fbpx
Föstudagur 26.nóvember 2021
Fréttir

Ein umfangsmesta kannabisræktun landsins fyrir dóm – Hjón á sextugsaldri og tveir synir þeirra meðal ákærðu

Ritstjórn DV
Mánudaginn 25. október 2021 16:15

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Nú hefur verið þingfest mál ákæruvaldsins gegn sex einstaklingum fyrir umfangsmikla kannabisræktun á Smiðjuvegi í Kópavogi sem komst upp um árið 2016 og eins gegn einum nafngreindum einstakling og þrotabúum tveggja fyrirtækja vegna viðtöku ávinnings af sölu fíkniefna. 

Upphaf málsins má rekja til aðgerða lögreglu í september 2016 þar sem lögregla stöðvaði umfangsmikla ræktun sem fór fram í húsnæði að Smiðjuvegi. Samkvæmt fréttum um málið á sínum tíma var um eina umfangsmestu kannabisræktun landsins að ræða.

Meðal þeirra sex ákærðu í málinu eru hjón á sextugsaldri og tveir synir þeirra á fertugsaldri. Auk þess er tengdardóttur hjónanna stefnt í ákæru til að þola upptöku á ávinning. Þegar lögregla stöðvaði ræktunina fundust 522 kannabisplöntur í húsnæðinu, rúmlega 9 kg af maríhúana og rúmlega 17 kg af kannabislaufum.

Ákærðu er einnig gert að sök peningaþvætti. Móðirin er sögð hafa lagt inn á reikning sinn tæpar sex milljónir í reiðufé og móttekið á sama reikning millifærslur frá öðrum ákærðum í málinu upp á rúmlega 21 milljón, en þeir hafi lagt fjárhæðirnar inn á eigin reikninga í reiðufé. Þetta fé hafi hún svo notað til að kaupa fasteign að Smiðjuvegi í desember 2014. Telur ákæruvaldið að kaupverðið hafi verið greitt með ávinning af refsiverðri starfsemi svo líkur leiða að ræktunin hafi staðið yfir um nokkurra ára skeið.

Ákæruvaldið fer fram á refsingu yfir ákærðu, upptöku á ræktunarbúnaði, fíkniefnum og fjármunum sem haldlagðir voru í kjölfar lögregluaðgerða.

Haldlagðir fjármunir nema um 27 milljónum og fundust inn á bankareikningum, í bankahólfum, í fórum ákærðu og á heimilum ákærðu við húsleit. Í húsleit hjá einum ákærða fundust um 10 milljónir í reiðufé.

Hluti fjármunanna er ágóði af sölu tveggja iðnaðarbila á Smiðjuvegi sem voru seld fyrir 75 m.kr. í nóvember 2016 – eftir að lögregla stöðvaði ræktunina. Eftir að áhvílandi skuldir voru greiddar vegna sölunnar stóðu eftir um 50 milljónir sem voru millifærðar inn á bankareikning föðurins, annars sonarins og til fyrirtækis í eigu fjölskyldunnar í málinu.

Ljóst er að fimm ár hafa liðið frá því að lögregla stöðvaði ræktunina, en ekki er ljóst hvers vegna svo lengi hefur dregist að ákæra í málinu. Ákæra er dagsett 23. september á þessu ári og þingfesting fór fram í dag. Í slíkum tilvikum hafa dómarar gjarnan dæmt vægari refsingar og jafnvel dæmt skilorð í einhverjum tilvikum sökum þess hve langur tími er liðinn. Margt getur breyst í lífi fólks á fimm árum og hefur það þótt ósanngjarnt að taka ekki tillit til þess við ákvörðun refsinga.

Samkvæmt hegningarlögum getur refsing vegna stórfelldra fíkniefnalagabrota numið allt að 12 ára fangelsi og allt að sex árum fyrir peningaþvætti og allt að 12 árum ef um er að ræða þvætti af ávinning af stórfelldu fíkniefnalagabroti.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt