Allt hefur verið á suðupunkti í Bretlandi síðustu daga vegna mótmæla og óeirða þjóðernissinna og hægriöfgafólks sem mótmælt hafa stefnu Bretlands í innflytjendamálum. Sá orðrómur að drengurinn væri hælisleitandi átti ekki við nein rök að styðjast, en hann er fæddur og uppalinn á Bretlandseyjum og sonur innflytjenda frá Rúanda.
Vefútgáfa The Sun segir að Bernadette hafi birt færslu á samfélagsmiðlunum X stuttu eftir voðaverkin í Southport þar sem hún sagði að „Ali Al-Shakati“ væri sá grunaði í málinu.
Sagði hún að hann væri hælisleitandi sem hefði komið sjóleiðina til Bretlands á síðasta ári og hefði verið á einskonar eftirlitslista bresku leyniþjónustunnar, MI6. Bætti hún við að ef þetta væri rétt yrði allt vitlaust.
Allt var þetta uppspuni frá rótum og hinn grunaði hét ekki Ali Al-Shakati og var ekki hælisleitandi. Pilturinn sem er í haldi heitir Axel Rudakubana og hefur hann verið ákærður fyrir þrjú morð og tíu manndrápstilraunir. Hann er sem fyrr segir sonur innflytjenda frá Rúanda sem komu löglega til Bretlands árið 2002.
Í frétt The Sun kemur fram að Bernadette neiti að hafa verið sú fyrsta til að dreifa þessum falska orðrómi. The Sun segir aftur á móti að færsla hennar hafi farið á mikið flug á mjög skömmum tíma og rússnesk nettröll meira að segja að gert í því að ýta undir dreifingu færslunnar.
Bernadette er þriggja barna móðir og búsett í stóru og miklu húsi í Chesire. Hún segir í samtali við Daily Mail að hún sé í áfalli yfir því að vera grunuð um að koma þessum orðrómi af stað. Hún hafi fengið upplýsingarnar um Ali Al-Shakati frá ónefndum einstaklingi í Southport. Í fréttinni kemur þó fram að henni hafi ekki tekist að færa neinar sönnur á það.