Par frá Wales hefur nú verið dæmt fyrir blygðunarsemisbrot eftir flug þeirra með EasyJet í mars. Þar voru þau staðin að því að láta aðeins of vel hvort að öðru, öðrum farþegum til lítillar skemmtunar.
Bradley Smith og Antonia Sullivan fengu lögreglufylgd úr flugi sínu frá Tenerife til Bristol þann 3. mars. Flugvélin var full og haldið var að stað snemma morguns. Örfáum mínútum eftir að flugið hófst heyrðu aðrir farþegar Smith biðja kærustu sína um að gera sér kynferðislegan greiða. Sullivan lét til leiðast og til að fela verknaðinn setti hún yfirhafnir þeirra í fang kærasta síns, yfir hönd sína. Þetta gerði samt lítið til að fela hvað átti sér stað. Farþegum í nálægum sætum var gróflega misboðið og höfðu samband við áhöfn flugfélagsins.
Saksóknarinn sagði fyrir dómi í Bristol: „Eftir nokkrar mínútur varð vitninu ljóst að parið hafði raðað yfirhöfnum í fang Smith og því fylgdu svo líflegar handahreyfingar undir kápunum. Vitnið sem sat við hlið þeirra sá hvað var að eiga sér stað og það gátu líka móðir og dóttir hennar á unglingsaldri í röðinni fyrir aftan.“
Saksóknari tók fram að yfirhafnirnar hafi ekki leynt verknaðinum betur en svo að unglingsstúlkan sá getnaðarlim Smith. Hún greindi móður sinni frá því sem svo kvartaði til áhafnarinnar.
Parið játaði í gær að hafa gerst sek um að ósæmilega háttsemi á almannafæri með því að stunda kynlífsathöfn, brot sem er sambærilegt við það sem á Íslandi kallast blygðunarsemisbrot þar sem fólk misbýður öðrum með lostafullu athæfi.
Dómaranum í málinu, Lynne Matthews, var gróflega misboðið og sagði hún reið við parið þegar hún kvað upp dóm sinn: „Þið kærðuð ykkur kollátt um tilfinningar annarra farþega. Það sat barn fyrir aftan ykkur sem gat séð hvað átti sér stað. Hver haldið þið að þið séuð og hvaða réttindi haldið þið að leyfi ykkur að hegða ykkur með þessum hætti fyrir framan fulla flugvél?“
Smith var dæmdur til 300 klukkustunda samfélagsþjónustu og Sullivan til 270 klukkustunda. Bæði þurfa að greiða 19 þúsund króna bætur til allra þriggja vitnanna.