fbpx
Mánudagur 04.mars 2024
Pressan

Hann var dæmdur 19 ára í lífstíðarfangelsi fyrir morðið á foreldrum sínum – Vinur hans trúði á sakleysi hans og vann þrotlaust að frelsi hans

Ragna Gestsdóttir
Mánudaginn 27. nóvember 2023 22:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hinn 19 ára gamli Marty Tankleff var dæmdur í 50 ára lífstíðarfangelsi fyrir morð á foreldrum sínum, glæp sem hann framdi ekki. Fyrsta daginn á síðasta ári menntaskólans, þann 7. september 1988, heyrði Marc Howard hvíslað í matsalnum að einn vinur hans, Marty Tankleff, væri í vandræðum, ekki þó gagnvart skólastjóranum, heldur gegn lögreglunni. Howard studdi vin sinn og sagði sögusagnirnar vera algjöra þvælu. Síðar um daginn fór hann í þriðja ökutímann sinn og þar sem hann keyrði með ökukennarann sér við hlið um götur Long Island úthverfisins Belle Terre í New York sá hann lögreglubíla fyrir utan heimili Tankleff fjölskyldunnar. Það var þá sem Howard áttaði sig á að eitthvað hræðilegt hefði gerst.

Ekki leið á löngu þar til Marty var handtekinn og ákærður fyrir að hafa banað foreldrum sínum með hnífi, Seymour Tankleff, 62 ára, og Arlene Tankleff, 53 ára, á heimili fjölskyldunnar fyrr um daginn. Eftir að hafa beðið réttarhalda í meira en ár, var Marty dæmdur árið 1990 fyrir tvöfalt morð foreldra sinna og dæmdur í 50 ára til lífstíðar, fangelsi, en málið byggðist á falskri játningu sem hann gaf lögreglu eftir klukkustunda langvarandi yfirheyrslu þar sem lögreglan laug að honum og sagði honum að faðir hans hefði sagt lögreglunni að Marty væri sekur um verknaðinn.

Marty við uppkvaðningu dómsins 28. júní 1990.

Marty fullyrti að hann væri saklaus, skrifaði aldrei undir játningu og sagði að hann hefði verið blekktur til að viðurkenna sekt sína. Hann sat í fangelsi í 17 ár og hélt alla tíð fram sakleysi sínu, og Howard trúði vini sínum. Howard fór í lögfræðinám og barðist fyrir því að sanna sakleysi Martys og hjálpaði honum að öðlast frelsi árið 2007. 

„Hann fórnaði hluta af sjálfum sér til að bjarga mér,“ segir Marty, sem nú er orðinn 52 ára, sem var sýknaður eftir áralanga lögfræðilega baráttu, sem Howard, sem starfar í dag sem ríkisstjórnar- og lagaprófessor við Georgetown háskóla, leiddi að stórum hluta. „Ég skulda honum allt,“ segir hann í umfjöllun People um þá félaga.

Vinirnir Marty og Marc

Æskuvinirnir vinna nú saman að því að frelsa aðra sem hafa verið ranglega dæmdir, í gegnum námskeið við Georgetown háskóla, Making an Exoneree, sem kennir nemendum hvernig á að endurrannsaka mögulega ranga sakfellingu, með framleiðslu heimildamynda um niðurstöður þeirra og herferðir á samfélagsmiðlum sem kalla á sýknun.

Frá árinu 2018 hafa nemendur þeirra hjálpað til við að hnekkja sakfellingum sjö saklausra manna. „Þetta starf hefur gefið mér tilgang í lífinu,“ segir Marty, sem einnig er lögfræðingur. „Við frelsum saklausa.“

Mynd: Skjáskot People

Howard segist hafa frá upphafi verið sannfærður um að Marty hefði ekki átt þátt í morðinu á foreldrum sínum. Howard komst fljótlega að því að Seymour, sem hafði boðið nokkrum félögum sínum í pókerleik kvöldið áður en hann var myrtur, átti í hávaðasömum átökum við síðasta gestinn sem fór um kvöldið, viðskiptafélaga sem að sögn skuldaði Seymour hlfa milljón dala. Lögreglan taldi þennan viðskiptafélaga aldrei undir grun.

Skrifaði um málið í menntaskólablaðið

Howard skrifaði um niðurstöður sínar í The Purple Parrot, skólablað Port Jefferson menntaskólans. „Ég gagnrýndi fjölmiðla fyrir það hvernig þeir samþykktu lygar saksóknara sem staðreyndir. Fréttastofa framhaldsskóla var sú eina sem fór rétt með sannleikann í málinu.“

Þrátt fyrir að saksóknari sýndi ekki fram á nein áþreifanleg sönnunargögn í málinu, fyrir utan játninguna sem fengin var á fölskum forsendum, dæmdi kviðdómur Marty sekan þann 28. júní 1990. „Ég held að enginn geti nokkurn tíma skilið til fulls hvernig það er að fara inn sem ungmenni sakað um glæp sem það framdi ekki og að fá síðan að heyra að þér er í raun fleygt í burtu það sem eftir er lífsins. Ég var í áfalli,“ segir Marty sem taldi lífi sínu lokið aðeins 19 ára gamall.

Meira en áratugur leið áður en hann og Howard töluðu aftur saman. „Eftir á að hyggja hefði ég viljað óska að ég hefði fundið leið til að talast við fyrr, en sambandið okkar á milli slitnaði og mér fannst ég lítið geta gert fyrir hann, svo ég hélt áfram með líf mitt. En hluti af mér var alltaf að hugsa um Marty,“ segir Howard. 

Árið 2003, þegar Howard var orðinn stjórnmálafræðiprófessor við Georgetown háskóla, hafði hann upp á Marty í Clinton Correctional fangelsinu í New York, skrifaði honum bréf og bauðst að lokum til að verða löglegur talsmaður hans. „Þegar þú heyrir frá einhverjum sem þú ólst upp með og hefur þekkt allt þitt líf, þá er það átakanlegt,“ segir Marty. „En þegar það er líka einhver fyrir utan sem trúir á þig og vill hjálpa, þá þýðir það allt.“

66 bekkjarfélagar skrifuðu undir yfirlýsingu um sakleysi Marty

Howard heimsótti Marty í nokkrum fangelsum þar sem hann hjálpaði til við að byggja upp lögfræðimálið til að snúa við sakfellingu hans, útbjó yfirlýsingu um sönnunargögn sem staðfestu sakleysi hans og fékk 66 fyrrum bekkjarfélaga þeirra til að undirrita yfirlýsingu. Yfirlýsingin var síðan lögð fyrir áfrýjunardeild Hæstaréttar New York ásamt beiðni um að frelsa Marty 27. desember 2007.

Þremur vikum síðar hóf Marty nám við Hofstra háskólann og hélt áfram í lagadeild Touro háskólans þaðan sem hann útskrifaðist og gerði það að markmiði sínu, að hjálpa þeim sem hafa verið ranglega dæmdir að öðlast frelsi.

Eftir meira en áratug af hittingum í fangelsum undir vernd fangavarða, hittast vinirnir núna reglulega í bjór og hamborgara á heimabar í Georgetown, The Tombs. „Hann er einn skemmtilegasti maður sem þú getur kynnst, það er erfitt að hlæja ekki þegar þú ert með honum,“ segir Howard um Marty, sem starfar sem lögfræðingur í New York.

Þann 9. febrúar, fjórum árum eftir að þeir félagar hófu vinnu sína við Making an Exoneree hófst, gengu þeir út úr Jessup-fangelsinu í Maryland, ásamt Kenneth Bond, 44 ára, sem sat ranglega í fangelsi í 27 ár. 

„Það er erfitt að mæla hvaða áhrif Marty hefur á líf mitt,“ segir Howard.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Í gær

Risaeðlur réðu ríkjum á jörðinni vegna göngulagsins

Risaeðlur réðu ríkjum á jörðinni vegna göngulagsins
Pressan
Fyrir 2 dögum

Mögnuð hellalistaverk sanna að menn settust að í kólumbíska hluta Amazon fyrir 13.000 árum

Mögnuð hellalistaverk sanna að menn settust að í kólumbíska hluta Amazon fyrir 13.000 árum
Pressan
Fyrir 5 dögum

Yfirbuguðu fjallaljón með reiðhjóli

Yfirbuguðu fjallaljón með reiðhjóli
Pressan
Fyrir 5 dögum

Eiginkona hans hefur verið týnd vikum saman – „Hann veit ekki af hverju“

Eiginkona hans hefur verið týnd vikum saman – „Hann veit ekki af hverju“