fbpx
Föstudagur 26.nóvember 2021
Fréttir

Nítján þolendur hópnauðgana hafa leitað hjálpar það sem af er ári

Kristján Kristjánsson
Þriðjudaginn 26. október 2021 08:00

Myndin tengist fréttinni ekki beint.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það sem af er ári hafa nítján manns leitað til neyðarmóttöku fyrir þolendur kynferðisofbeldis, vegna hópnauðgunar en það eru mál þar sem gerendur eru tveir eða fleiri. Heildarmálafjöldi á neyðarmóttökunni er nú orðinn meiri en allt síðasta ár.

Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag. Fram kemur að allt síðasta ár hafi 13 manns leitað til neyðarmóttökunnar vegna hópnauðgana og 2019 hafi þeir verið 6. Haft er eftir Hrönn Stefánsdóttur, hjúkrunarfræðingi og verkefnastjóra á neyðarmóttökunni, að ógnvænlegt sé hversu mikið þessum málum hafi fjölgað.

Hún sagði að allt kynferðisofbeldi veki upp mikinn ótta og áfallaviðbrögð hjá brotaþolum en þegar um hópnauðganir sé að ræða séu áfallaviðbrögðin mjög mikil, brotaþolar séu sviptir öllu valdi.

Hvað varðar stærð hópa gerenda sagði Hrönn hana vera misjafna. „Það er misjafnt, stundum eru jafnvel þátttakendur sem fylgjast með og þá eru þeir meðsekir,“ sagði hún.

Í heildina hefur 131 mál komið inn á neyðarmóttökuna það sem af er ári og eru málin orðin fleiri en allt árið í fyrra en þá voru þau 130 talsins. Af málunum sem hafa komið inn á neyðarmóttökuna á árinu hafa aðeins 43 verið kærð til lögreglu.

Aukning hefur orðið á kynferðisbrotum sem eru framin af vini eða kunningja. Þau voru 61 á síðasta ári miðað við 49 árið á undan. Þetta er að sögn Hrannar ein ástæða þess að svo fá mál eru kærð til lögreglunnar. „Það getur gert það enn erfiðara fyrir brotaþola að kæra þegar um er að ræða vin eða kunningja, eða jafnvel fjölskyldumeðlim,“ sagði hún.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt