fbpx
Laugardagur 22.júní 2024
Pressan

Tólf ára drengir sakfelldir fyrir hrottalegt morð

Ritstjórn Pressunnar
Mánudaginn 10. júní 2024 17:30

Wolverhampton á Englandi þar sem morðið hrottalega var framið, Mynd- Wikimedia Commons-CC BY-SA 3.0

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Breskir fjölmiðlar greindu frá því fyrr í dag að tveir tólf ára drengir hafi verið sakfelldir fyrir morð á 19 ára gömlum manni í borginni Wolverhampton á Englandi. Myrtu þeir manninn með sveðju.

Drengirnir eru ekki þeir yngstu til að vera sakfelldir fyrir morð í Bretlandi en þó þeir yngstu til að vera sakfelldir fyrir að fremja morð með eggvopni.

Í umfjöllun Daily Mail kemur fram að drengirnir hafi í réttarhöldunum kennt hvor öðrum um morðið.

Fjölmiðlar geta ekki nafngreint drengina vegna ungs aldurs þeirra en þeir eru yngstu dæmdu morðingjarnir í Bretlandi síðan að hinir ellefu ára gömlu Robert Thompson og Jon Venables voru dæmdir árið 1993 fyrir að myrða hinn tveggja ára gamla James Bulger, í Liverpool.

Drengirnir í Wolverhampton réðust á hinn 19 ára gamla Shawn Seeshai. Annar þeirra, sem oft gekk með sveðjuna sem er með 42,5 sentímetra blaði, beitti öxlinni til að ýta við Seeshai og í kjölfarið kýldu drengirnir hann, spörkuðu og stöppuðu á honum og hjuggu hann með sveðjunni.

Morðið átti sér stað um klukkan hálf níu að kvöldi til 13. nóvember á síðasta ári í almenningsgarði. Vinur Seeshai sem var með honum náði að flýja undan drengjunum en vinur hans heitinn datt á hlaupunum.

Hrottaskapur drengjanna var slíkur að þeir fóru langleiðina með að höggva Seeshai í tvennt með sveðjunni.

Var bara í heimsókn

Seeshai bjó ekki í Bretlandi heldur á eyjunni Anguilla í Karíbahafi sem er breskt yfirráðasvæði. Hann bjó tímabundið í Birmingham þar sem hann þurfti að gangast undir aðgerð á auga sem ekki var hægt að gera á Anguilla. Hann hafði daginn örlagaríka ferðast til Wolverhampton, sem er skammt frá Birmingham,  ásamt tveimur vinum sínum til að heimsækja kærustu eins þeirra en Seeshai og kærustulausi vinurinn ráfuðu um nágrennið á meðan kærustuparið hittist.

Þegar Seeshai og vinur hans urðu á vegi drengjanna höfðu þeir síðarnefndu verið að ráfa um nágrennið með sveðjuna. Eitthvað kastaðist í kekki milli drengjanna og ungu mannanna. Eftir að Seeshai kom lauslega við annan drenginn með öxl sinni drógu þeir fram sveðjuna og réðust með henni á Seeshai eftir að hann féll á hlaupum undan þeim.

Saksóknari sagði Seeshai hvorki hafa beitt drengina ofbeldi né móðgað þá á nokkurn hátt. Þeir fullyrtu hins vegar fyrir rétti að Seeshai hefði tekið annan þeirra hálstaki. Vinur Seeshai vísaði því á bug en táningsstúlka sem var með drengjunum tók undir þetta, samkvæmt umfjöllun Mirror. Hún hafði breytt framburði sínum en daginn eftir morðið hafði hún ekkert sagt um meint hálstak í skýrslutöku hjá lögreglu.

Eigi að vera heima á kvöldin að læra

Foreldrar Seeshai voru viðstödd þegar kviðdómur kvað upp úrskurðinn um sekt drengjanna. Þau föðmuðu foreldra drengjanna og grétu með þeim. Faðir Seeshai, Suresh Seeshai, sagðist vorkenna foreldrum drengjanna en vonaði að hvaða dóm sem þeir hlytu þá myndi það fullnægja réttlætinu. Suresh Seeshai segir áfallið hafa verið þeim mun meira þegar hann heyrði hversu ungir morðingjarnir voru. Hann segir málið gott dæmi um að foreldrar verði að fylgjast með börnunum sínum og hvað þau séu að gera. Ofbeldi meðal barna fari vaxandi. Hann segir að 12 ára gömul börn eigi að vera heima að læra á kvöldin og fara svo í rúmið en ekki ráfa um göturnar eins og drengirnir voru að gera.

Lögreglan segir enn ekki vitað hvernig drengirnir komust yfir sveðjuna en rannsóknarlögreglumaður sem stýrði rannsókn málsins sagði að engin ástæða væri fyrir nokkurn mann að eiga slíkan grip.

Saksóknari sagði ljóst að drengirnir hafi verið að leita eftir átökum og verið með þráhyggju fyrir ofbeldi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Í gær

Óhugnanlegt myndband sýnir drukkinn ökumann aka á hjólreiðamann

Óhugnanlegt myndband sýnir drukkinn ökumann aka á hjólreiðamann
Pressan
Í gær

Hinn fullkomni staður fyrir þá sem vilja ró og næði – Heil eyja til sölu

Hinn fullkomni staður fyrir þá sem vilja ró og næði – Heil eyja til sölu
Pressan
Fyrir 3 dögum

Lýtalæknir gerði aðgerð á eiginkonu sinni  – Það endaði með ósköpum

Lýtalæknir gerði aðgerð á eiginkonu sinni  – Það endaði með ósköpum
Pressan
Fyrir 3 dögum

Unglingur dæmdur í 8 ára fangelsi – Aðhyllist nýnasisma og ætlaði að gera sjálfsvígsárás á bænahús gyðinga

Unglingur dæmdur í 8 ára fangelsi – Aðhyllist nýnasisma og ætlaði að gera sjálfsvígsárás á bænahús gyðinga