fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fókus

Guðmundur er sannfærður um helgi Strandarkirkju: „Ég hef aldrei snúið baki við guði“

Kristinn H. Guðnason
Þriðjudaginn 25. desember 2018 12:00

Bakkus Guðmundur var túramaður og stóð höllum fæti í átta ár.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Guðmundur Brynjólfsson gaf nýlega út bókina Eitraða barnið. Hún er glæpasaga, skrifuð inn í sögulega sviðsmynd Árnessýslu í kringum aldamótin 1900. Guðmundur er djákni og innilega trúaður og jafnframt heltekinn af myrkum hliðum mannlífsins og óhræddur við að stuða fólk, hvort sem er í bókum sínum eða hárbeittum pistlum. DV ræddi við Guðmund um æskuna á Vellinum, rótleysið og árin í drykkju, hið myrka í mannskepnunni og ljósið í trúnni.

Þetta er brot úr stóru viðtali í helgarblaði DV.

Djákni í kraftaverkakirkju

Guðmundur starfar með séra Baldri Kristjánssyni sem djákni í Þorlákshafnarprestakalli. Hafa þeir umsjón með Þorlákskirkju í Þorlákshöfn, Hjallakirkju í Ölfusi og hinni þekktu Strandarkirkju í Selvogi. Í daglegum störfum felst meðal annars umsjón með sunnudagaskólanum, heimsóknir til eldri borgara og geðfatlaðra, útköll í líknarþjónustu, predikanir í messu og afleysingar fyrir sóknarprestinn.

Hefur þú alltaf verið trúaður?

„Já, frá blautu barnsbeini. Ég hef aldrei snúið baki við guði. Iðkunin hefur verið mismikil í gegnum tíðina en ég hef alltaf lesið mikið í Biblíunni og trúarheimspeki. Ég pæli líka mikið í mystík og táknmáli en er enginn grillufangari í talnafanatík eða slíku. Það er samt aðallega fyrir forvitni sakir. Ég trúi fyrst og fremst á Jesú Krist, krossfestan, grafinn og upprisinn.“

Trúir þú á illsku og jafnvel djöfulinn sjálfan?

„Já, en ekki á djöfulinn í þeirri mynd að hann sé með horn og hala. En ég trúi að djöfullinn birtist manninum í hinum ólíkustu myndum. Í voðaverkum frömdum af ásetningi og ráðabruggi. Í einræðisherrum og manndýrum sem hafa ríkt víða um jörðina. Lengi vel trúði ég ekki á illsku. En eftir að hafa hlýtt á fyrirlestur hjá fangapresti sannfærðist ég um að það væru til vondir menn. Ég sá þetta líka sjálfur þegar ég hrærðist í myrkraheiminum og kynntist fíklum, handrukkurum og sakamönnum. Sumir voru afvegaleiddir en aðrir eiginlega vondir og nutu engrar virðingar hjá hinum, voru óforbetranlegir. Ég tel að það sé sjálfsblekking hins borgaralega samfélags að allir geti tekið sig á. Þetta er ekki stór hópur, en þó nokkrir.“

Íslendingar hafa heitið á Strandarkirkju síðan á þrettándu öld. Sagt er að kirkjan hafi verið byggð eftir að skipstjóri hét á Maríu mey þegar skip hans lenti í aftakaveðri. Himneskt ljós í engilsmynd lýsti þeim þá leiðina að ströndinni þar sem kirkjan reis. Guðmundur segir að fólk heiti enn þá á Strandarkirkju, sérstaklega eldra fólk.

„Ég trúi einlæglega á helgi þessa staðar og finn fyrir henni. Einnig fæ ég að heyra sögur frá fólki sem hefur heitið á kirkjuna með góðum árangri. Í haust sagði kona, rúmlega níræð, mér frá því að hún hefði verið nær dauða en lífi vegna veikinda fyrir um hálfri öld. En náði bata eftir að sonur hennar fór að heita á Strandarkirkju af mikilli ákefð. Henni batnaði og hefur aldrei kennt sér meins síðan.“

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt