum kvikmyndum og fékk síðan nokkur smærri hlutverk. Ferill hennar virtist því vera á uppleið þegar dagurinn örlagaríki rann upp.

Sagði ósatt

Jean og dóttirin Christine deildu heimili með Florence, móður Jean, Edward, bróður Jean, og eiginkonu hans Sophie. Þegar Jean fór út skildi hún Christine eftir í umsjá Sophie en Florence var í Kentucky-ríki að heimsækja ættingja. Mágkona Jean sagði að hún hafi sagst ætla að fara að hitta fyrrum eiginmann sinn til að krefja hann um vangoldið meðlag og því næst væri förinni heitið á tökustað kvikmyndar sem hún væri að leika í.

Spangler fór út eins og áður segir um klukkan 17. Tveimur tímum síðar hringdi hún heim til sín og tjáði mágkonu sinni að hún yrði að vinna við kvikmyndatökuna fram á nótt. Daginn eftir var hún hins vegar ekki enn komin heim og Sophie tilkynnti lögreglu um hvarf hennar. Sophie sagði lögreglu hvert Jean hefði sagst vera að fara. Þegar lögreglan ræddi við fyrrum eiginmann Jean sagði hann hins vegar að þau hefðu ekkert hist, það hefði ekki staðið til og raunar hefði hann ekki séð hana í margar vikur. Nýja eiginkonan hans staðfesti frásögnina.

Eftirgrennslan lögreglu leiddi einnig í ljós að Jean hafi hvergi verið skráð í vinnu hjá kvikmynda- og sjónvarpsframleiðendum þetta kvöld. Hún virðist því hafa einfaldlega sagt ósatt um hvert hún var að fara.

Sölukona á markaði skammt frá heimili Jean og fjölskyldu tjáði lögreglu að hún hafi séð hana á markaðnum um klukkan 18, klukkustund eftir að hún fór af heimilinu. Sagði konan að Jean hefði virst vera að bíða eftir einhverjum.

Veskið

Þann 9. október tveimur dögum eftir að hún hvarf fannst veski Jean í Griffith-almenningsgarðinum en heimili hennar var í um 8 kílómetra fjarlægð frá garðinum. Leitað var frekari vísbendinga í garðinum, sem er 1,7 hektarar að stærð, en ekkert nema veskið fannst og fram til þessa dags hefur ekkert annað fundist sem varpað gæti ljósi á hvað varð eiginlega um Jean Spangler. Ólar á veskinu voru slitnar eins og það hefði verið rifið af Jean en hún var að sögn ekki með neina peninga á sér.

Spjótin beindust fyrst að eiginmanninum fyrrverandi, Dexter Banner. Það var ekkert launungarmál að hann vildi fá forræði yfir Christine og eftir hvarf Jean fékk hann það. Móðir Jean barðist fyrir forræðinu en fékk umgengnisrétt. Banner neitaði henni hins vegar um að hitta dótturdóttur sína og sagði barnið komast í uppnám því Florence væri sífellt að minnast á hina horfnu Jean. Hann var dæmdur í fimmtán daga fangelsi fyrir þetta en flúði þá með Christine til Flórída.

Jean með Christine nokkrum dögum áður en hún hvarf. Mynd/Getty.

Hann var þó á endanum hreinsaður af öllum grun um aðild að hvarfi fyrrum eiginkonu sinnar og barnsmóður.

Miðinn

Í veski Jean fannst pappírsmiði sem var búið að skrifa á skilaboð til manns að nafni Kirk:

„Kirk: Ég get ekki beðið lengur. Ætla að fara til Scott læknis. Þetta virkar best svona á meðan mamma er í burtu,“

Lögreglan hófst þegar handa við að kanna hvaða menn þetta gætu verið en fjölskylda og vinir Jean sögðust ekkert kannast við neina einstaklinga með þessum nöfnum.

Allir læknar með þessu nafni voru spurðir hvort þeir hefðu sjúkling með eftirnafnið Spangler eða Benner, nafni fyrrum eiginmanns Jean, en allir svöruðu þeir neitandi. Í ljós kom einnig að Jean hafði þekkt mann sem hún kallaði Scotty. Þau höfðu átt í ástarsambandi en hann beitti hana ofbeldi. Óljóst var hvort fornafn hans var Scott eða hvort hann var bara kallaður þetta en lögmaður Jean sagði að hún hefði síðast hitt Scotty fjórum árum áður.

Miðinn með sem fannst í veski Jean Spangler: Mynd/Getty

Kirk

Þegar Florence, móðir Jean sneri aftur frá Kentucky, sagði hún lögreglunni að einhver maður að nafni Kirk hefði sótt Jean tvisvar á heimili þeirra en beðið í bæði skiptin úti í bíl og ekki komið inn. Í ljós kom að það var ekki loku fyrir það skotið að þar hefði verið á ferðinni einn frægasti kvikmyndaleikari í heimi á þessum tíma, Kirk Douglas.

Skömmu áður en hún hvarf hafði Jean lokið við að leika lítið hlutverk í kvikmyndinni Young Man with a Horn en Douglas var í aðalhlutverki.

Fljótlega fóru fregnir að berast af því í fjölmiðlum að Douglas gæti verið hinn dularfulli Kirk. Douglas ræddi við lögregluna í gegnum síma og neitaði því alfarið að hafa þekkt Jean Spangler. Hann viðurkenndi þó nokkrum dögum síðar að hann og Spangler hefðu rætt saman á tökustaðnum. Hann hefði í fysrtu ekki kannast við nafnið en svo verið minntur á að Spangler hefði verið aukaleikari í atriði í myndinni sem hann hefði leikið í. Douglas sagðist hafa gantast lítillega við Spangler en hefði aldrei séð hana áður en þetta stutta samtal átti sér stað og aldrei hitt hana aftur og þaðan af síður farið út með henni.

Kirk Douglas árið 1950, ári eftir að Jean Spangler hvarf. Mynd: Wikimedia Commons.

Spangler hafði sagt vini sínum að hún ætti í ástarsambandi sem væri þó ekki alvarlegt en hún væri að skemmta sér mjög vel.

Vinkonur hennar tjáðu lögreglunni hins vegar að hún hefði verið ólétt, gengin þrjá mánuði á leið og hefði talað um að fara í þungunarrof. Á þeim tíma var það ólöglegt í öllum ríkjum Bandaríkjanna en önnur vitni sem sóttu sömu næturklúbba og bari og Spangler sögðust hafa heyrt um fyrrum læknanema sem framkvæmdi þungunarrof gegn greiðslu. Talið var þá mögulegt að þungunarrofið hefði mislukkast á einhvern hátt og Jean þá verið látin hverfa. Það tókst hins vegar aldrei að finna þennan fyrrum læknanema eða staðfesta yfirhöfuð að hann væri til.

Fórnarlömb raðmorðingja?

Á þessum árum hafði nokkuð verið um morð á ungum konum í Los Angeles sem talið var að væru mögulega verk raðmorðingja sem aldrei náðist að upplýsa hver var. Eitt það frægasta af þessum morðum var hrottalegt morð á ungri konu að nafni Elizabeth Short 1947 en morðið hefur æ síðan verið kennt við dökkan háralit Short og plöntuna dalía sem einnig er kölluð glitfífill. Er málið því alltaf á ensku kallað The Black Dahlia Murder.

Mörgum árum síðar staðhæfði maður að nafni Steve Hodel, sem starfað hafði sem rannsóknarlögreglumaður í Los Angeles, að faðir hans George Hodel, sem þá var látinn en hafði verið starfandi læknir, bæri ábyrgð á morðunum sem og hvarfi Jean Spangler.

George Hodel. Myndin er tekin um það bil árið 1950, ári eftir hvarf Jean Spangler. Mynd: Steve Hodel, CC BY-SA 4.0, Wikimedia Commons

Veski Jean hafði fundist í um 400 metra fjarlægð frá heimili Hodel. Steve Hodel segist einnig hafa fengið þær upplýsingar frá bróður sínum að faðir þeirra hefði verið á þessum tíma í sambandi með leikkonu að nafni Jean. Telur Steve Hodel líklegt að Jean hafi grunað að faðir hans hefði morð á samviskunni og hefði hótað að hafa samband við lögreglu en hann þá myrt hana.

Spangler sást raunar þetta kvöld á veitingastað í Los Angeles að rífast við mann sem líktist George Hodel og það var í síðasta sinn sem hún sást á lífi. Viku síðar var Hodel ákærður fyrir að misnota 14 ára dóttur sína sem varð ólétt eftir misnotkunina en var send í þungunarrof. Steve Hodel sagði föður sinn George hafa tilheyrt hópi lækna sem framkvæmt hafi ólöglegar þungunarrofsaðgerðir og telur að læknirinn Scott sem getið var á áðurnefndum miða sem fannst í veski Jean Spangler hafi tilheyrt sama hópi.

Bensínstöðin

Jean fór eins og áður segir að heiman 7.október en um kvöldið komu kona sem líktist henni í fylgd með karlmanni akandi að bensínstöð í Los Angeles og sögðust vera á leiðinni í norðurátt til borgarinnar Fresno. Þegar búið var að dæla bensíni á bílinn ók maðurinn af stað en konan kallaði þá í átt að starfsmanninum að hann yrði að hringja á lögregluna. Það gerði hann en þegar lögreglumenn komu á staðinn voru maðurinn og konan löngu farin.

Steve Hodel segir lýsingu starfsmannsins á karlmanninum hafa passað við föður hans og bíllinn sem karlmaðurinn hafi ekið hafi sömuleiðis líkst bíl föður hans. Hodel leitaði árið 2012 með aðstoð sérþjálfaðs hunds í húsinu sem faðir hans bjó í á þessum tíma. Hundurinn fann lykt af líkamsleifum í kjallaranum og í brekku nálægt húsinu og ummerki um líkamsleifar fundust síðan í jarðveginum.

Einnig voru kannaðir möguleikar á því að liðsmenn glæpasamtaka hefðu eitthvað með hvarfið að gera. Fullyrt var að Jean hefði þekkt til sumra þeirra en hún starfaði um tíma sem dansari á næturklúbbi í eigu þekktra glæpamanna. Systir hennar fullyrti að hún þekkti ekkert þá glæpamenn sem hún hafði verið tengd við en hálfu ári eftir hvarfið fullyrti tollvörður í Texas að hann hafði séð einn þeirra, sem sjálfur hafði horfið, á hóteli í Texas með konu sem líktist Jean. Starfsmaður á hóteli bar síðan kennsl á hana af ljósmynd en hún var ekki skráð sem gestur á hótelinu.

En enn þann dag í dag hefur ekkert komið út úr rannsókninni á hvarfi Jean Spangler. Móðirin unga sem var á leið upp á stjörnuhimininn varð aldrei heimsfræg leikkona og er fyrst og fremst í dag minnst fyrir að hafa horfið sporlaust. Síðan þá eru liðin 76 ár. Málið er að sögn enn opið hjá lögreglunni í Los Angeles en það virðist ólíklegt að það komi nokkurn tímann í ljós hvað varð eiginlega um Jean Spangler.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Í gær

Svona komast Kínverjar fram hjá tollum Trump

Svona komast Kínverjar fram hjá tollum Trump
Pressan
Í gær

Trump útilokar ekki að beita hervaldi til að ná Grænlandi

Trump útilokar ekki að beita hervaldi til að ná Grænlandi
Pressan
Fyrir 2 dögum

Robert Prevost er fyrsti bandaríski páfinn – Valdi sér nafnið Leó XIV

Robert Prevost er fyrsti bandaríski páfinn – Valdi sér nafnið Leó XIV
Pressan
Fyrir 2 dögum

Segir að heimsbyggðin þurfi að búa sig undir sláandi upplýsingar í máli Madeleine

Segir að heimsbyggðin þurfi að búa sig undir sláandi upplýsingar í máli Madeleine
Pressan
Fyrir 3 dögum

Sala á „gullvegabréfum“ dæmd ólögleg

Sala á „gullvegabréfum“ dæmd ólögleg
Pressan
Fyrir 3 dögum

Ætla að leggja 1.200 störf niður hjá CIA

Ætla að leggja 1.200 störf niður hjá CIA