fbpx
Laugardagur 20.apríl 2024
Fréttir

Múr og málaferli: Lekir gluggar og gallaðar svalir leiða til tugmilljóna skaðabóta

Ágúst Borgþór Sverrisson
Þriðjudaginn 19. október 2021 18:30

Mynd: já.is

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Múr- og málningarþjónustan Höfn ehf. og byggingastjóri einn þurfa að greiða húsfélaginu í Torfufelli 25-35  tæplega 34 milljónir króna og THG arkitektar hafa verið dæmdir til að greiða sama aðila tæplega 3,3 milljónir samkvæmt dómi sem féll í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag (19. október).

Málið er umfangsmikið og flókið og á sér langa sögu. Það var þingfest fyrir tveimur árum en dómtekið þann 21. september síðastliðinn. Það snýst hins vegar um framkvæmdir sem ráðist var í árið 2010 og vörðuðu endurnýjun á fjölmörgum gluggum og svalaskjólum í þessari stóru blokk, auk múrviðgerða og þakviðgerða.

Eldri gluggum var skipt út fyrir opnanleg PVC-fög. Kom síðan í ljós að næturlokun vantaði á nýju gluggana og blés inn um þá. Einnig lak inn um nýuppsetta gluggana.

Næstu árin var árangurslaust reynt að bæta úr þessum ágöllum en svo fór að húsfélagið ákvað að stefna þessum aðilum. Voru skaðabótakröfur upp á yfir 46 milljónir króna en tryggingafélag Múr – og málningarþjónustunnar Hafnar og byggingastjórans, Sjóvá-almennar, greiddi tæpar 11 milljónir út úr tryggingu þeirra. Tryggingafélag arkitektastofunnar, Tryggingamiðstöðin ehf, hafnaði hins vegar bótakröfu þar sem málið væri fyrnt.

Um kröfur húsfélagsins á hendur Múr- og málningarþjónustunni og byggingarstjóranum segir í texta dómsins:

„Stefnandi heldur því fram að hann hafi orðið fyrir tjóni sem stefndu Múr- og málningarþjónustan Höfn ehf. og Elías Víðisson byggingarstjóri beri óskipta ábyrgð á.
Þannig hafi Múr- og málningarþjónustan Höfn vanefnt verksamning með því að afhenda gallaða glugga og byggingarstjóri sýnt af sér saknæma háttsemi með vanrækslu í störfum sínum. Stefnukrafa stefnanda sé bótakrafa og byggð á niðurstöðum Hjalta Sigmundssonar, dómkvadds matsmanns, um hvað það kosti að bæta tjón stefnanda. Krafa stefnanda á hendur Múr- og málningarþjónustunni ehf. og byggingarstjóra, sem jafnframt er dómkrafa merkt A, sundurliðist með eftirfarandi hætti, að teknu tilliti til greiddrar bótafjárhæðar frá Sjóvá og fjárhæðar sem svari til 60% endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu á verkstað.

Krafa vegna frágangs, ísetningar og þéttinga með nýjum gluggum, næturlokana, gallaðra nýrra glugga kr. 46.273.000
Bætur úr vátryggingu byggingarstjóra kr. -9.755.800
Endurgreiddur 60% virðisaukaskattur af vinnu á verkstað kr. -2.365.189

Samtals bótakrafa vegna glugga kr. 34.152.011

Stefnandi heldur því fram að Elías byggingarstjóri beri ábyrgð á tjóni hans vegna frágangs, ísetningar og gæða nýrra glugga, samkvæmt gr. 32.2 í byggingarreglugerð nr. 441/1998, enda beri byggingarstjóri ábyrgð á því að byggt sé í samræmi við samþykkta uppdrætti, lög og reglugerðir.“

Húsfélagið stefndi hins vegar THG arktitektum fyrir hönnunarmistök varðandi gerð svalaskjóla:

„Stefnandi heldur því fram að um vanhönnun og/eða hönnunarmistök sé að ræða sem hönnuður, stefndi Halldór Guðmundsson, beri ábyrgð á og að THG beri ábyrgð á tjóni sem rekja megi til hönnunarmistakanna. THG hafi mátt vera ljóst að hönnun eða vanhönnun svalaskjólanna lokaði svo til alveg fyrir loftskipti á svölum og íbúðum, svo ekki væri hægt að loftræsta rými bak við svalaskjólin nema að opna skjólin fyrst. Auk þess sé hönnun/fyrirskrift flísalagnar á svalir án vatnshalla og það að vatn eigi greiða leið inn undir klæðningu af þaki, sem skili sér á svalir, sé andstætt byggingarreglugerð og faglegum vinnubrögðum.“

Múr- og málningarþjónustan ehf. og byggingastjóri verksins kröfðust sýknu í málinu og töldu sig hafa skilað verki sínu í samræmi við útboðsgögn, verklýsingu og þær kröfur sem gera megi til verks af þessu tagi. Meintir gallar á verkinu séu ósannaðir.

THG Arkitektar byggðu sína málsvörn hins vegar á því að skaðabótakrafan væri fyrnd.

Hátt í 40 milljónir í bætur

Héraðsdómur taldi aðilana skaðabótaskylda og dæmdi Múr- og málningarþjónustuna Höfn til að greiða húsfélaginu í Torfufelli 15-35 rétt tæplega 34 milljónir króna og THG arkitektum til að greiða húsfélaginu tæplega 3,3 milljónir.

Höfn þarf síðan að greiða 4,5 milljónir í málskostnað en málskostnaður vegna hluts THG arkitekta í málinu fellur niður.

Hér eru aðeins dregin fram helstu atriðin í langri sögu málsins sem nær allar götur aftur til ársins 2009 er ákveðið var að gera úttekt á ástandi húseignarinnar. Er málið allt rakið nákvæmlega í texta dómsins sem lesa má hér.

 

 

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Hvalur sprakk í tætlur

Nýlegt

Hvalur sprakk í tætlur
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Baldur um ófrægingarherferð gegn sér: „Þetta hefur engin áhrif á okkur Felix“

Baldur um ófrægingarherferð gegn sér: „Þetta hefur engin áhrif á okkur Felix“
Fréttir
Í gær

Þorgils vill erfðafjárskattinn burt: „Einhver ranglátasti skattur sem lagður er á í dag“

Þorgils vill erfðafjárskattinn burt: „Einhver ranglátasti skattur sem lagður er á í dag“
Fréttir
Í gær

Sanna birtir ferðasögu: Var lengur í strætisvagninum en í fermingarveislunni – „Það var gott að fá þessa strætóreynslu“

Sanna birtir ferðasögu: Var lengur í strætisvagninum en í fermingarveislunni – „Það var gott að fá þessa strætóreynslu“
Fréttir
Í gær

Siggi stormur óvenju bjartsýnn varðandi sumarið – „Ég er eiginlega í sjöunda himni yfir þessu”

Siggi stormur óvenju bjartsýnn varðandi sumarið – „Ég er eiginlega í sjöunda himni yfir þessu”