fbpx
Laugardagur 18.maí 2024
Pressan

Sakamál – Hrollvekjandi líf Lisu Montgomery

Erla Dóra Magnúsdóttir
Laugardaginn 30. janúar 2021 21:00

Aðkoman að heimili Bobbi Jo var hrollvekjandi Mynd/Getty

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þann 22. október 2007, eftir aðeins fimm klukkustunda íhugun, lýsti kviðdómur í Bandaríkjunum Lisu Montgomery seka um morð. Jafnframt mælti hann með dauðarefsingunni. Lisa var tekin af lífi þann 13. janúar 2021, þrátt fyrir að teymi lögmanna sem og systir hennar hefðu barist ötullega fyrir því að mál hennar yrði tekið til endurskoðunar. Lisa ætti ekki skilið að deyja. Lisa hefði verið viti sínu fjær eftir hrollvekjandi ævi, sem enginn kæmist óskaddaður í gegnum. Hún var fyrsta konan í tæp 70 ár sem tekin var af lífi af alríkisstjórninni í Bandaríkjunum.

Óléttur dýravinur

Bobbie Jo Stinnett var hamingjusöm 23 ára kona, nýgift og átti von á sínu fyrsta barni. Árið var 2004. Bobbie var mikill dýravinur og ræktaði hunda. Vegna þessa var hún virk á spjallborði á netinu um áhugamál. Þar kynntist hún konu að nafni Lisa Montgomery. Þær skrifuðust mikið á, enda elskuðu þær báðar hunda og áttu þar að auki báðar von á barni. Ekkert virtist athugavert við samskiptin.

Bobbie var með hvolpa sem þurftu að komast á nýtt heimili. Við hana hafði samband Darlene nokkur Fischer, sem hafði áhuga á að fá hjá henni hvolp. Þær mæltu sér því mót svo Darlene gæti hitt hvolpana og beinast lá við að hittast á heimili Bobbie Jo. Þetta varð seinasta heimsóknin sem Bobbie fékk í lífinu.

Skömmu síðar kom móðir hennar að heimili hennar til kanna stöðuna á dóttur sinni, enda sú síðarnefnda komin átta mánuði á leið og spennan mikil. Við henni tók þó ekki blómleg dóttir með framtíðina fyrir sér, heldur blóðugur vettvangur skelfilegs glæps.

Bobbie Jo var dáin og aðkoman hræðileg. Helst leit út fyrir að magi hennar hefði sprungið, og lögreglumenn sem fyrstir voru á vettvang hafa lýst aðstæðum sem í hryllingsmynd. Ekkert bólaði á barninu sem hún hafði borið undir belti.

Bobbi Jo

Vel undirbúið

Tæpum 300 kílómetrum í burtu sýndi Lisa Montgomery vinum og vandamönnum nýfætt barn sitt. Ekkert virtist sérstaklega athugavert við það, enda Lisa búin að vera ólétt í níu mánuði og því eðlilegt að sjá hana með nýfætt barn

Hins vegar var það athugavert í ljósi þess að Lisa var ófrjó. Hún hafði undirgengist ófrjósemisaðgerð mörgum árum fyrr, eftir að hún átti sitt fjórða barn. Engu að síður hafði hún statt og stöðugt haldið því fram að hún gengi með barn undir belti.

Það tók lögregluna ekki langan tíma að bera kennsl á Darlene Fischer, sem reyndist dulnefni Lisu sjálfrar. Í kjölfarið var Lisa handtekin og ákærð fyrir sérstaklega hrottalegt morð og mannrán. Á daginn kom að Lisa hafði mætt til Bobbie vel undirbúin. Hún hafði með sér reipi, hníf og búnað til að taka á móti barni. Áður hafði hún kynnt sér hvernig keisaraskurður var framkvæmdur. Allt bar með sér að um ósvífið morð af yfirlögðu ráði væri að ræða og þegar Lisa var sótt til saka var farið fram á dauðarefsingu. Eftir sat þó spurningin hvers vegna 36 ára gömul, fjögurra barna móðir, fremdi þennan svívirðilega glæp.

Lisa Montgomery

Myrti hundinn

Sorgarsaga Lisu hófst áður en hún fæddist. Móðir hennar, Judy, drakk mikið á meðgöngunni og Lisa fæddist með það sem kallast áfengisheilkenni, en einkenni heilkennisins getur verið skertur vitsmunaþroski, skert hreyfifærni og hegðunarvandamál.

Fyrstu þrjú árin ólst hún upp með hálfsystur sinni og þriggja ára varð hún vitni að því þegar barnfóstra þeirra, karlmaður, nauðgaði átta ára systur hennar ítrekað. Systir hennar var fjarlægð af heimilinu eftir að faðir þeirra stakk af, og varð það henni til bjargar. Lisa hins vegar varð eftir hjá móður sinni og martröð hennar var rétt að hefjast

Móðir hennar Judy, var ofbeldisfull. Meðal annars átti hún til að tjóðra Lisu til að þagga niður í henni, neyða hana í ískalda sturtu og berja hana með beltum, snúrum og herðatrjám. Eitt sinn drap hún hund fjölskyldunnar fyrir framan Lisu og systkini hennar, með skóflu, til að refsa þeim. Judy skipti hratt um karlmenn og giftist oft. Einn eiginmanna hennar var Jack Kleiner sem varð stjúpfaðir Lisu og hennar versti kvalari.

Lisa átti hryllilega æsku

Niðurlægingin algjör

Jack beitti Lisu margþættu ofbeldi. Hann útbjó sérstakt herbergi fyrir utan hjólhýsið sem þau bjuggu í og þangað átti Lisa að koma beint eftir skóla. Þar fylgdist hann með henni tímunum saman í gegnum gægjugat og nauðgaði henni reglulega. Þegar það nægði honum ekki lengur bauð hann vinum sínum að slást í leikinn og var Lisu hópnauðgað tímunum saman, barin og niðurlægð. Hún greindi síðar frá því að sumir mennirnir hefðu lokið sér af með því að hafa yfir hana þvaglát. Niðurlægingin og örvæntingin var algjör.

Ekki þýddi fyrir Lisu að reyna að streitast á móti ofbeldinu. Í eitt sinn er hún hafði gert svo barði Jack höfði hennar í steypt gólfið á herberginu af þvílíkum krafti að Lisa hlaut varanlegan heilaskaða af.

Engin hjálp

Ekki gat hún leitað til móður sinnar heldur, en móðir hennar var meðvituð um ofbeldið. Hún gekk eitt sinn inn er stjúpfaðirinn var að misnota Lisu. Viðbrögð hennar voru þau að sækja skotvopn, beina því að höfði Lisu og spyrja hana: „Hvernig gastu gert mér þetta?“ Fljótlega sá móðirin þó tækifæri í stöðunni. Þegar hún þurfti að kalla til iðnaðarmenn á borð við pípara eða rafvirkja, bauð hún þeim að misnota dóttur sína frekar en að greiða þeim peninga.

Enginn kom Lisu til bjargar. Ekki læknirinn sem skoðaði hana eitt sinn og sá ummerki ofbeldisins. Ekki frændi hennar, sem hún greindi frá ofbeldinu. Ekki barnaverndarnefnd sem kom aðeins einu sinni til að kanna aðstæður hjá henni, ekki skólinn, ekki neinn. Móðirin skildi loks við Jack og fyrir dómi, er gengið var frá skilnaðinum, greindu bæði Judy og Lisa frá kynferðisofbeldinu. Dómarinn skammaði Judy fyrir að gera ekkert í málunum, en gerði svo ekkert sjálfur.

Áframhaldandi ofbeldi

Aðeins 18 ára gömul gekk Lisa að eiga stjúpbróður sinn og eignaðist fjögur börn á fimm árum. Eiginmaður hennar beitti hana hrottalegu ofbeldi og tók það meðal annars upp á myndband. Þrautaganga Lisu virtist engan enda ætla að taka.

Eftir að Lisa gekk að eiga seinni eiginmann sinn fór hún ítrekað að halda því fram að hún væri þunguð, þrátt fyrir að vera líkamlega ófær um slíkt eftir að hafa eftir nauðgun gengist undir ófrjósemisaðgerð.

Þarna er talið að Lisa hafi verið orðin verulega veik á geði og í litlum tengslum við raunveruleikann. Það hafi því verið sturluð manneskja sem fór til fundar við Bobbie Jo, vafið reipi um háls hennar, kyrkt og skorið úr henni ófætt barnið.

Misnotkunarafsökunin

Lisa hefur verið greind með umfangsmikil andleg veikindi og annmarka, geðhvörf, rofinn persónuleika, alvarlega áfallastreituröskun og alvarlegan heilaskaða, eftir ítrekað ofbeldi sem hún mátti þola frá stjúpföður sínum og tveimur eiginmönnum.

Kviðdómur fékk aldrei almennilega að heyra um fortíð Lisu, saksóknarar eyddu heldur púðri í að greina frá því hvað Lisa væri léleg húsmóðir, að hún héldi ekki hreint heimili og eldaði ekki mat, líkt og það hefði eitthvað með morðið að gera. Reynsla Lisu af alvarlegu, líkamlegu og kynferðislegu ofbeldi, þar sem hún var barnung hneppt í kynlífsþrælkun þar sem henni var nauðgað í leggöng, endaþarm og munn, var kölluð „misnotkunarafsökunin“ og alfarið vísað á bug.

Verjandinn sem henni var skipaður, Dave Owen, hafði enga reynslu af málum þar sem dauðarefsing kom til álita, honum var skipaður til aðstoðar virtur verjandi með mikla reynslu af því að vinna með þolendum ofbeldis, Judy Clarke, en Owen þoldi ekki tilhugsunina um að kona færi að segja honum til verka svo hann fékk Clarke setta af, eftir að hún hafði náð góðu trúnaðarsambandi við Lisu. Talið er að vörn hennar hafi verið verulega ábótavant.

Engin lokaorð

Það var því barist allt til síðustu stundar fyrir lífi Lisu. Systir hennar og lögmenn biðluðu til fráfarandi Bandaríkjaforseta, Donalds Trump, um að þyrma lífi hennar og taka tillit til ofbeldissögu hennar. Enginn var að fara fram á að Lisa fengi frelsi, hún ætti heima á bak við lás og slá, en hún ætti ekki skilið að tapa lífinu, heldur vist á stað þar sem hún gæti fengið viðeigandi aðstoð við veikindum sínum.

Það reyndist þó til einskis og 13. janúar lét Lisa lífið eftir að hafa verið sprautuð með banvænni blöndu efna er dauðarefsingu hennar var framfylgt. Hún var 52 ára gömul. Aðspurð hvort hún hefði eitthvað að segja áður en hún léti lífið svaraði hún „nei“. Það var hennar síðasta orð. Hálf öld af hryllingi, af ofbeldi, niðurlægingu og pyntingum. Enginn kom henni til bjargar þá og hví ætti einhver að gera það núna? Hvað var þá í reynd eftir fyrir Lisu að segja annað en nei?

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 4 dögum

Lést tveimur mánuðum eftir að erfðabreytt svínsnýra var grætt í hann

Lést tveimur mánuðum eftir að erfðabreytt svínsnýra var grætt í hann
Pressan
Fyrir 4 dögum

Fimmtán ára drengur lenti í skelfilegu slysi – Fékk öflugt raflost í liminn

Fimmtán ára drengur lenti í skelfilegu slysi – Fékk öflugt raflost í liminn
Pressan
Fyrir 5 dögum

Fólk áttar sig ekki á þessu – „Synir okkar eru bræður, frændur og tvíburar“

Fólk áttar sig ekki á þessu – „Synir okkar eru bræður, frændur og tvíburar“
Pressan
Fyrir 5 dögum

Fyrir einni milljón ára blönduðust tvær plöntur óvart og við njótum góðs af því

Fyrir einni milljón ára blönduðust tvær plöntur óvart og við njótum góðs af því
Pressan
Fyrir 6 dögum

Brandy hvarf að heiman – „Undarleg tilfinning sækir á mig“

Brandy hvarf að heiman – „Undarleg tilfinning sækir á mig“
Pressan
Fyrir 6 dögum

Maðurinn sem getur ekki hætt að stela eggjum villtra fugla fékk dóm

Maðurinn sem getur ekki hætt að stela eggjum villtra fugla fékk dóm