fbpx
Miðvikudagur 26.janúar 2022
Fréttir

Óð kind klýfur fjölskyldu – Tuttugu prósent öryrki eftir slys við sauðburð

Ágúst Borgþór Sverrisson
Mánudaginn 29. nóvember 2021 15:30

Kindin á myndinni er óviðkomandi málinu. Mynd: Vilhelm

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sakleysisleg heimsókn konu á sveitabýli til frænku sinnar vorið 2017 fékk sorglegan endi er kind sem hafði nýborið komst í uppnám og rakst utan í konuna með þeim afleiðingum að konan féll á jörðina og slasaðist illa á öxl. Dómur féll í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 26. nóvember í skaðabótamáli sem höfðað var vegna þessa atviks.

Konan sem var gestkomandi og konan sem rekur viðkomandi sveitabýli ásamt eiginmanni sínum eru þremenningar. Sú gestkomandi og eiginmaður hennar eiga sumarbústað í nágrenni við sveitabýlið og komu þangað oft í heimsóknir. Sauðburður var í gangi þegar þessi heimsókn átti sér stað.

Á býlinu tíðkast að fara með nýfædd lömb inn í einstaklingsstíur í fjárhúsunum og ærnar elta þangað inn og eiga stund með nýbornu lömbum sínum. Að þessu sinni vildi svo óheppilega til að kindin missti sjónar á lambi sínu í fangi bróður konunnar á bænum og sneri við. Gestkomandi konan var óumbeðin til staðar og reyndi að hefta för kindarinnar til baka. Sagðist hún hafa gert þetta að fyrirmælum bróðurins sem var með lambið í fanginu. Hann neitar því með öllu og bar þeim ekki saman um þetta fyrir dómi.

Konan hlaut 20% örorku af slysinu og gerði skaðabótakröfur á hendur frænku sinni og tryggingafélagi hennar. Kröfunum var hafnað og stefndi hún því þessum aðilum fyrir dóm. Byggir hún á því að slys hennar megi rekja til ófullnægjandi aðbúnaðar á vinnustaði og að skort hafi verulega á framkvæmd vinnu í fjárhúsinu. Hafi ákvæði laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustað ekki verið uppfyllt. Þá hafi fyrirmæli bróður bóndans til hennar á vettvangi falið í sér saknæma háttsemi.

Bóndahjónin og tryggingafélagið kröfðust sýknu. „Á það er bent að konan hafi komið óbeðin á vettvang og heimsókn hennar á býlið hafi verið fyrirvaralaus. Er því ennfremur mótmælt að bróðirinn hafi gefið þau tilmæli sem konan segir hann hafa gefið. Í þessu sambandi er vakin athygli á því að á fyrri stigum málsins í samskiptum við stefnda Vátryggingafélag Íslands hf., í upphaflegri tjónstilkynningu og þegar krafist var afstöðu til bótaskyldu var ekki byggt á slíkri málsástæðu heldur því að bróðir stefndu hefði ekki leiðbeint stefnanda um að standa ekki í dyragættinni. Leggja verði upphaflega lýsingu til grundvallar en ekki síðar til komna, um að bróðir stefndu hefði gefið henni fyrirmæli um að hindra för kindarinnar,“ segir um þetta í texta dómsins.

Er staðhæft í málsvörninni að engin ólögleg starfsemi hafi átt sér stað er konan slasaðist. Segir að framkvæmd sauðburðarins hafi verið með ágætum og ekkert saknæmt sé að finna í þeim vinnubrögðum sem viðhöfð hafi verið.  Þá segir enn fremur: „Að mati stefndu liggi ótvírætt fyrir að slysið hafi ekki gerst vegna háttsemi hennar. Miklu frekar hafi verið um að ræða óhappatilviljun eða aðgæsluleysi stefnanda sjálfrar. Stefnandi hafi verið stödd á sveitabæ í miðjum sauðburði þar sem hún hafði margoft komið áður. Henni hafi borið að hegða sér í samræmi við það og hafa varann á.“

Ábyrgðin sett á hina slösuðu

Konan lýsti atvikinu svo í tjónstilkynningu sem hún sendi um slysið til Vátryggingafélags Íslands sumarið 2017:

„Ég var gestkomandi og hafði verið þarna nokkra stund. Var ég að aðstoða við að verið var að færa til rollu með lömbin sín og varnaði ég henni vegar, þannig að hún kæmist ekki út.

Mér var ekki leiðbeint að standa ekki í dyrunum. Ég er óvön þessu, enda hef ég ekki búið eða starfað í sveit. Rollan var eitthvað stressuð og vildi komast út og við
það kastaðist ég út, enda rauk rollan á mig. Við þetta kastaðist ég út og lenti illa á hægri hliðinni á harði malarjörð og slasaði mig.“

Dómurinn bendir á að þessi tilkynning er ekki í samræmi við þann framburð konunnar að bróðir bóndans hafi leiðbeint henni um að standa í vegi fyrir kindinni. „Bróðir stefndu hefur á hinn bóginn eindregið neitað að hafa gefið stefnanda fyrirmæli um að standa í vegi sauðkindarinnar og gefið á því trúverðuga skýringu hvers vegna hann myndi ekki gefa slík fyrirmæli í aðstæðum sem þessum. Hin nýborna ær þyrfti að ná ró og hitta fyrir lömb sín að nýju áður en unnt hefði verið að gera frekari tilraunir til að hýsa hana. Byrja þyrfti þannig upp á nýtt í því verki úti á hlaði,“ segir í texta dómsins.

Leggur dómurinn trúnað á þessar skýringar bróðurins og álítur hann ekki hafa gert neitt rangt á vettvangi.

Þá segir orðrétt í dómnum:

„Fyrir liggur að dómstólar hafa talið mikið þurfa til að koma svo að bótaábyrgð verði lögð á eiganda þeirra hagsmuna sem óbeðinn erindisrekstur beinist að.
Ásetningur eða stórfellt gáleysi eigandans til að valda hinu hættulega ástandi þarf til að koma, samanber til dæmis dóm Hæstaréttar í máli nr. 497/2002 frá 10. apríl 2003.
Í því tilviki sem hér um ræðir var engin hætta á ferð fyrir sauðkindina eða aðra og því athafnir stefnanda við að hindra för ærinnar með öllu óþarfar og í raun til óþurftar,
fyrir utan að vera óumbeðnar. Verður ábyrgð því ekki felld á stefndu vegna skorts á leiðbeiningum til stefnanda.“

Bóndahjónin og tryggingafélag þeirra voru sýknuð af kröfum konunnar en málskostnaður fellur niður.

Dóminn má lesa hér

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt