Barnfóstra í Alabama varð skelfingu lostin þegar hún uppgötvaði að fjölskyldufaðirinn hafði njósnað um hana með földum myndavélum. Hann hafði jafnvel fylgst með henni á salerninu.
Alyssa Glavan byrjaði í desember að gæta tveggja barna fyrir Bethancourt hjónin. Hún hafði unnið fyrir þau nokkurt skeið þegar hún uppgötvaði að ekki væri allt með felldu, dag einn þegar hún var stödd inni á baðherberginu.
„Ég missti eyrnapinna í gólfið og beygði mig niður til að tína þá upp og þá sé ég reykskynjara sem var á veggnum í sömu hæð og klofið á mér. Ég hugsaði að þetta væri skrítið, af hverju væri reykskynjari inni í skáp og það inni á baðherbergi.“
Hún áttaði sig fljótt á því að reykskynjarinn var eftirlitsmyndavél í dulargervi. Hún tók skynjarann af veggnum til að fá grun sinn staðfestan og fann þá minniskort og QR-kóða með myndavélinni. QR-kóðinn vísaði á forrit sem bókstaflega kenndi sig við njósnir.
„Henni hafði verið komið fullkomlega upp til að hann gæti fylgst með því þegar ég gyrti niður um mig. Ég bara trúði þessu ekki. Þegar ég sá minniskortið hugsaði ég guð minn góður og svo þegar ég sá QR-kóðann sem vísaði á leiðbeiningar fyrir uppsetningu á I-spy myndavél – þá rann upp fyrir mér ljós og ég fríkaði út, hjartað mitt vaar á milljón.“
Hún ákvað að bregðast strax við, tók börnin með sér upp á næstu lögreglustöð og tilkynnti um myndavélarnar. Fjölskyldufaðirinn, Jonathan Bethancourt, áttaði sig á því hvað væri að gerast og sendi skilaboð og barnfóstruna þar sem hann bauðst til að greiða henni mútur svo hún gerði ekki meira mál úr þessu. Hann byrjaði svo að hringja í hana. Á meðan á þessu stóð var Glavan, líkt og áður segir, þegar komin á lögreglustöðina svo lögreglumenn buðu henni að svara símtalinu og leyfa þeim að taka upp hvað Jonathan hefði að segja sér til málsbóta.
„Fyrirgefðu, ég var bara að perrast,“ sagði Jonathan þegar Glavan hafði svarað. Jonathan sem er 31 árs, hefur nú verið ákærður fyrir stafrænar gægjur, sem er eins konar blygðunarsemisbrot samkvæmt bandarískum stöðlum. Glavan hefur farið fram á miskabætur fyrir tilfinningalegt tjón, fyrir brot gegn friðhelgi einkalífs og fyrir opinbera niðurlægingu.
Tveir aðrir meintir þolendur hafa eins lagt fram kæru, en annar þeirra mun vera ólögráða.