fbpx
Miðvikudagur 09.október 2024

Fórnað á altari frægðar fúlmennis – Áttu það eitt sameiginlegt að vinna á götum úti

Ritstjórn DV
Laugardaginn 16. nóvember 2019 22:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ég mun verða frægur,“ sagði Bretinn Derek Brown við vinkonu sína. „Þú munt heyra af mér.“ Vinkona Dereks lét þessi orð sem vind um eyru þjóta, því Derek var 47 ára gamall sendibílstjóri sem sá sér farborða með því sendast með dagblöð á sölustaði um nætur. Óskhyggja, hugsaði vinkonan.

Nú, hvað sem óskhyggju leið, þá fór Derek ekki með fleipur, en frægð hans varð ekki af jákvæðum toga því tveimur morðum síðar varð hann tilefni öskrandi fyrirsagna í fjölmiðlum.

Tvær ungar mæður

Síðar meir neitaði Derek allri aðild að morðunum, en við réttarhöldin, 4. september 2008, kom fram að fórnarlömbin voru tvær ungar mæður, en lík þeirra höfðu þó ekki fundist.

Átti frægðardrauma
Derek Brown átti vafasama fortíð.

Xiao-Mei Guo, 29 ára, hvarf fyrst. Hún og eiginmaður hennar, Jin, voru ólöglegir innflytjendur frá Kína og framfleyttu sér með því að selja sjóræningjaútgáfur af DVD-myndum á strætum í Whitechapel í East End í London.

Xiao-Mei hvarf 29. ágúst árið 2007.

Auðveldar bráðir

Þremur vikum síðar hvarf Bonnie Barrett, 24 ára kókaínfíkill, í Whitechapel.

Sem fyrr segir þvertók Derek fyrir að hafa komið nálægt umræddum konum. Talið var að hann hefði lokkað þær heim til sín, ráðist þar á þær með banvænum afleiðingum og síðan losað sig við líkin.

Báðar konurnar lifðu á jaðri samfélagsins og unnu fyrir sér á götum úti. Sækjandi sagði að þær hefðu verið „auðveld bráð fyrir morðingja sem áliti að þeirra yrði ekki saknað.“ Morðingja sem teldi að fórnarlambanna yrði ekki leitað, eða saknað. „Hann fór villur vegar,“ sagði sækjandinn, Brian Altman.

Eiginmaðurinn saklaus

Við réttarhöldin var sagt að Derek hefði hitt Xiao-Mei á Whitechapel-markaðnum og hún hefði farið með honum í íbúð hans í Laburnum Court í suðausturhluta London. Derek fékk hana til þess undir því yfirskini að hann vildi sannreyna gæði DVD-diskanna sem hún hafði á boðstólum.

Xiao-Mei Guo
Átti sín einskis ills von.

Xiao-Mei Guo sást ekki, lifandi eða látin, eftir þessa heimsókn.

Oft eru eiginmenn myrtra eða horfinna kvenna grunaðir um græsku, en sá möguleiki var ekki fyrir hendi í þetta skipti því eiginmaður Xiao-Mei var á bak við lás og slá þegar hún hvarf. Jin Guo losnaði ekki úr grjótinu fyrr en hálfum mánuði síðar. Reyndar vakti hvarf Xiao-Mei ekki athygli fyrr en sex dögum eftir að hún hvarf og vinur hennar vakti athygli lögreglunnar á því.

Fjármögnun fíknar

Lifibrauð Bonnie Barrett var af öðrum toga en hjá Xiao-Mei, þótt báðar ynnu á götum úti. Bonnie seldi sig til að fjármagna kókaínfíkn sína. Í bransanum var hún þekkt sem „clipper“, hugtak notað yfir vændiskonur sem tóku við greiðslu en létu sig svo hverfa áður en viðskiptin komust á næsta stig.

Bonnie deildi íbúð í Newham með vini sínum, en samband hennar og barnsföður hennar hafði, þegar þarna var komið við sögu, runnið sitt skeið. Með þeim manni hafði hún eignast son, sem þá var sex ára.

Fátt sameiginlegt

Það lá ljóst fyrir að Bonnie og Xiao-Mei áttu fátt sameiginlegt; þær þekktust ekki og leiðir þeirra höfðu aldrei legið saman svo vitað væri. Þó áttu þær það óumdeilanlega sameiginlegt að þær voru báðar horfnar og ekkert hafði spurst til þeirra og af þeim hafði hvorki fundist tangur né tetur.

Einnig áttu konurnar það sameiginlegt að vísbendingar, beinar og óbeinar, sýndu svo ekki varð um villst að hvarf þeirra mátti að einhverju leyti rekja til Dereks Brown.

Iðinn vændisnotandi

Derek Brown sem vildi verða frægur myndi fá ósk sína uppfyllta. Derek hafði þá nýlega sagt skilið við sambýliskonu sína til langs tíma. Hann átti sjö börn með fjórum konum og nýtti sér í miklum mæli þjónustu vændiskvenna.

Bonnie Barrett
Var sennilega auðveld bráð.

Upptökur úr eftirlitsmyndavélum staðfestu að Xiao-Mei hafði síðast sést á lífi í fylgd Dereks og þá í aðeins 800 metra fjarlægð frá þeim stað sem Bonnie hvarf frá þremur vikum síðar.

Mýgrútur af vísbendingum

Í íbúð Dereks fundust leifar af 65 aðskildum blóðtaumum á veggjum, í lofti og á gólfi. Þar fann lögreglan einnig kvittanir fyrir bogasög, vinnuvettlingum, hreinsiefnum og ruslapokum.

Gólfteppi höfðu verið rifin upp og veggfóður fjarlægt, fata full af vatni stóð reiðubúin til notkunar og blóðblettir á baðherbergi gáfu til kynna að þar hefði eitthvað miður hugnanlegt átt sér stað. Að auki fannst bókin Killers – The Most Barbaric Murderers Of Our Time sem fjallar um marga af iðjusömustu morðingjum sögunnar.

Rannsókn á blóð gaf til kynna að Xiao-Mei hefði sennilega verið myrt í forstofunni og á einhverjum tímapunkti hafði Bonnie reynt að flýja örlög sín með því að þrýsta sér upp að uppþvottavélinni í eldhúsinu.

Ekki vandaður pappír

Derek sagðist koma af fjöllum. Hann fullyrti að innbrotsþjófar hefðu myrt konurnar tvær í íbúð hans. Einhverra hluta vegna lagði kviðdómur ekki trúnað á frásögn hans. Kviðdómur hafði enda heyrt að Derek hefði árið 1989 fengið sjö ára dóm fyrir að nauðga konu fyrir framan 14 mánaða barn hennar. Einnig höfðu fimm fórnarlömb kynferðislegrar árásar borið kennsl á hann í jafnmörgum málum sem áttu sér stað yfir tveggja áratuga skeið.

Derek Brown hafði þess utan verið grunaður um morð við rannsókn máls utan London. Því mátti ætla að Derek væri ekki vandaður pappír.

Þann 3. október 2008 komst kviðdómur, á innan við þremur klukkustundum, að þeirri niðurstöðu að Derek væri sekur um að hafa myrt konurnar tvær.

Lokaorð dómarans

Lokaorðið átti Martin Stephens þann 6. október þegar hann dæmdi Derek til 30 ára fangelsisvistar. „Við getum aðeins spekúlerað í hvað þú gerðir við þessar konur áður en þú myrtir þær. Þú hefur ekki sýnt snefil af iðrun og hvernig þú banaðir þeim vitum við ekki. Það sem við vitum, er að þú losaðir þig við lík þeirra á ógnvænlega áhrifaríkan hátt svo ekki fyndist arða af líkamsleifum þeirra.“

Frægð Dereks Brown fólst kannski ekki í síst í því að hafa verið dæmdur fyrir tvö morð, án þess að lík fórnarlambanna hefðu nokkurn tíman fundist.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 2 klukkutímum

Biðja fólkið sem neitar að rýma um að merkja útlimi sína til að auðvelda yfirvöldum að bera kennsl á líkin

Biðja fólkið sem neitar að rýma um að merkja útlimi sína til að auðvelda yfirvöldum að bera kennsl á líkin
Fréttir
Fyrir 2 klukkutímum

Kærustupar fékk skilorðsbundna dóma vegna líkamsárásar – Konan fékk þyngri dóm vegna þjófnaðar á fatnaði og 2 ostakökum

Kærustupar fékk skilorðsbundna dóma vegna líkamsárásar – Konan fékk þyngri dóm vegna þjófnaðar á fatnaði og 2 ostakökum
433Sport
Fyrir 3 klukkutímum

Klopp sendir frá sér myndband – Ítrekar að hann sé ekki að svíkja loforðið sem hann gaf Liverpool

Klopp sendir frá sér myndband – Ítrekar að hann sé ekki að svíkja loforðið sem hann gaf Liverpool
Fréttir
Fyrir 3 klukkutímum

Fær vægan dóm fyrir gróft heimilisofbeldi vegna þess að hann hefur bætt ráð sitt – „Ég lamdi hana“

Fær vægan dóm fyrir gróft heimilisofbeldi vegna þess að hann hefur bætt ráð sitt – „Ég lamdi hana“
Fréttir
Fyrir 5 klukkutímum

Skiptar skoðanir um dönskukunnáttu Höllu: „Þetta er til skammar“ – „Og hverjum er ekki skítsama?“

Skiptar skoðanir um dönskukunnáttu Höllu: „Þetta er til skammar“ – „Og hverjum er ekki skítsama?“
Kynning
Fyrir 5 klukkutímum

Besti vinur Íslendinga snýr aftur – Nýr Mitsubishi Outlander PHEV

Besti vinur Íslendinga snýr aftur – Nýr Mitsubishi Outlander PHEV