Christine Negroni, höfundur bókarinnar „The Crash Detectives: Investigatin the World´s Most Mysterious Air Disasters“, setti nýlega fram þá kenningu að loftþrýstingur í vélinni hafi fallið skyndilega og orðið nær öllum um borð að bana. Hún telur að flugstjórinn, Zaharie Ahmad Shah, hafi verið í pásu þegar þetta gerðist og því ekki í flugstjórnarklefanum. Þar hafi flugmaðurinn Fariq Abdul Hamid verið einn.
Hún segir að súrefnisskorturinn hafi orðið öllu að bana á innan við 15 mínútum en Hamid hafi verið einangraður frá verstu áhrifunum þar sem hann sat í flugstjórnarklefanum. The Mirror skýrir frá þessu.
Samkvæmt kenningu Negroni þá hafi súrefnisskorturinn orðið til þess að Hamid hafi tekið undarlegar ákvarðanir þegar hann reyndi að bjarga flugvélinni. Að lokum hafi hann ekki getað gert neitt til að koma í veg fyrir að vélin lækkaði flugið ofan í sjóinn. Margir sérfræðingar telja að vélin hafi lent í Indlandshafi.
Negroni telur að loftþrýstingurinn hafi fallið eftir 38 mínútna flug en þá misstu flugumferðarstjórar samband við vélina vegna rafmagnsbilunar í henni. Hún segir að þegar vélin lenti í sjónum hafi allir um borð verið látnir.