fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fréttir

Stál í stál í Dubai – Áskorandinn getur verið ánægður með stöðu mála

Björn Þorfinnsson
Laugardaginn 27. nóvember 2021 17:34

Nepó og Carlsen takast í hendur við upphaf fyrstu skákar. Mynd/FIDE

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Skákáhugamenn um allan heim eru himinlifandi með byrjun heimsmeistaraeinvígisins í skák milli Magnus Carlsen og Ian Nepomniachtchi. Staðan er 1-1 eftir tvær jafnteflisskákir en þær hafa verið afar spennandi og skemmtilegar.

Carlsen fórnaði peði í fyrstu skákinni, sem þótti vera ansi töff enda bjuggust margir við öðrum hundleiðinlegum byrjunum. Upp kom jöfn staða sem Carlsen tefldi aðeins betur og um tíma var lífið orðið ansi strembið fyrir Nepó. Hann var þó vandanum vaxinn, fann bestu leikina undir mikilli pressu og sigldi jafnteflinu í höfn.

Seinni skákin, sem var að klárast, var sömuleiðis afar spennandi og ekki síst vegna glæfralegrar taflmennsku heimsmeistarans. Hann tefldi afar hvasst, fórnaði skiptamun (sem er hrókur í skiptum fyrir biskup eða riddara) sem þykir enn meira töff en peðsfórnin í fyrstu skákinni. Það var hins vegar kannski full mikil fífldirfska enda virtust helstu ofurtölvur afar hrifnar af stöðu áskorandans. Nepó er þó ekki nein tölva þó góður sé. Hann glutraði stöðunni niður og var meira að segja komin í smávægileg vandræði um tíma. Aftur náði hann þó að tryggja sér örugglega jafntefli.

Magnus Carlsen undrandi yfir leik andstæðingsins Mynd/FIDE

Að mörgu leyti getur Nepó verið nokkuð ánægður með byrjun einvígisins. Byrjanirnar hans hafa heppnast afar vel og hann er að skapa sér færi. Þegar hann hefur síðan gert mistök þá brotnar hann ekki heldur nær áttum og reddar stöðunum í jafntefli.

Það er nefnilega ótrúlega óþægilegt að lenda undir pressu frá Magnus Carlsen. Hann hefur skapað sér það orðspor að reyna alltaf að pína andstæðinginn og það er með ólíkindum hvað jafnvel sterkustu skákmenn heims brotna undir því álagi. Menn vita einfaldlega að Carlsen mun aldrei sætta sig við jafntefli og því er framundan 1-2 klukkustunda þjáning þar sem að allt verður reynt til að brjóta andstæðinginn á bak aftur. Það höndla ekki margir.

Sá sem þetta skrifar hefur reynslu af því að mæta Magnus Carlsen á Reykjavíkarvíkurmótinu árið 2004. Þá var Magnus aðeins þrettán ára gamall og ljóst var að þar færi mikið efni. Sennilega hefði mér liðið betur að vita að þarna færi líklega besti skákmaður sögunnar en þarna leit ég á hann sem einhvern krakkaskít sem væri frá Noregi í þokkabót.

Skákin hófst og krakkinn lét hratt og örugglega á meðan ég var lítill í mér og hugsaði mikið. Til að gera stöðuna svartari þá horfði krakkinn ekkert á borðið heldur hafði aðallega áhuga á að stara á þjáningarfullt smetti mitt. Svo smjattaði hann á rúsínum og hnetum út í eitt og sötraði appelsínudjús á milli. Allt í kringum borðið voru áhorfendur að fylgjast með undrabarninu og mér leið eins og tarfi í nautaati. Allir biðu eftir glæsilegu náðarhögginu frá rúsínuétandi safasötraranum sem spriklaði stígvélaklæddum fótunum ótt og títt af eftirvæntingu. Aftakan var snyrtilegt hjá krakkanum og ég skreið heim og hét því að borða aldrei rúsínur aftur.

Svona starði Magnus litli á greinarhöfund um árið. Líklega eru daunillar rúsínur í pokanum á hægri hönd

Tveimur árum síðar mætti ég undrabarninu aftur á hraðskáksmóti Glitnis í Reykjavik. Þá var hann orðinn afar sterkur skákmeistari og þá sérstaklega í stuttum skákum. Ég bjóst ekki við miklum árangri. Um var að ræða tveggja skáka hraðskákaeinvígi og strax í byrjun fyrstu skákarinnar gerðust undur og stórmerki. Ég plataði Magnus upp úr skónum og vann af honum riddara.

Glæsilegur sigur minn blasti við. Áhorfendur um kringdu borðið þar sem ég bombaði út leikjum af fádæma öryggi. Ég hélt að drengurinn myndi fljótlega gefast upp þegar einhver rúsínuskítalykt gaus upp. Á ögustundu hafði ég gengið í gildru undrabarnsins og með djöfullegum hætti hafði hann tryggt sér jafntefli.

Ég var gjörsamlega eyðilagður enda vissi ég vel að stærsta höfuðleður lífs míns hafði gengið mér úr greipum. Í seinni skákinni slátraði einbeittur Carlsen mér og sló hann mig því út úr mótinu með 1,5 – 0,5 sigri. Það var huggun harmi gegn að hann endaði svo með því að vinna hið ógnarsterka hraðskáksmót og lagði heimsmeistarann Vishy Anand í úrslitum – 2- 0.

Hægt er að fylgjast með einvíginu í gegnum Skák.is og sérstaklega er hægt að mæla með umfjöllun Chess.com en þar hefur Fabiano Caruana, fyrrum áskorandi, aðstoðað við skákskýringar og gert það frábærlega.

Þriðja skákin fer fram á morgun og hefst kl.12.30

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Forsetaframbjóðandi greiddi fyrir viðtalið í NBC – Segir verðið trúnaðarmál – „I´m Gonna Win, There You Go“

Forsetaframbjóðandi greiddi fyrir viðtalið í NBC – Segir verðið trúnaðarmál – „I´m Gonna Win, There You Go“
Fréttir
Í gær

Halla tjáir sig um ferilskrána: „Ég hef enga ástæðu til að ýkja eitt eða neitt í mínum bakgrunni“

Halla tjáir sig um ferilskrána: „Ég hef enga ástæðu til að ýkja eitt eða neitt í mínum bakgrunni“
Fréttir
Í gær

Þrír forsetaframbjóðendur bera af á samfélagsmiðlum – Þetta eru tölurnar

Þrír forsetaframbjóðendur bera af á samfélagsmiðlum – Þetta eru tölurnar
Fréttir
Fyrir 2 dögum

CCP og Smitten efst á nýjum lista Great Place to Work

CCP og Smitten efst á nýjum lista Great Place to Work