Það eru fornleifafræðingar frá Museum Odense sem hafa unnið við uppgröftinn. Í tilkynningu frá safninu segir að það sé sjaldgæft að finna líkamsleifar frá víkingatímanum, 793 til 1066, að hluta vegna þess að jarðvegurinn í Skandinavíu sé súr og því varðveitist bein ekki vel í honum. Það sé því algjörlega einstakt að finna 50 grafir með vel varðveittum beinagrindum.
Segja sérfræðingar safnsins að þetta veiti gott tækifæri til að gera margvíslegar vísindarannsóknir sem geti varpað ljósi á almennt heilsufar fólks, mataræði og uppruna hinna látnu. Rannsóknirnar geti einnig hugsanlega varpað ljósi á hvort fólkið var skylt, sem væri mjög merkilegt, því slík rannsókn hafi aldrei verið gerð á beinum úr svipuðum gröfum.
Grafirnar eru frá því á tíundu öld, hugsanlega þegar Gormur gamli réði ríkjum en hann sat í Jelling á Jótlandi. Eiginkona hans var Þyrí. Þau voru foreldrar Haraldar blátannar sem varð konungur þegar faðir hans lést 958. Haraldur taldi sig hafa snúið Dönum til kristni en á valdatíma föður hans var Ásatrú ríkjandi í Danmörku.
Margir íbúanna í Åsum voru auðugir og það gefa grafirnar til kynna. Til dæmis var kona í einni þeirri og hafði hún verið jarðsett í vöggulaga rúmi sem líkist víkingavagni. Hún var með fallegt hálsmen, járnlykil, hníf með silfurskafti og lítið glerbrot sem gæti hafa verið verndargripur. Einnig var fagurlega skreyttur kistill í gröfinni.