fbpx
Laugardagur 04.maí 2024
Pressan

Ferðin til Mallorca endaði með nokkurra daga hryllingi og björgunaraðgerð á flugvelli í Afríku

Jakob Snævar Ólafsson
Laugardaginn 20. apríl 2024 22:00

Úr kvikmyndinni Mogadishu frá 2008 sem fjallar um þessa ótrúlegu sögu. Skjáskot/Youtube

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Árið 1976 flaug sérsveit ísraelska hersins til Entebbe í Úganda í Afríku og bjargaði þar um 100 farþegum og áhafnarmeðlimum flugvélar Air-France sem haldið var í gíslingu liðsmanna Frelsissamtaka Palestínu (PLO) og þýskra samtaka sem iðulega voru kölluð Rauða herdeildin (þ. Rote Armee Fraktion) eða Baader-Meinhof. Þessi aðgerð vakti heimsathygli og um hana hafa verið skrifaðar bækur og gerðar kvikmyndir. Ári síðar átti sér stað önnur sambærileg björgunaraðgerð í öðru Afríkuríki sem hefur fallið nokkuð í skuggann af aðgerðinni í Entebbe. Þetta er sagan af aðgerðinni Feuerzauber (Töfraeldur) þegar ferð þýskra ferðalanga á leið heim úr sólarlandaferð á Mallorca endaði með fjögurra og hálfs sólarhringa flugráni og björgunaraðgerð á flugvellinum í Mogadishu í Sómalíu.

Í október 1977 höfðu miklar róstur verið síðustu árin í vestur-þýsku þjóðfélagi, ekki síst fyrir tilstuðlan Rauðu herdeildarinnar sem vildi umbylta þjóðfélaginu með valdi í átt til róttækrar vinstristefnu. Í september 1977 rændu samtökin Hanns Peter Schleyer formanni samtaka atvinnurekenda. Kröfðust samtökin þess að meðlimir þeirra sem sátu í fangelsi yrðu látnir lausir í skiptum fyrir Schleyer en í október, eftir að umræddir meðlimir fundust látnir í fangaklefum sínum, var Schleyer myrtur.

Mál Schleyer vakti mikla athygli ekki eingöngu í Vestur-Þýskalandi og því er ekki ólíklegt að einhver í hópi farþega og áhafnar Boeing-737 þotu Lufthansa, sem var á leið frá Mallorca til Frankfurt, að morgni 13.október 1977 hafi leitt hugann að málinu.

Um borð voru 86 farþegar og fimm manna áhöfn. Þegar flugvélin hafði verið á flugi í um hálfa klukkustund var henni rænt af fjórum, vopnuðum, liðsmönnum PLO. Leiðtogi hópsins var Palestínumaður, Zohair Youssif Akache. Aðrir í hópnum voru palestínsk kona, líbönsk kona og karlmaður sem einnig var frá Líbanon.

Hópurinn ruddist inn í flugstjórnarklefann og rak annan flugmanninn, Jürgen Vietor, út úr klefanum og aftur í farþegarýmið. Flugstjórinn, Jürgen Schumann, var látinn einn um að stjórna vélinni. Flugræningjarnir skipuðu honum að fljúga til Kýpur en samþykktu að flogið yrði fyrst til Rómar þar sem ekki var nægt eldsneyti til staðar til að komast til Kýpur.

Í samstarfi við Rauðu herdeildina

Þótt flugræningjarnir væru arabískir og liðsmenn PLO virðist þetta flugrán ekki hafa mikið haft með málefni Palestínumanna að gera. Hópurinn var í samstarfi við Rauðu herdeildina og þegar til Rómar var komið krafðist hann þess að tíu liðsmönnum vestur-þýsku samtakanna, sem sátu í fangelsi í Vestur-Þýskalandi, yrði sleppt og að auki tveimur Palestínumönnum sem voru í fangelsi í Tyrklandi. Þar að auki krafðist hópurinn þess að fá 15 milljónir bandaríkjadala greidda í lausnargjald. Ítölsk stjórnvöld höfðu ekki mikinn áhuga á að standa fyrir aðgerðum til bjargar gíslunum en sáu til þess að flugvélin yrði fyllt af eldsneyti. Vietor aðstoðarflugmanni hafði verið hleypt aftur inn í flugstjórnarklefann að beiðni Schumann flugstjóra og flugu þeir vélinni af stað til Kýpur.

Þegar lent var á Kýpur var dagur að kvöldi kominn. Sendifulltrúi PLO reyndi, í gegnum talstöð, að sannfæra leiðtoga flugræningjanna, Akache um að sleppa gíslunum. Akache reiddist mjög við þessa bón og sendifulltrúinn yfirgaf á endanum svæðið. Akache sagði Schumann að fljúga af stað til Beirút, höfuðborgar Líbanon. Þar var flugvélinni neitað um lendingarleyfi. Sömu svör fengust við óskum um að lenda í Sýrlandi, Írak og Kuwait.

Á endanum var flogið til Bahrain. Þar var óskum um lendingarleyfi fyrst hafnað en það loks veitt eftir að Schumann tjáði flugumferðarstjórn að ekki væri nægilega mikið eldsneyti eftir til að fljúga eitthvert annað. Í Bahrain var lent um klukkan 2 að nóttu til. Flugránið hafði þá staðið í tæplega hálfan sólarhring. Flugvélin var umkringd hermönnum eftir að hún var lent en eftir að Akache beindi byssu að höfði Vietor og hótaði að hleypa af var fyllt á eldsneytistankana og brottfararleyfi veitt.

Skilaboð með sígarettum

Því næst var flogið til Dubai í Sameinuðu arabísku furstadæmunum. Reynt var að koma í veg fyrir að flugvélin lenti þar með því að fylla flugbrautina af farartækjum. Schumann náði þó að koma því til leiðar að fá lendingarleyfi þar sem eldsneyti væri á þrotum. Lent var í Dubai um klukkan 6 að morgni 14. október en flugvélin var þar um kyrrt fram til hádegis 16. október.

Í Dubai gekk ýmislegt á. Schumann flugstjóri náði að senda skilaboð um hversu margir flugræningjarnir væru og að um væri að ræða tvo karlmenn og tvær konur með því að fleygja mismunandi sígarettutegundum út um gluggann á flugstjórnarklefanum og niður á flughlaðið. Þegar Akache komst að þessu hótaði hann að taka Schumann þegar í stað af lífi. Að morgni 16. október hótaði hann því einnig að taka gísla af lífi ef ekki yrði fyllt á eldsneytistankana sem var að lokum gert.

Á meðan flugvélin var í Dubai komu fulltrúar vestur-þýskra stjórnvalda þangað enda var flugfélagið Lufthansa vestur-þýskt sem og flestir gíslanna um borð. Þeir óskuðu eindregið eftir því að sérsveit vestur-þýsku sambandslögreglunnar (þ. Bundespolizei), GSG 9, fengi leyfi til að ráðast til inngöngu í flugvélina og bjarga gíslunum. Leyfið var veitt en yfirmenn sveitarinnar fóru fram á að hún fengi meiri tíma til æfinga áður en til skarar yrði látið skríða. Æðsti yfirmaður GSG 9, Ulrich Wegener, hugleiddi á meðan hvaða leið væri best að fara við töku vélarinnar. Tíminn hljóp hins vegar frá GSG 9 og flugvélin yfirgaf Dubai. Óskum um lendingarleyfi í Óman og Saudi-Arabíu var hafnað. Þá var haldið til Aden í ríkinu Suður-Jemen.

Nauðlending og fyrsta dauðsfallið

Yfirvöld í Suður-Jemen höfnuðu beiðni um lendingarleyfi og tvær aðalflugbrautir alþjóðaflugvallarins í borginni Aden voru þaktar ýmsum ökutækjum. Eldsneytið var við það að klárast og flugvélinni var því nauðlent á sandinum milli flugbrautanna. Flugræningjarnir hleyptu Schumann út úr flugvélinni til að kanna ástand hennar. Nokkrar skemmdir höfðu orðið á flugvélinni. Meðal annars var lendingarbúnaðurinn skemmdur og sandur í hreyflunum. Klukkan var um 15 að degi til, 16.október.

Þegar Schumann hafði kannað skemmdirnar hélt hann að flugstöðinni og ræddi þar við foringja sérsveitar Jemena. Það var ekki upplýst um þetta samtal fyrr en um 30 árum síðar en foringinn segir Schumann hafa óskað eindregið eftir því að komið yrði í veg fyrir að vélinni yrði flogið á brott þar sem hún væri það skemmd að það myndi stefna lífi gíslanna í hættu að reyna að fljúga henni.

Þegar Schumann sneri loks aftur um borð í flugvélina var leiðtogi flugræningjanna, Akache, æfur af reiði yfir því hversu lengi hann hafði verið í burtu. Hann lét Schumann krjúpa á gólfi farþegarýmisins og skaut hann til bana. Vietor aðstoðarflugmaður flaug flugvélinni einn af stað til Mogadishu höfuðborgar Sómalíu, eftir að fyllt hafði verið á eldsneytistankana eins og svo oft áður á meðan þessari eldraun stóð.

Hvít lygi

Lendingarleyfi í Mogadishu var í fyrstu hafnað en loks veitt þegar vélinni var flogið inn í sómalska lofthelgi. Lent var í Mogadishu klukkan 6:30 að morgni 17. október. Flugránið hafði þá staðið í næstum fjóra sólarhringa. Akache hrósaði Vietor fyrir að fljúga skemmdri flugvélinni af mikilli færni en sagði að vegna skemmdanna yrði henni ekki flogið lengra og bauð Vietor að yfirgefa flugvélina og halda út í frelsið. Vietor hafnaði hins vegar tilboðinu þar sem hann vildi ekki skilja farþeganna 82 og þá þrjá áhafnarmeðlimi sem enn lifðu eina eftir. Líki Schumann var hent á flugbrautina og þaðan var því ekið burtu í sjúkrabíl.

Flugræningjarnir lýstu því næst yfir að yrði liðsmönnum Rauðu herdeildanna, sem þeir höfðu krafist lausnar á, ekki sleppt fyrir klukkan 16 þennan dag yrði flugvélin sprengd í loft upp. Óskað var eftir því að fresturinn yrði framlengdur til klukkan 2:30 um nóttina svo tími gæfist til að flytja fangana frá Vestur-Þýskalandi til Sómalíu. Akache samþykkti beiðnina en þetta var hins vegar lygi það stóð aldrei til að sleppa föngunum. Björgunaraðgerð GSG 9 var í fullum undirbúningi.

Á meðan Helmut Schmidt kanslari Vestur-Þýskalands samdi við sómölsk stjórnvöld um að veita leyfi fyrir því að GSG 9 kæmi til landsins og réðist til inngöngu í flugvélina hélt sveitin af stað til Afríku eftir að hafa æft töku vélarinnar. Leyfið fékkst loks og kom sveitin til Mogadishu klukkan 20 að kvöldi.

Töfraeldur

Ákveðið var að aðgerð Töfraeldur hæfist klukkan tvö um nóttina. Meðlimir GSG 9 á staðnum voru 30 en þeir nutu aðstoðar tveggja liðsmanna bresku sérsveitarinnar SAS og sómalska hersins.

GSG 9 skipti sér í sex hópa og hélt aftan að flugvélinni á stigabílum sem höfðu verið málaðir svartir. Á meðan setti sómalski herinn af stað sprengingu í um 60 metra fjarlægð frá vélinni. Þetta var gert til að dreifa athygli flugræningjanna og það gekk eftir því þrír þeirra fóru inn í flugstjórnarklefann til að reyna að sjá hvað var á seyði. Þar með hafði tekist að einangra þá frá farþegunum.

GSG 9 liðar notuðu sprengjur til að opna dyr flugvélarinnar. Einn hópur opnaði dyrnar að framanverðu og tveir hópar fóru upp á vængi flugvélarinnar og opnuðu aftari dyrnar, sitthvoru meginn á henni.

Um leið og liðsmenn GSG 9 voru komnir inn í flugvélina hrópuðu þeir á þýsku:

„Við erum komnir til að bjarga ykkur. Hendið ykkur niður.“

Tveir flugræningjanna voru skotnir til bana en leiðtogi þeirra Akache dó nokkrum klukkutímum síðar af sárum sínum. Önnur konan í flugræningjahópnum særðist en lifði af og var handtekin og afhent sómölskum yfirvöldum.

Flugræningjarnir höfðu náð að skjóta einhverjum skotum og einn liðsmaður GSG 9 særðist en ekki lífshættulega og þrír farþegar og ein flugfreyja særðust lítillega.

Farþegum og áhöfn var skipað að yfirgefa vélina eins fljótt og hægt var.

Aðeins fimm mínútum eftir að Töfraeldur hófst kölluðu GSG 9 liðar „Vor, Vor“ í talstöðvar til að gefa merki um að aðgerðinni væri lokið og hún hefði borið árangur.

Milli ótta og vonar

Ljóst var að björgunaraðgerðin hafði heppnast nánast fullkomlega. Flugránið stóð yfir í á fimmta sólarhring og alls létust 4 einstaklingar, 3 flugræningjar og flugstjórinn Schumann.

Nokkrum klukkustundum síðar var flogið með liðsmenn GSG 9, farþega og eftirlifandi áhafnarmeðlimi til Vestur-Þýskalands þar sem þeim var fagnað sem hetjum.

Helmut Schmidt kanslara var hrósað fyrir að hafa ákveðið að gíslunum yrði bjargað í stað þess að semja um lausn þeirra.

Þegar Rauða herdeildin frétti af því sem gengið hafði á í Sómalíu fylgdi í kjölfarið lát þriggja af mikilvægustum meðlimum samtakanna, sem þá sátu í fangelsi. Gudrun Enslin, Andreas Baader og Jan-Carl Raspe dóu öll í klefum sínum. Hin opinbera skýring var sjálfsvíg en einhverjir hafa fullyrt að þau hafi verið myrt. Eftir þessi þrjú dauðsföll var Hanns Peter Schleyer formaður samtaka atvinnurekenda, sem eins og áður segir var í gíslingu Rauðu herdeildarinnar, myrtur.

Í upphafi þessarar samantektar var aðgerðin Töfraeldur borin saman við aðgerð Ísraela í Úganda árið áður. Töfraeldur fór þó fram með samþykki sómalskra stjórnvalda en Ísrael bað Úganda ekki um leyfi enda var vitað að flugræningjarnir í því tilfelli voru í skjóli stjórnvalda en sú var ekki raunin í síðara tilfellinu.

Aðgerðin í Úganda er nokkuð þekktari meðal annars vegna fjölda kvikmynda og bóka um hana.

Þó hafa verið gerðar sjónvarpsmyndir í Þýskalandi um Töfraeld. Þegar kemur að bókum um málið má segja að titill einnar þeirra fangi þessa dramatísku sögu í einni stuttri setningu. Það var Hannelore Piegler yfirflugfreyja í fluginu sem ritaði bókina og ber hún titilinn:

Hundrað klukkustundir milli ótta og vonar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

FréttirPressan
Fyrir 2 dögum

Þetta eru þær tegundir starfa sem gervigreindin mun fyrst gera óþörf

Þetta eru þær tegundir starfa sem gervigreindin mun fyrst gera óþörf
Pressan
Fyrir 2 dögum

Þess vegna skaltu aldrei haga þér illa í flugvél

Þess vegna skaltu aldrei haga þér illa í flugvél
Pressan
Fyrir 4 dögum

Klikkuð samsæriskenning um Joe Biden á miklu flugi

Klikkuð samsæriskenning um Joe Biden á miklu flugi
Pressan
Fyrir 5 dögum

Fjólublá baktería gæti verið lykillinn að því að finna líf á fjarplánetum

Fjólublá baktería gæti verið lykillinn að því að finna líf á fjarplánetum
Pressan
Fyrir 6 dögum

Katie lést í eldsvoða í stúdentaíbúðinni – Læknar gerðu óhugnanlega uppgötvun

Katie lést í eldsvoða í stúdentaíbúðinni – Læknar gerðu óhugnanlega uppgötvun
Pressan
Fyrir 6 dögum

Marsþyrla NASA er með „lokagjöf“ handa mannkyninu – En það er einn hængur á

Marsþyrla NASA er með „lokagjöf“ handa mannkyninu – En það er einn hængur á