fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
HelgarmatseðillMatur

Helgarmatseðillinn er af betri gerðinni að þessu sinni – Sykurlaus, glúten og gerlaus með öllu

Sjöfn Þórðardóttir
Föstudaginn 3. mars 2023 14:03

Þóranna Kristín Jónsdótir á heiður af helgarmatseðlinum að þessu sinni sem er einstaklega girnilegur. Seðillinn er bráðhollur, sykurlaus, glúten- og gerlaus og svo dásamlega girnilegur. DV/ERNIR.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Heiðurinn af helgarmatseðlinum að þessu sinni á Þóranna K. Jónsdóttir, Senior Client Partner, Entravision Meta ASP og gleðigjafi. Þóranna er einstaklega lífsglöð og skemmtilega manneskja og hefur mikinn húmor fyrir sjálfum sér.

Þegar við leituðum til hennar og óskuðum eftir því að hún myndi koma með sinn drauma helgarmatseðli var fyrsta svarið: „Ég er ekki „foodie,“ og skellihló.  Þórunn hefur verið sykurlaus síðan 2006, glúten- og gerlaus að mestu síðan 2009 og algjörlega síðastliðin 6-7 ár og er mjög mjólkurlítil. „Margir fríka út þegar þetta berst í tal, en fyrir mig er þetta löngu orðið orðinn partur af prógramminu og eftir öll þessi ár hefur maður einfaldlega lært á þetta og í dag er þetta lítið mál,“ segir Þóranna.

„Þetta er ekki bara eitthvað sem ég tók upp á bara af því að ég væri svo mikið í hollustunni, ég fæ bókstaflega ofnæmis- og bólguviðbrögð ef ég borða eitthvað af þessu, eða eitthvað með aukaefnum. Ég er reyndar ekki búin að prófa til að vita hvaða aukaefnum svo ég forðast þau bara alveg – mun einfaldara.“

Þóranna segist hafa verið heppin og hafa fengið góðan stuðning í gegnum þetta ferli. „Ég hef fengið frábæran stuðning á þessari vegferð minni í gegnum árin. Ég segi oft að ég eigi tvo sérfræðinga í pokahorninu sem ég gæti hringt í klukkan þrjú um nóttina ef því væri að skipta. Þetta eru þau Ásdís Ragna Einarsdóttir, grasalæknir, og Davíð Kristinsson, gúrú í hreinu mataræði sem gaf út bókina 30 dagar. Leið til betri lífsstíls hér um árið sem mér finnst eiga að vera til á öllum heimilum. Þau eru búin að standa við hlið mér í mörg ár og leiðbeina mér og gera með mér tilraunir til að finna út úr þessu öllu saman, óendanlega þolinmóð og góð við mig. Hjá þeim kemur maður sko heldur ekki að tómum kofanum þegar kemur að uppskriftum.“

Sumum finnst erfitt að bjóða mér í mat

„Öðru fólki finnst þetta allt saman meira mál en mér og ég held að sumum finnist erfitt að bjóða mér í mat því fólk er að reyna að hafa eitthvað sem ég get borðað. Mér líður verr ef fólk er að hafa fyrir því heldur en að sjá um mig sjálf, er alveg orðin vön því að taka með mér mat. Stundum spyr ég viðkomandi hvað þau ætli að hafa í matinn því oft get ég borðað til dæmis kjötið eða fiskinn sem er í boði og svo komið með eitthvað sjálf til að prjóna við það.“

Aðspurð segist Þórunn vera orðin nokkuð góð í þekkja hvaða vörur passa fyrir hana. „Fyrir utan að vita orðið hvaða vörur eru í lagi þá er ég orðin vel sjóuð í að lesa á hlutina til að vita hvað virkar og hvað ekki. Og ef ég er ekki viss og ákveð að prófa eitthvað þá er ég með ofnæmistöflur við hendina.“

Hér er tækifæri fyrir vini og vandamenn Þórönnu að taka vel eftir, því hér deilir Þóranna sínum drauma matseðli með hennar mataræði í forgrunni. „Mig langar að deila hérna helgarmatseðli sem er í takt við mataræðið mitt. Vonandi sýnir þetta líka fólki að það er hægt að borða svona hreint og borða samt geggjað góðan mat.“

Föstudagur – Pitsa með tveggja hráefna botni

„Föstudagskvöld eru pitsakvöld á mörgum heimilum og þau eru það líka hjá mér. Þá eru góð ráð dýr því ekki fer ég í botna með geri og hveiti (né sykri, sem ég hef aldrei skilið af hverju ætti að þurfa í pitsabotn. Já eða hummus, eða salsasósu, það er sykur á ótrúlegustu stöðum. Ég átti í vandræðum með að velja úr tveimur góðum uppskriftum hér en ákvað að deila með ykkur þessari – stökk skorpa og tilheyrandi.“

Pitsa með tveggja hráefna botni að hætti Þórönnu

Hita ofninn í 180°C hita – ef þú átt pitsastein þá er um að gera að hita hann en í guðanna bænum mundu að lækka svo hitann þegar pitsan fer inn (minn þarf að vera í ofninum í 25 mínútur við 225°C – ég hef klikkað á að lækka hitann og mæli ekki með því).

Hlutföllin eru 1 á móti 2 – hér mæli ég í bollum

2 bollar hveiti (í mínu tilfelli glútenlaust – nota þetta frá Bob’s Red Mills, finnst það virka langbest)

1 bolli kókosrjómi (ég kaupi dós af “full fat” kókosmjólk og passa að hún hafi staðið í dágóðan tíma – eða jafnvel skelli henni í ísskápinn – og þá er þykki parturinn rjóminn – restin er kókosvatn sem er um að gera að nota í smoothie).

Set þetta í skál og nota sleikju til að nudda þessu saman þar til úr verður deig. Tek það svo úr skálinni og hnoða betur (bæti við hveiti ef þarf) og flet svo út með kökukefli. Et voilá, pitadeig.

Á þetta er svo hægt að setja það sem manni dettur í hug. Hér fyrir neðan eru nokkrar hugmyndir að því sem hægt er að setja ofan á – ég mæli þó alltaf með því að nota hreinan grískan fetaost og mylja yfir. Mitt uppáhald er pestó, fullt af rauðlauk, kjúlli, mulinn hreinn grískur feta og furuhnetur (fjölskyldunni finnst rosa fyndið þegar þau spyrja mig hvort ég vilji pitsu með furuhnetunum mínum).

Álegg

Pestó frekar en pitsasósu

Rauðlauk

Saxaðan hvítlauk

Sólþurrkaða tómata

Blómkálssteikur

Ég set líka oft kjúklingabita ef ég á afgang og hef prófað parma- og serranoskinku sem virkaði vel.

Ferskt basil

Hreinn grískur fetaostur

Furuhnetur

Svo er um að gera að prófa bara hitt og þetta. Einhvers staðar í uppskriftinni sem ég fann upprunalega segir að baka í 8-12 mínútur. Ég tek aldrei tímann, fylgist bara með og þegar mér líst vel á þá kippi ég henni út. Athugið, deigið verður ansi stórt. Ég skipti því oft í tvennt og bý til kúlu úr þeim helming sem ég nota ekki, skelli henni í plastfilmu og inn í ísskáp, þetta geymist vel, jafnvel upp að 2 vikum.

 

Laugardagur – Sveitasæla, Djöflaegg, Bananasætindi og kjúklingur í BBQ

Morgunmatur

Sveitasæla – einn uppáhalds á laugardagsmorgni

1 bolli grísk jógúrt (ég nota laktósafría frá Örnu og þoli hana vel)

1 msk. möndlur með hýðinu

1 msk. möluð hörfræ

1 tsk. kanill

Ef fólk vill pínu sætu þá má setja pínu hunang – geri það aldrei sjálf. Skella svo í þetta einhverjum berjum eða ávöxtum sem manni finnast góð. Þetta geta til að mynda verið bláber, rassaber (eins og hindber eru oft kölluð á mínu heimili), peru, epli, banana, fullt af möguleikum.

Hádegisverður

„Ú, djöflaegg í hádeginu, það er að segja ef maður vaknar ekki það seint að sleppa hádegismatnum alveg. Þessi uppskrift er fyrir fjóra.

Djöflaegg

6 vel stór egg

2 msk. majónes (ég kaupi þetta með appelsínugula miðanum í Bónus – enginn sykur í því)

2 msk. Dijon sinnep (fæ það líka sykurlaust með appelsínugula miðanum)

½ msk. olía (ég nota avókadó-olíu)

1 tsk. sítrónusafi (bestur ef hann er kreistur beint úr sítrónunni)

½ tsk. laukduft

½ tsk. sjávarsalt

¼ tsk. cayenna pipar (ég mæli samt með því að byrja mun minna og smakka til – þetta getur fljótt orðið ansi sterkt)

Sætt paprikuduft eftir smekk

Sjóðið eggin, kælið og skerið svo í tvo helminga. Takið rauðuna úr og skellið henni í skál. Takið allt annað, nema paprikuduftið og eggjahvítuna, og hrærið saman í skál. Notið síðan eggjahvítuhelmingana sem skálar, deilið blöndunni á milli og stráið svo smá paprikudufti yfir. Njótið.

Banana – Nammi

„Það verður að hafa laugardags nammi og þetta er svo mikið uppáhalds. Strákurinn minn sagði einhvern tímann við mig: „Mamma, þú veist að ef þú borðar alltaf það sama þá færðu á endanum nóg af því.“ Ég sé það barasta aldrei gerast með þetta.

1 msk. möndlusmjör (kaupi með appelsínugula miðanum í Bónus)

¼ tsk. kanilduft

¼ tsk. vanilludropar

Kakónibbur eftir smekk

Ég varð mér úti um góða möndluolíu til að geta sett nokkra dropa. Það hjálpar að mýkja aðeins og gera það auðveldara að dreifa úr möndlusmjörinu. Hræra þessu öllu saman. Sker banana í helming og svo langsum. Smyrja möndlusmjörinu á og dreifi ég svolitlu af kakónibbum yfir.

Kakónibburnar eru ekki bara hollar og góðar heldur gefa þær líka stökka áferð. Það er smekksatriði hversu mikið af kakónibbum fólk vill. Ég byrjaði með smotterí þegar ég gerði þetta fyrst, en núna treð ég eins miklu á og ég mögulega get. Það mætti líka setja kókosmjöl eða muldar pistasíur.

 

Kvöldverður

„Þessi réttur er algjört sælgæti. BBQ sósa er eiginlega bara sykur svo ég hef ekki borðað hana í mörg mörg ár. Svo rakst ég á þessa uppskrift og ég nota sósuhlutann af henni fyrir allt mögulegt sem fer vel með BBQ sósu.“

Kjúlklingur með BBQ sósu

Fyrir 4

BBQ sósa Þórönnu

¼ bolli balsamiq edik – ég nota sykurlaust sem ég fann á netinu

2 msk. ólífuolía

1 msk. tómatpúrra

2 pressaðir hvítlauksgeirar

½ tsk. monkfruit dropar

½ tsk. Dijon sinnep (sykurlaust – appelsínugulur miði)

½ tsk. salt

¼ tsk. nýmalaður svartur pipar

Kjúklingur

4 kjúklingalæri skinnlaus en á beininu (hef líka haft þau úrbeinuð)

6 stk. gulrætur skornar í bita

1 stk. rauðlaukur skorinn í bita

1 stk. haus af broccoli skorinn í bita

Byrjið á því að hita bakarofninn í 200°hita. Smyrjið eldfast mót, skellið grænmetinu í það og svo kjúklingnum ofan á. Setjið balsamic edikið, ólífuolíuna, tómatpúrruna, hvítlauk, monkfruit, sinnep, salt og pipar í litla skáll og pískið vel saman. Hellið sósunni svo yfir kjúklinginn og grænmetið. Setjið inn í ofn og bakið í 45 mínútur – 1 klukkustund eða þar til kjúklingurinn hefur eldast í gegn og grænmetið mýkst.

Sunnudagur – Hrærð egg, bananaskonsur, súkkulaði bollakökur og gúllassúpa

Morgunmatur

Hef þetta klassískt á sunnudagsmorgni – eða svona um hádegisbilið.“

„Hrærð egg a la litli guttinn minn. Hann kvartaði lengi yfir hrærðu eggjunum hjá mömmu sinni. Fékk svo einhvern tímann hrærð egg sem honum fannst geggjuð og fékk bara að vita hjá landsliðskokkinum hvað leyndarmálið væri. Það er ekki flókið. Setja eggin og smá smjör á kalda pönnuna, hita hana og hræra á meðan. Og það sem skiptir mestu máli er að elda þau ekki of mikið. Beikon þarf varla að segja fólki hvernig á að elda, en fyrir airfryer sjúka þjóð þá er náttúrulega lang einfaldast og rosa gott að skella þeim í airfryerinn.“

Bananaskonsur

1 banani

2 egg

Smotterí af kanil

Pínu af salti

Pínu af lyftidufti

(mjög vísindalegt magn allt saman)

Bananinn stappaður, öllu skellt í skál og pískað saman. Svo á ég svona stór muffins form, með plássi fyrir 6 stórar muffins. Ég skipti deiginu á milli og skelli í ofninn. Fylgist með litnum og kippi út þegar þetta lítur girnilega út. Svo er um að gera að vera líka voða hollur og skella til dæmis smá tómötum með – eða ekki.

Sunnudagskaffi

„Í dag get ég horft á fólk gúffa í sig súkkulaðitertur, hnallþórur, vöfflur, pönnsur og hvað sem er án þess að pæla neitt í því. Það var erfiðara áður og það er jú alltaf gott að geta fengið smá gúmmulaði af og til. Ég hendi stundum í þessar súkkulaði bollakökur. Ég held að ég hafi upprunalega fundið uppskriftina hjá Maríu Kristu fyrir margt löngu, en ég hreinlega man það ekki – ef svo er, þá segi ég bara takk, María Krista.“

Súkkulaði bollakökur

40 g kókoshveiti

25 g möndluhveiti

½ tsk. Xanthan gúmmí

30 g hreint kakó (passa gæðin – lykilatriði)

½ tsk. matarsódi

½ tsk. salt

¼ tsk. lyftiduft

55 g Monkfruit sykur

3 egg

75 g olía (ég nota avókadó eða ólívu)

160 g möndlumjólk

1 msk. sítrónusafi

½ tsk. vanilludropar

10 dropar monkfruit dropar

Hræri öllum þurrefnunum saman til að byrja með, bæti svo í þessu blauta og hræri áfram. Deili á milli forma og baka í svona 20 mínútur á 180°C hita en tíminn er ekki heilagur. Best að fylgjast bara með, pota með prjóni og þegar hann kemur hreinn upp þá eru þær klárar. Ég set ekkert krem á þær en það getur verið gott að setja eitthvað svona sykurlaust súkkulaðikrem eins og til að mynda frá GoodGood. Ég hef með þessu þeyttan hafrarjóma og ber, til dæmis bláber, jarðarber og rassaber

Kvöldverður

„Það er enn ekki orðið hlýtt og þá er alltaf gott að hafa heita og matarmikla súpu. Mér finnst enn betra að gera stóra uppskrift og fá fjölskylduna í matinn. Elska þegar maður bara sendir skilaboð á hópinn á sunnudagsmorgni og stefnir þeim saman í súpu seinnipartinn svona án þess að það þurfi að vera að plana allt með löngum fyrirvara. Þessi uppskrift er úr 30 daga bókinni hans Davíðs Kristins og er reglulega á borðum hjá okkur (held að bókin fáist enn hjá Forlaginu og finnst persónulega að hún eigi að vera til á öllum heimilum). Hún á að vera fyrir fjóra en er vel það. Ef afgangurinn klárast ekki daginn eftir (sem er sjaldgæft að gerist ekki) þá skelli ég í frystinn, fullkomið til að grípa í þegar maður er seinn á ferð eða nennir hreinlega ekki að elda.“

Ungversk gúllassúpa a la Davíð

900 g nautagúllas

2 laukar (ég nota rauðlauk)

3 hvítlauksgeirar

3 msk. olía til að steikja upp úr (ég nota avókadóolíu)

1 ½ msk. paprikuduft

1,5 l vatn

2 msk. eða 2 teningar af grænmetiskrafti (sykurlausum, glútenlausum og gerlausum)

1 tsk. cumin

1 tsk. marjoram

700 g sætar kartöflur

2-3 stk. gulrætur

2 stk. rauðar paprikur

4-5 stk. tómatar – ég nota líka stundum bara tómata úr dós

Skera laukinn, pressa hvítlaukinn, skera kjötið í bita ef ekki keypt svoleiðis og steikja þetta allt í olíunni. Skella paprikudufti, vatni, krafti, cumin og marjoram í pott og sjóða í 40 mínútur. Afhýða sætu kartöflurnar, skera niður gulræturnar og bæta þessu í pottinn og sjóða svo áfram í 30 mínútur. Krydda til eftir smekk.

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Matur
20.12.2023

Grillaður hunangshjúpaður hestshaus með sinnepsfræjum, villihvítlauk og blóðbergi

Grillaður hunangshjúpaður hestshaus með sinnepsfræjum, villihvítlauk og blóðbergi
Matur
07.12.2023

Hátíðarbakkinn

Hátíðarbakkinn
Matur
04.11.2023

Djúsí beikonborgari með mozzarella fyllingu

Djúsí beikonborgari með mozzarella fyllingu
Matur
03.11.2023

Kjúklingalasagna sem allir elska

Kjúklingalasagna sem allir elska
Matur
20.10.2023

Salat með byggi, sætum kartöflum, graskersfræjum og hvítlauk

Salat með byggi, sætum kartöflum, graskersfræjum og hvítlauk
Matur
19.10.2023

Bragðmikil sveppasúpa

Bragðmikil sveppasúpa