fbpx
Föstudagur 21.janúar 2022
Fréttir

Skúli Tómas virðist hafa verið sviptur lækningaleyfi

Ágúst Borgþór Sverrisson
Laugardaginn 13. nóvember 2021 15:30

Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, Sjúkrahúsið í Keflavík. Mynd: Pjetur Sigurðsson.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Skúli Tómas Gunnlaugsson, fyrrverandi yfirlæknir hjá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja (HSS), er ekki lengur á starfsleyfaskrá Landlæknisembættisins. Takmarkaðu starfsleyfi hans rann út í gær, 12. nóvember, en leit að nafni hans í skránni núna skilar engri niðurstöðu.

Eva Hauksdóttir, aðstandandi konu sem Skúli setti í lífslokameðferð á HSS, að óþörfu, samkvæmt niðurstöðu rannsóknar Landlæknis, segir í viðtali við Mannlíf að henni sé létt sé raunin sú að Skúli hafi misst starfsleyfið:

„Mér fannst undarlegt á sínum tíma að landlæknir teldi forsendur fyrir endurveitingu starfsleyfis læknis á meðan hann sætir lögeglurannsókn vegna gruns um alvarleg brot í starfi gegn fjölda sjúklinga. Ég hef beðið í ofvæni eftir því að sjá hvort þetta takmarkaða starfsleyfi yrði framlengt eða rýmkað og þegar ég sá þetta í morgun varð ég fegin. Það er auðvitað mögulegt að það eigi bara eftir að skrá framlengingu eða rýmkun starfsleyfis en ég vona að svo sé ekki því mér finnst bara ekki boðlegt að hann beri ábyrgð á sjúklingum á meðan málið er í rannsókn.“

Lögreglurannsókn stendur yfir á störfum Skúla en hann grunaður um alvarleg brot gegn minnst sex sjúklingum. DV hefur áður fjallað ítarlega um þessi mál, meðal annars þann 18. ágúst. Í kjölfar rannsóknar Landlæknis á framgöngu Skúla með tilliti ákvarðana um að setja sjúklinga í lífslokameðferð var hann sviptur lækningaleyfi. Hann fékk hins vegar svokallað takmarkað starfsleyfi þann 12. maí síðastliðinn og hefur síðan þá starfað á Landspítala. Í svari við fyrirspurn DV um málið sagðist Landlæknisembættið ekki geta tjáð sig um málefni einstaklinga en svaraði svo almennt um veitingu takmarkaðra starfsleyfa:

„Takmörkun starfsleyfis heilbrigðisstarfsmanna, lækna sem annarra, getur verið með ýmsum hætti. T.d. tímabundið leyfi, leyfi sem er takmarkað við tilgreindan vinnustað, leyfi sem er háð handleiðslu, leyfi sem felur í sér að viðkomandi má ekki sinna ákveðnum verkefnum o.s.frv. Takmörkun er metin í hverju tilviki fyrir sig. Almennt gildir um takmörkuð starfsleyfi að viðkomandi starfar undir eftirliti eða umsjón á vinnustaðnum. Almennt gildir að sá sem viðkomandi heilbrigðisstarfsmaður vinnur hjá sendir embætti landlæknis greinargerð um framvindu.“

Þann 16. ágúst greindi DV frá því að sex fjölskyldur hefðu fengið réttargæslumenn í tengslum við rannsókn lögreglu á störfum Skúla, en 1. mars var greint frá því að Eva og systkini hennar hefðu kært Skúla til lögreglu vegna dauða móður þeirra á HSS haustið 2019. Móðirin var lögð inn til hvíldarinnlagnar á HSS, hún var sjúklingur en ekki í lífshættu. En samdægurs var hún sett í lífslokameðferð. Eiginmanni hennar var tjáð að hún væri dauðvona og það væri ekkert hægt að gera fyrir hana nema reyna að lina þjáningar hennar.

Konan hafði hins vegar ekki hugmynd um þetta sjálf og aldrei var rætt við hana um að hún væri í lífslokameðferð. Lífslokameðferð, sem eingöngu á að setja dauðvona sjúklinga í, og þá ávallt í samráði við ættingja, enda um teymisvinnu að ræða, varir yfirleitt í nokkra daga. En það tók konuna 11 vikur að deyja á HSS. Smám saman missti hún allan mátt, meðal annars vegna vannæringar.

„Hún stendur í þeirri trú að hún sé bara að koma þarna inn í nokkra daga til að hvíla sig. Það er mjög fljótlega farið að dæla í hana mjög slævandi lyfjum. Hún fær hvorki tækifæri til að hafna eða taka þátt í þeirri ákvörðun að hún sé sett á lífslokameðferð, né fær hún tækifæri til að hafna þessari lyfjameðferð né öðrum inngripum í hennar líkama,“ sagði Borghildur Hauksdóttir, systir Evu, í viðtali við útvarpsþáttinn Harmageddon þann 1. mars.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 18 klukkutímum

Binni Glee: „Ég er að fara deyja ef ég held þessu áfram“

Binni Glee: „Ég er að fara deyja ef ég held þessu áfram“
Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Guðmundur Felix kominn með kórónuveiruna – „Þetta var á brúðkaupsafmælinu okkar“

Guðmundur Felix kominn með kórónuveiruna – „Þetta var á brúðkaupsafmælinu okkar“
Fréttir
Í gær

Víðir fékk nóg af spurningaflóði Arnþrúðar á upplýsingafundinum – „Arnþrúður. Við höfum ekki tíma“

Víðir fékk nóg af spurningaflóði Arnþrúðar á upplýsingafundinum – „Arnþrúður. Við höfum ekki tíma“
Fréttir
Í gær

Berglind segir að þetta verði að stöðva strax – „Þúsund heimila eru flutt í hverjum mánuði yfir í sérstakan, leynilegan okurverðflokk“

Berglind segir að þetta verði að stöðva strax – „Þúsund heimila eru flutt í hverjum mánuði yfir í sérstakan, leynilegan okurverðflokk“