Umdeildi áhrifavaldurinn Andrew Tate hefur ítrekað verið sakaður um kynferðisofbeldi. Fjórar konur hafa nú höfðað mál gegn honum í Bretlandi en tvær þeirra ræddu um reynslu sína við BBC og sýndu samskipti sín við áhrifavaldinn þar sem hann gengst við brotum gegn þeim. Báðar saka Tate um að hafa tekið þær kverkataki áður en hann nauðgaði þeim.
Konurnar stíga ekki fram undir nafni heldur notast við dulnefnin Anna og Sienna. Anna var að slá sér upp með Tate árið 2013 en eftir eitt stefnumót breyttist í martröð eftir að hún fór heim með honum. „Hann byrjaði að kyssa mig… svo horfði hann upp í loftið og sagði: „Ég er rökræða við sjálfan mig um hvort ég eigi að nauðga þér eða ekki“. Svo greip hann upp úr þurru um hálsinn á mér, kastaði mér á rúmið og kyrkti mig fast.“
Síðan nauðgaði hann henni og eftir brotið sendi hann henni skuggaleg skilaboð þar sem hann virðist hafa gert sér fullkomna grein fyrir því hvað átti sér stað þeirra á milli. „Ég elska að nauðga þér“, sagði hann einum skilaboðum. Í öðrum sagði hann: „Ertu í alvörunni þetta móðguð að ég hafi kyrkt þig smá?“ í þeim þriðju sagði: „Er ég vondur maður? Því eftir því sem þú naust þess minna naut ég þess meira,“ sagði hann í talhófsskilaboðum.
Hin konan, Sienna, átti einnar nætur gaman með Tate fyrir um áratug. Þeim samdi vel og ekkert athugavert átti sér stað. Svo hittust þau nokkrum mánuðum seinna og þá var Tate ekki sami herramaðurinn heldur þvert á móti. „Við fórum inn í herbergið mitt og hófum samfarir. Þá setti hann hendur sínar á hálsinn hjá mér,“ segir Sienna og lýsti því hvernig hann þrengdi að hálsi hennar þar til hún náði ekki andanum og missti loks meðvitund. Þegar hún vaknaði aftur var Tate enn að hafa við hana samfarir. „Ég varð frá mér af ótta. Ég man að ég tók andköf. Þetta var nauðgun.“
BBC segist vita um alls fimm konur í Bretlandi sem segja að Tate hafi tekið þær kverkataki í kynlífi.
Auk þess var rætt við þriðju konuna sem notar dulnefnið Daisy en hún segir að bróðir Andrew, Tristan, hafi brotið gegn henni í Rúmeníu. Daisy var að slá sér upp með Tristan árið 2017. Þá bauð hann henni til Rúmeníu og bauð henni að vinna fyrir þá bræður með því að gera kynferðislegt myndefni fyrir vefmyndavélar. Daisy ákvað að samþykkja boðið, fór til Rúmeníu og bjó þar í fasteign bræðranna með fullt af öðrum konum. Hins vegar reyndist vinnan ekki vera það sem hún sá fyrir sér. Bræðurnir réðu öllu, konurnar þurfti að fylgja ströngum reglum og sættu stöðugu eftirliti og yfirgang. Daisy sagði Tristan þá upp en hann hélt engu að síður áfram að leita á hana, þrátt fyrir að hún segði alltaf nei. Loks tók hann hana kverkataki og nauðgaði henni. BBC staðfesti frásögn Daisy með því að skoða flugbókanir og með því að ræða við vinkonur sem vitnuðu um andlega líðan hennar eftir að hún sneri heim frá Rúmeníu, en hún sagði vinkonunum að Tristan hefði þvingað hana til samfara.
Tate ætlar að taka til varna í málinu í Bretlandi en hann og Tristan eru sem stendur í farbanni í Rúmeníu þar sem þeir eru ákærður um mansal og Andrew að auki grunaður um barnamansal og kynferðisbrot gegn ólögráða barni.