Bent er á það að fjárkúganir taki á sig ýmsar myndir og er sæmdarkúgun (e. sextortions) ein þeirra.
„Þolendur eru gjarnan ungir karlar, jafnvel á grunnskólaaldri, sem eru ginntir til að senda af sér kynferðislegar myndir í gegnum samfélagsmiðla, einkum Instagram og Snapchat. Viðtakandinn reynist síðan ekki vera sá sem hann segist vera og krefst peninga, ella verði myndunum dreift áfram til annarra,“ segir í tilkynningu sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu birti á Facebook.
Að sögn lögreglu er um að ræða skipulagða brotastarfsemi og því full ástæða til að hafa varann á sér.
„Þetta er jafnframt ein af hættunum sem fylgja notkun samfélagsmiðla og nauðsynlegt er að foreldrar og forráðamenn ræði um við börnin sín,“ segir í skeyti lögreglu en þar er einnig vakin athygli á umfjöllun Vísis í morgun þar sem meðal annars var rætt við yfirmann kynferðisbrotadeildar lögreglu um mál af þessu tagi.