Önnur kvennanna, Gou Tingting, birti myndband á samfélagsmiðlinum Douyin (sem er hliðstæða TikTok) af sér með stúlkuna inni á salerni. Hún sagði að stúlkan hafi grátið hátt allt flugið og hafi sumir farþegar troðið pappír í eyru sér eða fært sig aftar í vélina til að komast hjá því að hlusta á grátinn.
Amma stúlkunnar leyfði Gou og annarri konu að fara með hana inn á salerni til að „fræða“ hana um af hverju grátur um borð í flugvél er ekki góður fyrir aðra farþega. Þær reyndu að hvetja hana til að gráta ekki í þrjár mínútur til að reyna að „koma á reglu“ og „leyfa öllum að hvílast vel“ sagði Gou á upptökunni.
„Ekki gráta! Haltu kjafti!“ heyrst sagt við stúlkuna á upptökunni sem og: „Þú færð ekki að fara fram ef það heyrist eitthvað í þér.“
Á meðan á þessu stóð var ömmunni ekki leyft að koma inn á salernið og beið hún við dyrnar að sögn kínversku fréttastofunnar Dayoo.
Myndbandið fór á mikið flug á kínverskum samfélagsmiðlum en þó ekki á þeim grunni sem Gou vonaðist kannski eftir því óhætt er að segja að flestir þeirra, sem tjáðu sig um málið, hafi verið mjög gagnrýnir á það sem hún gerði. Meðal annars var bent á að tveggja ára barn hafi lítinn skilning á umhverfi sínu og eigi erfitt með að hafa stjórn á tilfinningum sínum.
Talsmaður Juneyao flugfélagsins sagði að verið sé að rannsaka málið og meðal annars hafi verið rætt við móður stúlkunnar sem hafi „sýnt aðgerðum kvennanna“ skilning.