Þetta uppgötvaðist þegar móðir hennar fór í sónar á síðustu vikum meðgöngunnar. Læknar sáu þá að eitthvað var að en gátu ekki sagt til um hvað það var með fullri vissu. Þeir töldu í upphafi að um blöðru eða æxli væri að ræða.
Það var ekki fyrr en stúlkan fæddist sem læknarnir sáu að um auka munn var að ræða, með vörum, sex tönnum og lítilli tungu. Skýrt er frá þessu í læknaritinu BMJ Case Reports. Fram kemur að auka munnurinn hafi ekki tengst hinum. Ástand sem þetta er kallað diprosopus eða craniofacial duplication.
Stúlkan gat andað, drukkið og borðað á eðlilegan hátt þrátt fyrir að vera með tvo munna. Þegar hún var sex mánaða fór hún í stóra aðgerð þar sem auka munnurinn var fjarlægður. Meðal annars varð að bora í kjálka hennar til að fjarlægja tennurnar í auka munninum. Sex mánuðum eftir aðgerðina virkaði munnur hennar nánast eðlilega. Hún ber smávægileg merki í andliti eftir aðgerðina og lítil taug í neðri vörinni eyðilagðist. Hún þarf ekki að fara í frekari aðgerðir.