fbpx
Laugardagur 04.maí 2024
Pressan

Rannsaka eitt stærsta hneykslismál sögunnar hjá bresku lögreglunni – Teygir anga sína til Íslands

Kristján Kristjánsson
Mánudaginn 18. janúar 2021 05:36

Breskir lögreglumenn að störfum. Mynd:Wikimedia Commons

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fyrir nokkrum vikum hófust yfirheyrslur hjá sérstakri rannsóknarnefnd í Bretlandi. Hún er að rannsaka það sem gæti verið stærsta hneyksli sögunnar hjá bresku lögreglunni. Málið teygir anga sína hingað til lands og einnig til fleiri Evrópuríkja.

Málið hófst 2010 þegar Lisa Jones, sem er dulnefni, var á ferðalagi á Ítalíu ásamt unnusta sínum Mark Stone. Þau ferðuðust um í húsbíl. Sólin var sterk dag einn og Lisa ætlaði að setja á sig sólgleraugu en fann þau ekki. Hún kíkti þá í hanskahólfið og fann þar breskt vegabréf. Í því var mynd af unnusta hennar en nafnið var ekki Mark Stone. Það var Mark Kennedy. Hún fann einnig farsíma og í honum voru skilaboð til unnusta hennar frá börnum sem kölluðu hann „pabba“.

Lisa Jones er aðgerðasinni og hefur eytt stórum hluta fullorðinsáranna í að taka þátt í aðgerðum til verndar náttúrunni í Bretlandi og víðar um Evrópu. Mark Kennedy var hins vegar lögreglumaður hjá Lundúnalögreglunni. Hann hafði það hlutverk að lauma sér inn í samtök aðgerðasinna og umhverfisverndarsinna til að afla upplýsinga um aðgerðir þeirra þannig að lögreglan gæti skipulagt aðgerðir sínar. Dæmi eru um að fólk hafi verið handtekið og sett í fangelsi á grunni þeirra upplýsinga sem Mark aflaði.

Hneykslismál sem vatt upp á sig

Þegar upp komst um Mark Kennedy lýsti Lundúnalögreglan því yfir að hér væri um eitt einstakt tilfelli að ræða þar sem lögreglumaður hafi gengið of langt í að reyna að vinna vinnuna sína sem allra best. En málið vatt upp á sig og fleiri umdeild mál komu upp, hvert á fætur öðru. 2015 bað Lundúnalögreglan sjö konur sem höfðu verið „lokkaðar í ástarsamband“ við lögreglumenn sem störfuðu hjá hinum háleynilegu Special Demonstration Squad eða National Public Order Intelligence Unit afsökunar.

Þáverandi forsætisráðherra Theresa May, setti sérstaka rannsóknarnefnd á laggirnar 2016, sem átti að upplýsa hversu oft lögreglan hafði laumað útsendurum sínum inn í lögleg samtök umhverfisverndarsinna og vinstrimanna án þess að hafa haft til þess heimildir úr efstu lögum lögreglunnar. Einnig átti nefndin að rannsaka afleiðingarnar af þessu. Það er þessi nefnd sem nú er að störfum en hún hóf yfirheyrslur yfir vitnum í nóvember á síðasta ári en fram að því var unnið við að kortleggja aðgerðir og störf leynilögreglumannanna.

Mark Kennedy þegar hann var í röðum umhverfisverndarsinna.

Þessi kortlagning leiddi í ljós að byrjað var að lauma lögreglumönnum í raðir ýmissa samtaka á dögum Víetnamstríðsins og hippahreyfingarinnar 1968. Síðan þá hafa um 140 lögreglumenn komist inn í raðir rúmlega 1.000 samtaka. Margir þeirra stofnuðu til ástar- og kynferðissambanda við konur í þessum hópum. Í sumum tilvikum stóðu þessi sambönd yfir árum saman. Vitað er um 21 tilvik þar sem lögreglumenn áttu í samböndum við konur.

Lögreglumennirnir komust inn samtök á borð við British National PartyCombat 18 (tölustafirnir 1 og 8 vísa til A og H í stafrófinu, eins og í nafni Adolf Hitler) og United British Alliance en þetta eru samtök öfgahægrimanna. Önnur samtök voru á vinstri væng stjórnmálanna, stéttarfélög og félög tengd breska Verkamannaflokknum.

Notuðu persónuupplýsingar látinna barna

Í vitnayfirheyrslunum hefur komið fram að lögreglumennirnir stálu persónuupplýsingum látinna barna, til dæmis barns sem lést í fæðingu, fimm ára, eins sem lést í flugslysi, fatlaðs drengs sem lést sex ára að aldri og unglings sem lést. Í að minnsta kosti 42 tilvikum notuðu lögreglumennirnir persónuupplýsingar látinna barna. Sumir foreldrar þessara barna hafa nú höfðað mál á hendur Lundúnalögreglunni fyrir að hafa misnotað persónulegar upplýsingar, að hafa ekki látið sorg foreldranna skipta sig neinu máli og að hafa valdið þeim miklum andlegum þjáningum.

Lisa Jones hefur fylgst með yfirheyrslunum en þær munu standa yfir fram til 2023 miðað við áætlun nefndarinnar. Í grein í The Guardian í lok nóvember skrifaði hún meðal annars: „Fyrir 10 árum hrundi heimur minn. Það var mikið áfall að uppgötva að unnusti minn var lögreglumaður. Fjölskylda mín hefur spurt mig hvernig ég geti setið og hlustað á yfirheyrslurnar.“

Starfaði einnig hér á landi

Lögreglumennirnir einskorðuðu störf sín ekki við Bretland og fóru stundum til útlanda og tóku þátt í aðgerðum þar og aðstoðuðu stundum lögregluna þar.

Þetta á við um fyrrgreindan Mark Kennedy. Hann lét til dæmis að sér kveða í Danmörku þar sem hann hvatti aðgerðasinna til dáða og skipulagði mótmæli í tengslum við COP15 fundinn 2009 en það var loftslagsráðstefna SÞ. Hann gaf sig út fyrir að vera enskur stjórnleysingi. Annar lögreglumaður, Mark Jakobs, var einnig með í för. Þeir sögðust ekki vilja frið við lögregluna og að sögn dagblaðsins Information ýttu þeir enn frekar undir róttækni aðgerðasinna í Kaupmannahöfn með orðum sínum og aðgerðum.

En Mark Kennedy kom einnig við sögu hér á landi í tengslum við mótmæli Kárahnjúkavirkjunar 2005. Þar tók hann þátt í mótmælum Saving Iceland gegn virkjunarframkvæmdum. Hann skrifaði þá um aðgerðirnar og sagði íslensku lögregluna hafa stefnt lífi og limum mótmælenda í hættu með vinnubrögðum sínum.

Breska ríkisstjórnin hefur lagt áherslu á að lögreglumenn, sem starfa með leynd, megi ekki lengur stofna til ástarsambanda eða kynferðislegra samband í tengslum við störf sín. En ríkisstjórn íhaldsmanna hefur á móti samþykkt lög sem heimila lögreglumönnunum að fremja lögbrot ef það er nauðsynlegt til að þeir geti sinnt starfi sínu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Í gær

Sumir eigendur iPhone hafa fengið að sofa út síðustu daga, alveg óvart

Sumir eigendur iPhone hafa fengið að sofa út síðustu daga, alveg óvart
Pressan
Fyrir 2 dögum

Tveggja ára barn lést í hoppukastaslysi

Tveggja ára barn lést í hoppukastaslysi
Pressan
Fyrir 2 dögum

Unga stúlkan sá rautt eftir að nasistar börðu ömmu hennar – Reyndust vera þeim dýrkeypt mistök

Unga stúlkan sá rautt eftir að nasistar börðu ömmu hennar – Reyndust vera þeim dýrkeypt mistök
Pressan
Fyrir 2 dögum

Óhugnaður í New York: Barnsmorðingi neyddi sex ára son sinn til að reyna að grenna sig á hlaupabretti

Óhugnaður í New York: Barnsmorðingi neyddi sex ára son sinn til að reyna að grenna sig á hlaupabretti
Pressan
Fyrir 4 dögum

Manstu eftir Joseph Kony? Nú eru málaliðar Pútíns á eftir honum

Manstu eftir Joseph Kony? Nú eru málaliðar Pútíns á eftir honum
Pressan
Fyrir 5 dögum

„Svo fékk ég símtal sem breytti öllu“

„Svo fékk ég símtal sem breytti öllu“