fbpx
Föstudagur 13.desember 2024
Fréttir

Karl og Brynjar í hár saman vegna nauðgunardóms Kjartans

Ritstjórn DV
Mánudaginn 27. ágúst 2018 11:32

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ákvörðun SS að stöðva birtingu á auglýsingum þar sem Kjartan Guðjónsson var í aðalhlutverki hefur vakið athygli og er ákvörðunin umdeild. Stjórnendur SS tóku þessa ákvörðun eftir að hafa fengið fregnir af því að Kjartan hefði hlotið dóm fyrir hrottafengna nauðgun árið 1989.

Brynjar Níelsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins er einn af þeim sem hefur fjallað um þessa ákvörðun sem og þá sem komu þeim upplýsingum á framfæri að Kjartan hefði verið dæmdur fyrir um 30 árum. Karl Th. Birgisson sem á og ritstýrir Herðubreið gagnrýnir báðar afstöður í pistli á vef sínum.

„Upp er sprottin klassísk íslenzk umræða um tiltekið mál, sem felur þó í sér miklu stærri spurningar sem enginn reynir að svara. Hún er klassísk að því leyti, að hvorugt sjónarmiðið sem þar tekst á stenzt nokkra skoðun. Ég er tala um mál Kjartans Guðjónssonar leikara. Leiklistarneminn Vilhelm Neto tísti á dögunum í þá veru, að ólíðandi væri að leikarar, sem hefðu verið kærðir fyrir nauðgun, fengju sífellt vinnu eins og ekkert væri,” skrifar Karl.

Rétt er að taka fram að Vilhelm nafngreindi Kjartan ekki en það var þó gert undir tísti hans á Twitter af öðrum notanda. Vilhelm hefur greint frá því að hann hafi verið áreittur af þeim sem eru á öndverðri skoðun. Hann greinir frá því á Twitter að málið hafi valdið honum talsverðum kvíða. „Það er mjög erfitt að borða. Það er mjög erfitt að sofna. Allt er orðið mjög erfitt. Langar í frið. Í morgun það eitt að fjölmiðlar væru að hringja í mig let mig æla úr kvíða,“ skrifar Vilhelm. Fjöldi manns hefur lýst yfir stuðningi við Vilhelm og þar á meðal nefna leikarann Þorstein Guðmundsson sem segir á Twitter: „Ég stend með @VilhelmNeto og rétti hans til þess að tjá sig.“ Sú færsla hefur fengið ríflega fjögurhundruð læk.

Ljósmynd: DV/Hanna

Karl Th. bendir á að færslan hafi einungis verið upphafið að málinu. „Ef rétt er haft eftir er þarna í bezta falli hugtaka- eða orðaruglingur hjá Vilhelm. Eitt að vera kærður, annað að vera ákærður og allt annað að vera sakfelldur. Hið síðarnefnda á við í máli Kjartans. Það er reyndar ekki ljóst, sýnist mér, hvort Vilhelm átti við Kjartan í þessu tísti, en allt að einu leiddi einhver atburðarás til þess að mál hans var rifjað upp. Hann fékk semsagt fimmtán mánaða dóm fyrir nauðgun fyrir næstum 30 árum,“ skrifar Karl.

Karl setur spurningarmerki við þessa afstöðu. „Gott og vel. Vilhelm og samsinnendur hans eru frjálsir að þessari skoðun, en þeir skulda viðmælendum sínum að minnsta kosti svar við einni spurningu. Hvers vegna? Ef leikstjóri eða jafnvel leikhússtjóri vilja nýta ómælda hæfileika Kjartans Guðjónssonar, hvers vegna mega þeir það ekki? Því hefur ekki verið svarað svo vart hafi orðið við. Það vantar semsagt lágmarksrökstuðning fyrir kröfunni um að Kjartan Guðjónsson megi hvergi leika,“ skrifar Karl.

Hann nefnir nokkur dæmi máli sínu til stuðnings. „Mig grunar að djúpt sé á þessum rökum, því að þegar þau koma fram þurfa þau líka að fela í sér svar við anzi mörgum öðrum spurningum. Nefnum fáein dæmi. Nú geri ég vonandi síðastur manna lítið úr alvöru kynferðisbrota – hjálpi okkur –, en til eru aðrir alvarlegir glæpir. Hvað með morðingja? Mega þeir vera leikarar? Mega þeir vera kennarar? Hvað með þann sem keyrir fullur og verður þannig manns bani? Má hann vera leikari? Má hann vera læknir? Hvað með fjárglæframennina, sem fengu margir þyngri dóm en Kjartan? Mega þeir vera leikarar? Mega þeir vera sjónvarpsmenn? Og svo framvegis út í hið óendanlega. Mig grunar að Vilhelm og skoðanasystkin hans hafi ekki endilega hugsað afstöðu sína til hlítar. Allajafna er betra en ekki, að skoðun eða afstaða sé ígrunduð,“ skrifar Karl.

Karl Th. Birgisson

Hann telur að nauðgun Kjartans tengist ekkert leiklist. Þeir sem telja að Kjartan eigi ekki að hafa leiklist sem atvinnu benda þó á að málið snúist um hvort hagsmunir fórnarlambs hans að þurfa ekki að sjá ofbeldismann sinn í sjónvarpinu vegi hærra. „Við þekkjum kröfur til dæmis um að barnaníðingar séu ekki í starfi sem setur þá í návígi við börn. Það eru sjálfsagðar kröfur, eðli málsins samkvæmt. Það furðulegasta við kröfuna um vinnubann á Kjartan er hins vegar, að brot hans kom starfi hans eða leikhúsinu ekkert við. Nákvæmlega ekki neitt. Og því er spurt hvers vegna? Hvers vegna má hann ekki starfa sem leikari? Þangað til þeirri spurningu er svarað – og líka hinum nokkur hundruð um hvaða almenna regla eigi að gilda hér um Berufsverbot á alls kyns fólk – þangað til verður fullyrðing leiklistarnemans merkingarlaus upphrópun ein og meinbægni,“ skrifar Karl.

Hann segir þó að afstaða Brynjars sé síst skárri. „Brynjar Níelsson virðist óþreytandi við að bera á torg vondar skoðanir. Stundum eru þær settar fram beinlínis til að stríða eða ögra, en samanlagt benda þær til lífsafstöðu sem er soldið sérkennileg og nauðsynlegt er að andmæla. Brynjar er sumsé á því að fjölmiðlar eigi ekkert að fjalla um svona mál, sérstaklega gömul mál, sem valda viðkomandi, fjölskyldu hans, vinum og vandamönnum sársauka. Það er rétt, að þessi umfjöllun hefur áreiðanlega valdið Kjartani og öllum í kringum hann sárindum, og það er alltaf vont þegar fólki líður illa. En hvað er Brynjar Níelsson samt að segja? Vill hann meina fjölmiðlum að fjalla um tiltekin mál? Það er talsvert stór skoðun þegar alþingismaður á í hlut,“ skrifar Karl.

Hann segir að Brynjar verði að færa betri rök fyrir skoðun sinni. „Eða vill hann að ekki sé fjallað um atvik tilteknum árafjölda eftir að þau gerast? Þá gæti orðið brátt um ýmsa sagnfræði, ekki sízt samtímasagnfræði. Eigum við að nefna Guðmundar- og Geirfinnsmál, af svo ótalmörgum öðrum dæmum? Eða vill hann að fjölmiðlar fjalli bara um hin svokölluðu góðu og jákvæðu mál? Þá yrði sama frétt daglega á forsíðum allra blaða. „Sólin kom upp í morgun og þú ert ennþá á lífi.“ Eða hvað? Hvaða almennu stefnu er Brynjar að boða með þessari afstöðu sinni? Er hún yfirleitt nokkur, ef grannt er skoðað? Svarið virðist vera einfalt nei. Nema þingmaðurinn færi betri rök fyrir máli sínu,“ skrifar Karl.

Hann segir að lokum að umræða um þetta sé þörf. „Sko. Það er ekki hlutverk fréttamiðla að láta fólki líða vel. Ekki frekar en það er tilgangur þeirra að valda fólki vanlíðan. Skárra væri það nú. Hlutverk þeirra er að greina frá að gefnu tilefni, í mjög einfölduðu máli. Í tilvikinu sem hér um ræðir gafst sannarlega tilefni. Og allt þetta mál er sannarlega tilefni til að ræða almennilega það sem virðist vera óleyst ágreiningsmál, með rökum og gagnrökum, um fjölmiðla, um hvað má segja og hvað er jafnvel gott að segja. Vilhelm Neto, Brynjar og viðhlæjendur þeirra þurfa nauðsynlega á slíkri umræðu að halda. Þau virðast nefnilega halda að hálf hugsun nægi, og að rétt sé að öll vitleysan sé eins. Þangað til þau byrja aftur á sömu þulu á næsta ári eða þarnæsta. Á þess að hafa þokazt spönn frá rassi. Það er líka klassískt,“ skrifar Karl.

Brynjar svarar Karli í athugasemd á Facebook og segir hann vera úti á þekju: „Þetta er ekki þinn besti pistill, Karl. Þú ruglar saman ólíkum hlutum. Ég er ekkert að segja að ekki megi ræða gömul sakamál í fjölmiðlum, hvað þá ræða almennt um brot eða brotaflokka. Ég skrifaði tvær færslur um sitt hvorn hlutinn um helgina. Annars vegar um að fjölmiðlar væru klappstýrur þegar fólk sakaði aðra um alvarleg brot sem áttu að hafa gerst fyrr árum eða áratugum saman en aldrei kærð og engin rannsókn farið fram. Þessu endurvarpa fjölmiðlar gagnrýnislaust með alvarlegum afleiðingum fyrir viðkomandi og fjölskyldu hans. Hins vegar skrifaði ég annan pistil sem ég gagnrýndi þau viðhorf að menn sem hafa verið dæmdir ættu að vera útskúfaðir ævilangt eins og leiklistarneminn taldi eðlilegt hvað varðar atvinnu. Menn geta verið ósammála þessu en í þessu felst engin vitleysa.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 8 klukkutímum

Sakar Viðskiptaráð um þráhyggju og áróður – „Því er eðlilegt að spyrja hvað vaki fyrir Viðskiptaráði með jafn villandi framsetningu?“

Sakar Viðskiptaráð um þráhyggju og áróður – „Því er eðlilegt að spyrja hvað vaki fyrir Viðskiptaráði með jafn villandi framsetningu?“
Fréttir
Í gær

Henrietta segir foreldrajafnrétti stærsta jafnréttismálið – „Þetta misrétti hef ég upplifað á eigin skinni“

Henrietta segir foreldrajafnrétti stærsta jafnréttismálið – „Þetta misrétti hef ég upplifað á eigin skinni“
Fréttir
Í gær

Tók meira en tvö ár að fá svör frá Reykjavíkurborg

Tók meira en tvö ár að fá svör frá Reykjavíkurborg