fbpx
Laugardagur 17.maí 2025
Pressan

„Hann trúði virkilega að það væri engin leið út ef þessar myndir yrðu birtar”

Pressan
Föstudaginn 16. maí 2025 22:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Það er enn dálítið óraunverulegt að þetta hafi gerst. Ég hélt eiginlega að þetta myndi aldrei gerast en lögreglan gafst aldrei upp,“ segir Pauline Stuart í samtali við CNN.

Pauline missti sautján ára son sinn úr sjálfsvígi árið 2022 en hann hafði orðið fyrir barðinu á netglæpamönnum sem reyndu að beita hann svokallaðri sæmdarkúgun (e. sextortion).

Höfuðpaurinn í málinu, Alfred Kassi, var handtekinn á Fílabeinsströndinni á dögunum ásamt þremur öðrum. Grunur leikur á að mennirnir hafi farið fyrir alþjóðlegu neti sem beitti þúsundir einstaklinga, þar á meðal börn, kúgunum.

Þóttist vera stelpa

Kynferðisleg fjárkúgun, eða sæmdarkúgun, snýst um að þvinga eða plata fórnarlömb til að senda nektarmyndir eða annað klámfengið efnið og hóta síðan að birta það nema þau greiði peninga eða sendi meira efni. CNN hefur eftir fulltrúum FBI að slíkum málum hafi fjölgað óhugnanlega mikið á síðustu árum.

Sjá einnig: Lögregla varar við og hvetur foreldra til að ræða við börn sín

Sonur Pauline, Ryan Last, fékk skilaboð kvöld eitt í febrúar 2022 frá aðila sem hann taldi að væri stelpa. Nokkrum klukkustundum síðar var Ryan látinn og var það ekki fyrr en lögregla rannsakaði síma hans að í ljós kom hvað kom fyrir.

„Einhver hafði samband við hann og þóttist vera stelpa, og þau hófu samtal,“ sagði Stuart við CNN þegar hún lýsti grátandi því sem gerðist. Fáum dögum fyrir sjálfsvígið höfðu þau heimsótt nokkra háskóla sem hann íhugaði að fara í eftir menntaskóla. Ryan hafði marga möguleika enda með góðar einkunnir og vinsæll meðal jafnaldra sinna.

Settu stöðugan þrýsting á hann

Svindlarinn sendi Ryan nektarmynd og bað hann um að senda mynd af sér í staðinn. Um leið og Ryan sendi sína mynd krafðist svindlarinn 5.000 dollara og hótaði að senda myndina til fjölskyldu og vina hans.

Ryan sagði að hann gæti ekki greitt alla upphæðina og krafan var lækkuð í 150 dollara. Hann greiddi það með háskólasparnaði sínum en Stuart segir að glæpamennirnir hafi haldið áfram að krefjast meiri fjár og sett stöðugan þrýsting á hann.

Á þessum tíma vissi Stuart ekkert um hvað sonur hennar var að ganga í gegnum. Hún komst að því eftir að lögreglan rannsakaði atburðarásina sem leiddi til dauða hans.

Stuart rifjar upp að hún hafi boðið Ryan góða nótt klukkan 22 þetta örlagaríka kvöld en klukkan tvö um nóttina, fjórum tímum síðar, hafði hann verið svikinn og ákveðið að binda enda á líf sitt. Hann skildi eftir sig kveðjubréf þar sem hann lýsti því hversu mikið hann skammaðist sín gagnvart sjálfum sér og fjölskyldunni.

„Hann trúði virkilega, á þessu augnabliki, að það væri engin leið út ef þessar myndir yrðu birtar á netinu,“ segir Stuart við CNN. „Í bréfinu hans kom fram að hann væri dauðhræddur, ekkert barn ætti að vera svona hrætt.“

Í frétt CNN kemur fram að þar sem Fílabeinsströndin framselur ekki ríkisborgara sína til annarra landa munu Kassi og hinir grunuðu í málinu verða sóttir til saka þar samkvæmt landslögum um netglæpi, að sögn bandarískra embættismanna. Þá kemur fram að skilaboðin sem hann sendi Ryan árið 2022 hafi enn verið í símtæki hans.

Drengir sérstaklega viðkvæmir

CNN ræddi við Dr. Scott Hadland, yfirmann unglingalækninga við Mass General for Children-sjúkrahúsið í Boston sem segir að strákar séu sérstaklega viðkvæmir fyrir kúgunum af þessu tagi.

„Unglingar eru enn að þróa heilann. Þegar eitthvað svona skelfilegt gerist, eins og að persónuleg mynd er birt á netinu, þá eiga þeir erfitt með að sjá lengra en augnablikið og átta sig ekki á því að þeir muni komast í gegnum þetta.“

Hadland segir að foreldrar geti gripið til ákveðinna aðgerða til að verja börn sín á netinu.

„Það mikilvægasta sem foreldrar geta gert er að skilja hvað börnin þeirra eru að gera á netinu,“ segir hann. „Þú þarft að vita hvenær þau eru á netinu, hvern þau eru að tala við og hvaða forrit þau nota. Eru þau að fá skilaboð frá ókunnugum? Er verið að þrýsta á þau um að deila upplýsingum eða myndum?“ Þá segir Hadland mikilvægt að foreldrar geti rætt þessi mál opinskátt og rólega við börn sín.

„Þú þarft að láta þau vita að þau geti talað við þig ef þau hafa gert eitthvað eða finnst þau hafa gert mistök,“ segir hann. Undir þetta tekur Pauline. „Þið þurfið að tala við börnin ykkar, því þau þurfa að vera meðvituð um þetta,“ segir hún.

Í frétt CNN kemur fram að FBI hafi fengið aðstoð við rannsóknina frá lögreglunni í San Jose, bandaríska utanríkisráðuneytinu og samfélagsmiðlafyrirtækinu Meta, sem rekur Facebook og Instagram.

Hér að neðan má sjá leiðbeiningar frá ríkislögreglustjóra um hvað gera skal ef einstaklingur verður fyrir kynlífskúgun. Í þessari frétt er fjallað um sjálfsvíg. Ef ein­stak­ling­ar glíma við sjálfs­vígs­hugs­an­ir er bent á Hjálp­arsíma Rauða kross­ins 1717 og netspjall Rauða krossins 1717.is. Opið allan sólarhringinn. Einnig má hafa sam­band við Píeta-sam­tök­in sem veita ókeyp­is ráðgjöf í síma 552-2218, allan sólarhringinn. Netspjall Heilsuveru þar sem svarar hjúkrunarfræðingur er líka opið frá kl.8-22 alla daga. Fyrir þau sem misst hafa ástvin í sjálfsvígi má fá stuðning í sorg hjá Sorgarmiðstöð og hjá Pieta samtökunum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 2 dögum

Byrjaði að fá hrollvekjandi símtöl eftir að dóttir hennar hvarf

Byrjaði að fá hrollvekjandi símtöl eftir að dóttir hennar hvarf
Pressan
Fyrir 2 dögum

Fengu áfall þegar þau sneru heim úr þriggja vikna fríi og sáu manninn sem sat í sófanum

Fengu áfall þegar þau sneru heim úr þriggja vikna fríi og sáu manninn sem sat í sófanum
Pressan
Fyrir 3 dögum

Andlát ungs barns í tengslum við trúarlega föstu veldur mikilli reiði

Andlát ungs barns í tengslum við trúarlega föstu veldur mikilli reiði
Pressan
Fyrir 3 dögum

Trump bregst enn og aftur illa við spurningu frá blaðamanni – „Þú ættir að skammast þín“

Trump bregst enn og aftur illa við spurningu frá blaðamanni – „Þú ættir að skammast þín“
Pressan
Fyrir 3 dögum

Trump hefur lokað dyrunum fyrir flóttafólki – En hann gerir undantekningu fyrir þennan hóp hvíts fólks

Trump hefur lokað dyrunum fyrir flóttafólki – En hann gerir undantekningu fyrir þennan hóp hvíts fólks